fimmtudagur, apríl 27, 2006
laugardagur, apríl 22, 2006
Fullkomin eiginkona
Hvernig skal sú kona vera,
sem karli þarf til hæfis að gera.
Hún þarf að vera undurfríð,
og karli ávalt blíð.
Með matinn alltaf á réttum tíma,
og eigi sitja og hanga í síma.
Skyrtan strokin inni í skáp,
og ekkert óþarfa búðarráp.
Að baka konan þarf að kunna,
og haga sér eins og nunna.
Börn skal konan manni sínum ala,
og ekki yfir íþróttum tala.
Karlinum þarf hún sífelt að hæla,
og á kvöldin við hann gæla.
Konan skal halda vextinum fínum,
þó karlinn tapi sínum.
Karlinn á að styðja í framapoti,
og ekki vekja úr fyllerísroti.
Heimilið skal vera strokið og fínt,
svo karlinn geti það öðrum sýnt.
Konan skal kunna að negla og saga,
svo ekki hún þurfi karlinn að plaga.
Garðinn að hreinsa og bílinn að bóna,
og bursta af karlinum skóna.
Svo skal hún vera sæt og fín,
svo karlinum glepjist ekki sýn.
En ef hann rær á önnur mið,
skal konan halda frið.
Þá vitið þið það eflaust nú,
að vandi er að vera frú.
Ég held að það eigi bara ekkert einasta við mig hérna enda á ég ekki kall í dag... ég myndi frekar kalla þetta gólfmóttu en fullkomna eiginkonu, öss öss!
fimmtudagur, apríl 20, 2006
Átveisla og færibandavinna
Páskarnir búnir og sumarið komið, jibbý! Við mæðgur höfðum það alveg súpergott um páskana, átum yfir okkur af mat og súkkulaði og sváfum alveg heilan helling. Það er alveg yndislegt að eiga barn sem elskar að sofa út og nennir endalaust að kúra á morgnana. Að vakna snemma heima hjá mér er að vera komin á fætur fyrir 9.00... það gerist mjög sjaldan nema á vinnudögum :)
---
Leikskólafréttir... Menntasvið virðist ekki ætla að standa við að halda fund með foreldrum leikskólans öðru hvoru megin við páska, alla vega hefur ekkert fundarboð borist enn. Ég er alla vega búin að sækja um skólavist fyrir skottuna mína í Landakotsskóla, ég vona bara að hún fái þar inni. Ef við komum til með að búa í vesturbænum næstu 12 árin þá mun hún bara klára skólann þar. Mér finnst það samt svolítið haldhæðnislegt að vinstribelgan og jafnaðarmaðurinn ég sé að setja barnið mitt í einkaskóla.. ef ég gæti beðið þá myndi ég frekar setja hana í Melaskóla en það er víst ekki í boði fyrir 5 ára börn
---
Húsnæðismálin... við María erum að fara að flytja, við fengum úthlutað stærri íbúð og flytjum yfir í tíuna 3. maí. Íbúðin er 13 fm stærri en sú sem við erum í og með aukaherbergi og geymslu inn af eldhúsinu. Eini ókosturinn er að það skín lítil sem engin sól á svalirnar- en ég er nú engin svaka svalamanneskja :)
---
Skólamálin.. nú er tími færibandavinnu, einhvern veginn verður þetta alltaf svona á þessum tíma. Verkefnin verða til á færibandi, hópverkefnið sem ég er í núna er aðeins skárra en það sem við vorum í síðast en samt ekkert ofurskemmtilegt- en skárra... Svo eitt verkefni eftir það sem er nú aðeins skemmtilegra, um ímyndir fatlaðra í prentmiðlum. Svo er prófatíðin, hún verður stutt að þessu sinni sem betur fer. Ég fer í eitt heimapróf, 1.-8.maí. þannig að 8. maí er ég búin í prófum og komin í sumarfrí frá skólanum, alvöru sumarfríið er svo í júlí þegar leikskólann lokar.
---
Þangað til næst, lifið heil eða hálf, hvernig sem ykkur hentar. Ég ætla alla vega að lifa í botn, í heilu lagi :)
sunnudagur, apríl 09, 2006
Verkefni, árshátíð, leikskólnn og leti dauðans
Ég, Hildur og Kolla erum að gera verkefni sem gengur ekkert alltof vel... eiginlega gengur mér bara ekki neitt. Ég hef engan grunn í þessu og mér finnst þetta eiginlega ekki skemmtilegt- þegar maður er latur eins og ég er þessa dagana þá verður maður ennþá latari þegar maður er að gera eitthvað sem er ekki skemmtilegt :)
---
Ég skellti mér annars á árshátið Háskólans í gær. Maturinn var klikkað góður: Skelfiskur, túnfiskfille, lambafille og súkkulaðikaka. Algjör draumur. Hundur í óskilum var með skemmtiatriði, þvílíku snillingarnir. Þeir hafa það víst að markmiði að taka leiðinleg lög og gera þau að einhverju öðru. Hljóðfærin þeirra eru blokkflauta, kassagítar, kassagítar með rafmagnstæki, selló, hárblásari, banjo og svona ástralskt frumbyggjablásturshlóðfærði... Þeir sungu Rabbabara Rúna á ástralska vísu með blástursgræjunni, færðu Hotel California upp á íslenska vísu, Sesseljubúð, og spiluðu undir á banjo. Final Countdown sungu þeir eins og Gipsy Kings hefðu gert ef þeir hefðu spilað það og margt margt fleira- ég nánast grét allan tímann meðan þeir voru á sviðinu.
---
Sigurður J. Grétarsson sálfræðiprófessor hélt hátíðarræðu, þvílíki húmoristinn. Greyið fékk sjokk þegar hann áttaði sig á því að Háskóli Íslands væri ekki bestur í heimi og það væri stefnan að koma honum í hóp 100 bestu... Hann var með mjög útpæld ráð við því, eins og að sameinast MR, hætta að tala um skandala og tala bara um rannsóknir og fá Nóbelsverðlaunahafa til að sitja námskeið í HÍ- en fyrir það fá stig á Sjanghæ kvarðanum.
---
En allt annað mál, þar hef ég ekki sýnt letina mína! FS ætlar að yfirtaka rekstur leikskólans Leikgarðs. Samkomulag var víst undirritað 1992 um að það væri hægt en nú á að keyra þetta í gegn, án samráðs við nokkurn nánast. Alla vega ekki foreldra eða starfsfólk. Leikskólinn á að verða smábarnaleikskóli því það vantar víst dagvistunarúrræði fyrir börn á aldrinum 6 mánaða til 2 ára. Getur vel verið svo, en loka á leikskólanum Efri Hlíð til að þetta verði að veruleika en hann er einmitt fyrir 24 börn á þessum aldri???
---
Ég er svo reið yfir þessu, ég treysti ekki Félagsstofnun stúdenta fyrir að rekstri leikskóla dóttir minnar. Þeir stóðu sig alla vega ekki þar sem hún var áður. Af hverju ætti ég að treysta þeim núna? Við foreldrar barna á leikskólanum erum sett á milli steins og sleggju. FS hefur boðið öllum starfsmönnum leikskólans að halda áfram ef að yfirtökunni verður, eða þegar, en það er ekki svo auðvelt. Flestir hafa sagst ætla að hætta. Ég sendi fyrirspurn til FS varðandi málið og þar kom skýrt fram að þeir ætla ekki að hafa mikið fyrir því að halda í það fólk sem fyrir er, þeir ætla að auglýsa stöðurnar og ráða nýtt fólk.
---
Ég talaði við deildarstjórann hennar Maríu um þetta mál og hún mældi með því að ég skoðaði Landakotsskóla fyrir hana, hún væri alveg týpan í skóla en ætti mjög erfitt með að skipta um leikskóla. Svo er líka annað, ég gerði dvalarsamning við Reykjavíkurborg en ekki Félagsstofnun stúdenta um leikskóladvöl dóttir minnar. Má borgin bara afhenda næsta manni minn saming og láta hann sjá um framkvæmd hans án þess að ræða nokkuð við mig?
---
Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að FS myndi hætta við, það er víst það eina í stöðunni núna. Engin getur sagt neitt, ekki Menntasvið, ekki foreldrar og ekki starfsfólk. FS ætlar sér að yfirtaka reksturinn.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)