föstudagur, september 30, 2005

Allt í vinnslu

Það er vægast sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana, ég er eiginlega bara að drukkna. Það er líka brjálað að gera hjá Nonna og mamma verður með ömmu um helgina svo það er ekki góðar líkur á pössun þar. En fyrir mánudaginn verð ég að vera búin með:
  • Lagakaflann í ritgerðinni, á ca helming eftir
  • Kenningakafla í ritgerð um félagslegar aðstæður fatlaðra, ekki byrjuð á því
  • Kynningu um hugtakið University of the Third Age, við María vorum að klára það áðan.

Fyrir þriðjudaginn

  • Klára kenningarkafla í annarri ritgerð um fatlaða, ég ætla að vera sniðug og nota sama kafla og á mánudag
  • Klára velferðarkaflann í ritgerðinni, ekki byrjuð á því
  • Undirbúa mig fyrir hópverkefni í Skipulagi fræðslu, ekki byrjuð á því

Fyrir miðvikudaginn

  • Klára sögulega kaflann um menntun í ritgerðinni, ekki byrjuð á því
  • Finna heimildir fyrir hópverkefni með Maríu, ekki byrjuð á því

Fyrir fimmtudaginn

  • Klára hinn kaflann um menntun í ritgerðinni
  • Klára krísukaflann í ritgerðinni
  • Klára lokaorð fyrir ritgerðina

Fyrir föstudaginn

  • Klára inngang fyrir ritgerðina

Á föstudaginn þarf ég svo að fá lagakaflann frá Róberti frænda, lagfæra ef þarf. Setja ritgerðina í eitt skjal og skila til JTJ.

Fyrir utan þetta er hellingur af lesefni sem situr á hakanum :( HJÁLP

miðvikudagur, september 28, 2005

Lögfræðingur eða laganemi

Einhver gefðu þig fram?

The Final Tax!

Við Hildur vorum að spjalla saman í dag um muninn á bálförum og jarðarförum. Hildur var orðin ansi létt á því (ekki í glasi samt) eftir samtalið við RT um ritgerðina og skellti þessu svo skemmtilega fram. Við spáðum fram og til baka um þetta, burtséð frá trúarbrögðum og öllu því þá fannst okkur í raun skárra að vera brenndur, þá verður maður jú ekki étinn.
En þá kom Hildur með gullið, ef maður er jarðaður á hefðbundinn hátt þá er maður í raun að gefa jörðinni sem maður hefur alið allt sitt líf næringu, svona ...final tax :) Það er náttla ekki hægt að þiggja endalaust, einhvern tímann verður maður að gefa af sér og ef þetta er ekki síðasta tækifærið þá veit ég ekki hvað!

þriðjudagur, september 27, 2005

...kollegar þínir

Á ég kollega, er ég orðin svo fullorðin? Ég var í viðtali hjá JTJ í gær og hann sagði mér frá samtali sínu við kollega mína. Mér fannst þetta mjög fyndið, að ég skuli eiga kollega!
Hann er alla vega búin að fara yfir uppkastið, ég var orðin mjög stressuð áður en ég hitti hann. Ég bjóst alveg eins við því að hann myndi koma með einhver komment um að bæta við efni, það er bara svo hann eitthvað. Hann sagðist reyndar sakna þess að sjá ekki umfjölllun um samskonar vandamál erlendis en ritgerðin sjálf væri mjög efnismikil og því kæmi það kannski ekki að sök, kannski ég pæli eitthvað í því, ég veit það ekki.
Hann vill að ég stytti einn kafla án þess þó að tapa nokkru úr honum, svo vill hann að ég lengi annan kafla. Auk þess á ég að búa til þráð í gegnum ritgerðina, ég vildi óska þess að ég hefði haft diktafóninn minn hjá honum þegar hann komst á flug. .. svo hérna gætirðu sagt að ekki sé hægt að vísa nemenda úr skólakerfinu, heldur færa hann á milli úrræða velferðarkerfisins...
Ég var alla vega sátt við kallinn, mér fannst hann mjög sanngjarn og ég var alveg sammála hans athugasemdum. En hvenær ég á að skila, það er bara þegar ég er búin.... ég get lofað því að ég á eftir að vinna í þessu alveg fram að útskrift.

mánudagur, september 26, 2005

Fattarinn smá seinn :)

Gat verið ég var klukkuð, meira að segja tvisvar. Takk elskurnar mínar, Valla og Erna að hugsa til mín :) Á ég að setja fram 10 atriði fyrst það er búið að klukka mig tvisvar eða hvað?
  1. Ég er sjúklega hrædd við beljur sem ekki eru bundnar í bás, ég notaði meira að segja Önnu Maju (eldri) sem skjöld í gamla daga þegar við þurftum að standa fyrir beljunum þegar verið var að reka þær.
  2. Ég er líka alveg hryllilega lofthrædd, ég svitna á tánum og í lófanum þegar ég er hátt uppi eða horfi á einhvern hátt uppi, alveg sama hvort það er í sjónvarpinu eða í raunveruleikanum.
  3. Ég get verið stundum mjög gagnrýnin, stundum einum of án þess að átta mig á því.
  4. Ég hef oftar en einu sinni reynt að borga með FS-þvottakortinu í 10-11, Bónus og á kaffistofunni í Odda.
  5. Mér finnst ógeðslega gaman að pæla í pólitík, og ég skil ekki fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn.

Ég læt bara vaða eitt klukk í viðbót :)

  1. Mér fannst ógeðslega töff að kýla einhvern í gamla daga og lagði mikið upp úr því að læra að kýla undir ábyrgri leiðsögn gamals vinar sem var ansi reyndur í þeim bransa.
  2. Ég æfði mig með einni vinkonu að læra að reykja fyrir partý þegar ég var 14 ára, æfingatólin voru stubbar eftir Maju systir.
  3. Ég hélt að ég hefði fundið draumaprinsinn þegar ég var 16 ára, sem betur fer áttaði ég mig á því að samfélagið býður upp á betri drauma.
  4. Ég ætlaði að verða gullsmiður þegar ég yrði stór og læra í Finnlandi.
  5. Sumir segja að ég sé algjör frekja en ég vil meina að ég sé ákveðin með frekjuívafi.

Svona, þá er þetta komið og ég klukka Hildi Höllu, Ingunni og Sigurrósu

sunnudagur, september 25, 2005

Ingibjörg Hekla

Ingibjörg Hekla er nafnið á nýjustu prinsessunni í fjölskyldunni, mjög fallegt og íslenskt nafn. Prinsessan er sem sagt dóttir Jóhönnu og Jóhanns, ég átti alls ekki von á þessu nafni, það er orðið svo sjaldgæft að börn í dag fái gömul íslensk nöfn.
Mamma laug því reyndar að Maju að skvísan hefði fengið nafnið Karólína Fjóla.... Maja þagði víst bara í símann. Það hefði reyndar alveg getað verið svo því Guðrún (amman) heitir Guðrún Karólína, Karólínu nafnið hefur reyndar ekki átt neinum vinsældum að fagna í fjölskyldunni.
En með nöfnin, fólk virðist stundum vera í einhverri keppni. Það þykir ekki flott ef að margir heita sama nafni. Eru nöfnin þá ekki falleg? Ég verð að viðurkenna að ég athugaði það ekki hversu margir hétu María Rún, mig langaði að skíra barnið Maríu burtséð frá því að báðar fjölskyldurnar hafi í raun overdosað á því fallega nafni :)
María er annars mjög upptekin af öllum fræðingum samfélagsins þessa dagana. Hún segist vera leikskólafræðingur, ég er háskólafræðingur og Nonni vinnufræðingur. Í skírninni í gær toppaði hún allt, hún sá prestinn en spurði mig svo hvar skírnarfræðingurinn væri.... Hún hélt að presturinn væri bara gestur í skírnarveislunni.
Nóg af bulli núna, uppkastið af ritgerðinni hefur ekki enn sést :)

föstudagur, september 23, 2005

Alveg pollrólegur

Hann JT er nú með þeim rólegri sem finnast hér á landi, ég held að það sé nokkuð ljóst. Í dag er skiladagur á lokaritgerðum við deildina sem þýðir að ég eigi að skila ritgerðinni minni í dag... ekki alveg. JT er búin að vera með uppkastið af blessaðri ritgerðinni í 10 daga og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af frestinum, hann myndi redda því :) Ég sendi honum svo annað uppkast í gær, ég var búin að vinna svolítið í hinu uppkastinu svo að ég ákvað að senda gamla nýjasta eintakið... bara svona smá update. Mig langar samt svo að losna við ritgerðina og fá einkunn fyrir hana, það er alveg nóg annað í pípunum að gera.
Út í allt annað, Sunnefa vinkona er orðin fræg. Ekkert smá fræg, það er viðtal við hana í Vikunni um flakkið og ástina í Chile. Með fylgir ótrúlega flott mynd af henni, kannski ekkert ótrúlega, hún er náttla algjer bjútí in pörsón.
Allir að leggjast á bæn og biðja þess að JT fari að skila mér uppkastinu af ritgerðinni svo ég geti bundið blessunina inn.

miðvikudagur, september 14, 2005

Das uppkast is gone

Sko, ég var að senda JTJ uppkastið af ritgerðinni minni. Búin að stytta hana helling en hún er samt ennþá alltof stór :) 16.500 orð (15.000 hámark) og 57 bls. Ég vona að hann sé sáttur við það... reyndar er hvorki Inngangurinn, né lokaorðin í þessum tölum. Ég ætla ekki einu sinni að hugsa um þetta fyrr en ég fæ þetta tilbaka...

þriðjudagur, september 13, 2005

Öll börn fæðast vangefin!

Á Íslandi býr misgáfulegt fólk, þökk sér margbreytileika mannkyns. Á næsta borði við mig hér á Hressó sat einn maður, greinilega ekki edrú. Í daglegu tali er vísað til þess hóps sem hann tilheyrir sem róna eða ógæfufólks. Hann var búinn að reyna að tala við mig um eitt og annað, eins og að fá að prufa símann mig og svona þegar hann spurði mig hvað ég væri að gera, samtalið okkar var svona:
ÉG: uppeldisfræði (ég reyndi að svara honum eins snubbótt og ég gat án þess að vera dónaleg)
HANN: Í Háskólanum?
ÉG: Já
HANN: Þú verður að passa þig að læra ekki yfir þig
ÉG: Já
HANN: Þú veist að öll börn fæðast vangefin
ÉG: Nei
HANN: Afhverju kunna þau þá ekki að tala þegar þau fæðast, segja bara gaga og gúgú?
ÉG: Því þau hafa ekki þroska til annars
HANN: Eru þau þá ekki þroskaheft?
ÉG: Nei
HANN: Þarf ekki að kenna þeim að tala?
ÉG: Jú
HANN: Eru þá ekki öll börn vangefin þegar þau fæðast?
ÉG: Nei
HANN: Þú skalt sko ekki þræta um þetta við mig, þú þarft greinilega að læra meira. Ég er sko læknir og veit allt um þetta.
Sagði maðurinn sem vissi ekki hvaða dagur er í dag, og var að spá í því hvort 11.september hefði ekki örugglega verið í gær.

mánudagur, september 12, 2005

Blessuð sveitin

Að kafna úr stressi lagði ég upp í langferð með mínum nánustu, ferðinni var heitið norðu í Vindhæli en smölun að hefjast. Við gistum í bústað á Blönduósi með Maju, Begga, Önnu Maríu og Ottó Má. Strákarnir voru af stað langt á undan okkur enda fóru þeir í göngurnar en við létum okkur nægja að fara í fyrirstöðu. Reyndar var aldrei þessu vant krögt af fólki upp í dal, rúmlega 20 manns fóru frá Vindhæli annað hvort ríðandi, gangandi eða á bíl.
Við hentumst svo úteftir rétt um hádegi enda héldu allir að féð væri að koma, svo var ekki enda steikjandi hiti og logn. Blessaðar skjáturnar vilja þá oft ekkert koma heim ef veðrið er gott, síðust menn komu niður upp úr fimm þá eftir 12 tíma smölun. Stelpurnar fengu að prufa hestana hjá köllunum eins og alltaf á þessum tíma, en hesturinn sem Nonni fékk var alls ekki svo saklaus. María Rún, Thelma og María Jóna voru búnar að fá að prófa að sitja aðeins á en ég held að það sé næsta víst að María Rún á seint eftir að vilja fara aftur á hestbak. Hesturinn var svo kvikur að þegar Óli var að draga rollu úr kerrunni fældist hesturinn og fyrir ótrúlegt snarræði Maju og Rögnu náði hann aðeins að sparka í Maríu Jónu en ekki stíga á hana. Sjokkið sem allir fengu var gífurlegt, skottan slapp sem betur fer hræðslan sem greip um sig var þvílík, María vildi bara fara heim í sumarbústaðinn.
Það gekk vel að draga og stelpurnar léku sér í réttinni innan um allar kindurnar og Anna María vildi nú helst bara hlaupa með þeim niður á tún þegar verið var að hleypa úr réttinni :) Algjör sveitastelpa. Um kvöldið tók svo við bakstur enda var ég búin að lofa drottningunni minni að halda upp á smá afmæli í sveitinni, það var mjög kósý en Ragna og stelpurnar komu, allir af Vindhæli og Guðrún og Bjarni. Við fórum svo heim rétt fyrir kvöldmat.
Núna er ég bara á fullu að vinna í ritgerðinni til að klára uppkastið í dag eða á morgun því JTJ er að fara til útlanda og ég vill líka bara koma þessu frá mér, ég held að ég tapi mér ef ég vinn mikið meira við þetta eins og er.

þriðjudagur, september 06, 2005

Að vinna með skóla!

Allt grunnnámið höfum við fengið að heyra það að maður eigi ekki að vinna með skólanum, og þá sérstaklega ekki þannig að það bitni á náminu. Þegar maður er kominn í framhaldsnám þá kveður við annan tón, það þykir sjálfsagt að vinna með skólanum og námið er sniðið að miklu leyti eftir því. Tímar byrja almennt ekki fyrr en seint á daginn og eru langt fram eftir degi, allt vegna þess að fullt af fólki er að vinna með skólanum. Ég þoli þetta ekki, af hverju eigum við sem erum í fullu námi að "líða" fyrir það að sumir ákveða að vinna það mikið með skólanum að þeir geta ekki mætt á dagvinnutíma. Svo toppaði ein kerling þetta áðan, henni fannst Háskólafjölritun opin á svo óhentugum tíma þar sem hún væri sko að vinna á daginn og kæmist ekki, halló hvað er að?
Sorry, ég er bara pirruð

mánudagur, september 05, 2005

ÚTSKRIFT Í OKTÓBER????

Var ég eitthvað að misskilja? Á maður ekki að djamma og hafa gaman af lífinu þegar maður útskrifast? ég er nokkuð viss um að þessir blessuðu kennarar hafa gert ráð fyrir því að maður eigi að vera búin að útskrifast þegar skólinn er byrjaður :)
Þetta verður klikkuð önn, og ég sem ætlaði að taka aukafag, ég er sko steinhætt við það. Það er eitthvað trend í gangi hjá öllum kennurum að færa mesta þungann af námskeiðunum á fyrri hlutann til að vera ekki með allt á hælunum í lok annar.... er þessi aðgerð ekki farin úr skorðum þegar allir ákveða að gera það? Og hvað á maður svo að gera í lok annar, bara lesa? Maður spyr sig.
Varðandi útskriftina, ég var svakalega ánægð þegar ég sá að prófið í Skipulagi fræðslu er 25.október en svo minnti Kolla mig á það að við erum að útskrifast á laugardeginum áður (25. er þriðjudagur). Ok, ég hugsaði bara að ég myndi læra vel vikuna áður en samt ná að djamma á útskriftinni. En Dísa var ekki lengi í Draumalandinu, í morgun mætti ég svo í tíma hjá JTJ í Kenningum í fullorðinsfræðslu. Hann ákvað að prófa nýtt form í ár, í hverjum tíma verða nemafyrirlestrar (2 saman) alveg út önnina og svo ein stór ritgerð svo í lokin á prófatíma. Alla vega, við eigum að vera með fyrirlestra á mánudeginum eftir úrskrift... Svo fékk ég mér einn kaffi svona fyrir næsta tíma og þar með var Draumalandið algerlega úr sögunni. Næsti tími var Félagslegar aðstæður fatlaðra, og hvað haldið þið? Þar er hópverkefni fram í lok október, kynningar hefjast 24.október. Ofan á allt þá verður okkur skipað í hópa, til að efla þessa blessuðu samskiptahæfni. Það er fátt ömurlegra en að vera í hópavinnu með önnum köfnu fólki, ég á eftir að verða ein af þessum leiðinlegu.
Ég kem alla vega til með að hafa nóg að gera, ef ég kemst ekki á útskriftina þá fæ ég bara skírteinið í pósti. Eins gott að ég fékk borð í lesstofunni annars myndi ég gera út af við fólkið mitt.

laugardagur, september 03, 2005

Blessaða ritgerðin mín, the never ending story... Ég held að ég sé á leiðinni að skrifa alltof stóra ritgerð, alla vega miðað við það sem ég er komin með og það sem ég á eftir að gera. Ég er að spá í að sneiða frá smá hluta, redda þessu þannig. Ég er samt eitthvað svo stressuð að ná þessu ekki, ég veit samt alveg að ég næ þessu en ég ætlaði að vera búin og uppkastið átti í það minnsta að vera tilbúið fyrir skólabyrjun. Ég held að ég get fullvissað mig um að ég á eftir að fara á taugum fljótlega þegar skólinn fer á fullt líka, vá hvað ég á eftir að verða óþolandi.