miðvikudagur, júní 29, 2005

Er þetta ég?

Valhnetutré - Ástríða 21.04-30.04 & 24.10-11.11
___________________________________
Manneskjan stendur föst á sínu og er erfitt að skilja því hún er mjög mótsagnakennd. Hún er oft sjálfhverf og gefur ekki eftir, en á móti kemur að hún er bæði göfuglynd og víðsýn.Það er erfitt að segja til um viðbrögð hennar. Manneskjan er hvatvís og hefur mikinn metnað. Hún er snjöll, en erfið og ósveigjanleg í samskiptum. Hún er mjög afbrýðisöm og ástríðufull. Margir dást að henni, en hún er langt frá því að vera allra.
____________________________________________________
Jæja, er þetta ég eða hvað... Látið mig vita :)
____________________________________________________
Kalt mat: Stundum hugsa ég bara um sjálfa mig, stundum bara um aðra. Nonni segir stundum að ég sé erfið og sumir vilja meina að ég sé þver. Ég er stundum hryllilega hvatvís. Ég hef metnað en stundum týni ég honum og á erfitt með að finna hann. Afbrýðisöm... haha, stundum alltof. Ég hef ekki orðið vör við dásemdir annarra á mér, en ef maður er nú hreinskilinn við sjálfan sig þá var ég nú allra í denn en ekki í dag!

sunnudagur, júní 26, 2005

Rauðvín...ó mæg gad!

Valla, Addi og Ingunn voru öll að útskrifast í gær. Til lukku með það! Við fórum fyrst í veislu til Ingunnar í Kópavoginum. Svo fórum við til Völlu og Adda. María dundaði sér að mestu inn í herbergi að kubba og að borða ávexti og grænmeti :) Svo skildu þau mig eftir.... Ég sat með Völlu og vinum hennar fram eftir nóttu að sötra rauðvín í heldur ótæpilegu magni. Elskulegi nágranninn í kjallarnum var búinn að fá nóg af látum (sem voru þá mjög lítil) og hringdi á lögguna rétt fyrir 24. Málunum var nú samt bara reddað, við fórum með taxa heim til Völlu og Adda og héldum áfram að sulla og syngja með gítarspilinu. En svo kom að því bara allt í einu, að ég varð ofurölvi og skottaðist heim þar sem ég byrjaði að æla og æla eins og ég veit ekki hvað. Svo kom nýr dagur og heilsan var vægast sagt slæm. Nonni fór að vinna í morgun og svo að ég þurfti að rífa mig á lappir. Ég ældi og ældi... María fékk svo að fara í heimsókn til vinkonu sinnar svo að ég fór heim og svaf og svaf þar til hún kom aftur heim. Undir kvöldið var heilsan að verða í lagi... Ég held að ég sé loksins búin að læra það að rauðvín á að sötra með mat en ekki drekka og detta í´ða...

föstudagur, júní 10, 2005

Hitti pabba

Pabbi er á landinu, hann kom um síðustu helgi með Monu konunni sinni. Við hittumst öll áðan, ég og María, Maja og Anna María, og Martin, í pizzu hjá Maju. Þegar ég sagði Maríu að við værum að fara að hitta Össa afa vissi hún ekkert um hvern ég var að tala enda hefur hún ekki hitt hann í 1,5 ár og ég hef ekki talað um hann við hana.
Það var alveg ágætt hjá okkur, karlinn er orðinn nokkuð sleipur í dönskunni en dæturnar ansi slappar :) Við spjölluðum um heima og geima á meðan stelpurnar léku sér með tilheyrandi látum.
Ég keyrði svo Martin heim og settið á gistiheimilið, þau fara aftur til Danmerkur á morgun. Martin hitti hann fyrst í dag fyrir utan óvænta uppákomu í Kolaportinu á sunnudag... alveg týpískt. Hausinn á mér er alveg á fleygiferð núna, allt of mikið af tilfinningum í gangi. Það er miklu auðveldara að hafa hann bara úti, það eitt að hitta hann fær mann til að hugsa allt of mikið um gamla tíma þegar maður var lítill og vissi ekki margt. Svona er lífið...

föstudagur, júní 03, 2005

Nákvæmlega..

Snæland.. not my cup of thea. Alla vega þá verð ég ekki í Snæland í sumar, pælið í því ég þarf ekki einu sinni að redda mér fríi á 17.júní! Löng saga og á ekki heima á internetinu. Ég fór í leikhús í gær með Völlu, hún fékk boðsmiða og bauð mér með. Leikritið Ævintýri Þumalínu í sýnt í Borgarleikhúsinu í tilefni 75 ára afmælis Sólheima í Grímsnesi. Leikmyndin var ótrúlega einföld og sýningin var eiginlega svolítið töff, allir búningar og allt var á sviðinu og sögumenn sögðu söguna. Ólafur Ragnar Grímsson lét nú sjá sig þarna en hann heilsaði nú ekki, við ákváðum að erfa það ekki mikið við manninn. Mjög sennilega sá hann okkur ekki enda snérum við baki í hann alla sýninguna og svo vorum heldur ekkert að klína okkur upp á hann, hann virtist hafa nóg að spjalla við liðið. Eftir leikhúsið kíktum við í einn bolla og breyttum aðeins til, við fórum á París en ekki Brennsluna eins og venjulega. Ég var sennilega ekkert skemmtileg því síminn hringdi látlaust þennan stutta tíma sem við vorum þarna, síminn minn sem hringir aldrei. Dagurinn í dag er nokkuð einfaldur:
  • Fara í morgunkaffi með Hildi
  • Fara á vinnumiðlun
  • Taka til heima
  • Sækja Maríu
  • Sækja Önnu Maríu
  • Svo bara eitthvað...