þriðjudagur, nóvember 29, 2011
Venjulegur þriðjudagur í vesturbænum
Undanfarið hef ég pælt mikið í lífinu og tilverunni, rótleysið sem svo oft nær tökum á mér hefur náð nýjum hæðum. Einfaldleikinn heillar mig alltaf enn meir, ég sakna svo daganna á Helgamagrastræti þar sem við Magga tókum strætó í skólann og gengum heim - eða tókum heillangan rúnt í strætó. Ég slappa aldrei eins vel af og þegar ég fer til frænku og allra gemlinganna á ströndinni, nálægðin við fjöllin og sjóinn hafa svo róandi áhrif á verkefnahlaðan háskólastarfsmanninn. Það er eitthvað róandi við það að keyra yfir Holtavörðuheiðina að vetri til, í svarta myrkri og hlusta á tónlist. Sama hversu þreyttur maður er þegar maður fer af stað, það eitt að hlaupa út úr bílnum í Staðarskála hressir, kætir og bætir.
En á hinn veginn þá er lika svo notalegt að geta rölt á kaffihús og fengið sér latte, fara yfir nokkur verkefni og fylgjast með sérkennilegu fólki sem gerir gáfumannlega hluti eða þykist að minnsta kosti vera að því. Það er líka svo róandi að keyra aftur og aftur niður Laugarveginn og skoða fólkið (og gluggana), stoppa hjá vinkonu og láta dæluna ganga - keyra svo aftur heim. Eða setjast hjá vinkonu og sötra bjór, taka taxa heim og rölta svo að sækja bílinn daginn eftir. Eða bara hlusta á umferðina fyrir utan gluggann - umferðina sem vekur mann á morgnana þegar maður hefur sofið yfir sig.
Sumir hafa sagt við mig að það að ég leiti alltaf út fyrir borgarmörkin sé bara flótti, flótti frá aðstæðum sem ég ræð ekki við og mun ekki ráða við. Suma daga er ég sammála því, aðra ekki. Flesta daga vil ég líta svo að landsbyggðarástin sé bara sjálfsbjargarviðleitni, því einhver veginn trúi ég því að lífið sé einfaldara út á landi, tíminn sé lengur að líða og nálægðin við samfélagið meiri. Hugsanlega yrði ég að hætta innkaupaferðum á náttbuxnum en í flestum bæjarfélögum er hægt að fá latte - og ef ekki þá er tiltölulega stuttur akstur eftir latte.
Pælingar á pælingar ofan. Svo langar mig líka til Stokkhólms, eða í verslunarferð til Boston.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)