fimmtudagur, mars 29, 2007

Páfagaukaráðgjafi, Götusmiðjan og dautt hold

Upp, Upp, Upp, DUGLEG! Ég horfi á Kastljósið áðan og gat ekki annað en fengið verulegan kjánahroll þegar páfagaukaráðgjafi kenndi páfagaukaeiganda að leysa hegðunarvandamál páfagauksins. Jú, það mun vera svo að það eru ekki til óþekkir eða bara leiðinlegir páfagaukar, vandinn stafar af umhverfinu. Allt er nú til!
---
En svo er það blessuð Götusmiðjan, hún fer á götuna 1.júlí nk og búið er að segja öllu fólki upp störfum. Húsakynni Götusmiðjunnar á Akurhóli hafa alla tíð verið í lamasessi, heilbrigðisyfirvöld gáfu undanþágu fyrir starfseminni. Pælið í þessu, ríkið á Akurhól og Götusmiðjan færir starfsemi sína þangað frá Árvöllum þar sem húsin voru hin ágætustu. Nálægðin við Reykjavík skapaði helstu vandamálin þar. Þegar Götusmiðjan fór á Akurhól var lofað gulli og grænum skógum af hálfu hins opinbera en nú hefur komið á daginn að það hefur ekki gengið eftir.
---
Mér þykir alltaf svolítið vænt um Götusmiðjuna síðan ég var að vinna þar í den. Launin sem ég fékk voru hálfgert grín en vinnan var svo skemmtileg og ég lærði svo mikið þar. Sérstaklega lærði ég mikið af Mumma og eftir því sem ég lærði meira í náminu ígrundaði ég betur það sem ég lærði af honum. En vera í Götusmiðjunni mótaði mig mikið meira en ég held að mig gruni, BA ritgerðin mín varð til vegna einstaklings sem ég kynntist þar. MA ritgerðin mín er í raun sjálfstætt framhald af BA ritgerðinni.
---
En svo er það tönnslan mín. Ég er lúði, algjör lúði. Hún systa mín hló. Á mánudaginn fór ég með kjarkinn í 5.gír inn á tannlæknastofuna til að láta taka síðasta endajaxlinn. Ég hélt að þetta væri nú lítið mál því hún Anna mín væri svo klár. En ég gleymdi að taka hræðsluna í mér inni í reikninginn. Alla vega eftir að Anna og mamma hennar voru búnar að reyna að deyfa mig í klukkutíma gafst hún upp. Hún sagðist aldrei hafa tekið þetta í mál hefði hún vitað að ég þyrfti að koma "edrú". Hún sendi mig heim eftir einni Dísu og lét mig koma aftur. Þegar ég kom aftur var þetta lítið mál, tók rétt um 20 mín með öllu... og ég nokkurn veginn út úr kortinu. Hún sagðist kunna mikið betur við mig í þessu ástandi. Tek hana á orðinu, ég ætla aldrei aftur að mæta edrú til hennar!
---
En mér er ennþá illt í munninum, ég fékk panikkast í dag og var alveg viss um að jarðaför mín væri á næsta leyti. Ég hringdi í tannsa, Sunnefa tékkaði á múttu sinni og ég endaði á Læknavaktinni. Niðurstaðan var sú að nokkur bið verður á jarðaförinni, óbragðið sem ég finn í munninum er víst fullkomlega eðlilegt... dautt hold er víst ekki gott á bragðið. Mig langaði að æla á lækninn þegar hann sagði þetta við mig, dautt hold! Ég er alla vega orðin fíkill í munnskol, ég nota eitt kvölds og morgna og svo annað nokkrum sinnum yfir daginn, því hitt má bara nota tvisvar á dag.
---
Nóg af tuði, Vallan mín kemur með loftfari frá Akueyrinni á morgun. Hlakka til að knúsa kellu!

sunnudagur, mars 25, 2007

Ballerína og Blönduós

Á síðasta mánudag þurftum við mægður að hafa hraðar hendur eftir skóla. María var að fara á generalprufu fyrir ballettsýninguna sem plönuð var á þriðjudag. Við vorum nokkuð tímanlega þegar við komum heim, María fékk sér smá að borða og ég skellti snúðnum margfræga í hárið á henni og allt í einu vorum við nánast of seinar! Við gáfum okkur samt tíma til að skella einni mynd af sætustu ballerínunni með töskuna sína á leiðinni út
Generalprufan gekk vel, og þegar skvísan kom heim fór hún að sýna mömmu sporin sem stóru stelpurnar voru með í sínum dansi. Hún kunni þau bara nokkuð vel. En á þriðjudaginn var stóri dagurinn. Lovísa fékk að koma með okkur og horfa á Maríu dansa, hún þurfti að mæta svo snemma í leikhúsið að mamma, pabbi og Lovísa fengu sér smá göngutúr um Kringluna- keyptu smá nammi og svona notalegheit. En svo kom að því sýningin byrjaði, við vorum mörg í mínum hópi en lítill hluti dansaði í einu. Hér er prinsessan að bíða eftir því að röðin komi að mér.

Svo mikil dúlla

En svo kom að því að minn hópur fór að dansa. Ég var mjög einbeitt allan tímann með tunguna út í kinn :)

Með hendur á mjöðmum
Eins og svanir :)

Síðasta staðan

Eftir sýninguna fórum við öll saman á McÓðal og fengum okkur að borða og svo var bara kominn tími til að fara heim að sofa eftir góðan dag. Síðan hefur vikan bara verið ansi annasöm, Nonni fór af landinu á miðvikudag og ég fattaði ekki fyrr en þá að ég ætti eftir að redda "sækingu" fyrir Maríu hans daga. Mamma sótti hana fyrir mig svo það reddaðist, en við vorum ekki komnar heim fyrr en rúmlega átta báða dagana. Helgarfríið var því velþegið þegar það loks kom. Á föstudaginn var að sjálfsögðu pizza hjá Maju eins og venjulega, við sátum lengi frameftir hjá þeim eins og venjulega :)

Í gær var svo á planinu að fara í síðasta ballettímann en María nennti ekki. Svo fórum við í Hafnarfjörðinn. María var eftir hjá Begga og við Maja sóttum Martin og fórum með hann í fermingu til Ragnars Freys hennar Hildar frænku. Eftir ferminguna brunaði ég í bæinn og hitti nokkrar Blönduósskvísur, það rosa gaman. Mikið hlegið og haft gaman af. Við fengum okkur að borða á Vegamótum og sátum og spjölluðum. Takk fyrir frábært kvöld, verðum að gera þetta oftar! Við tókum nokkrar myndir því til sönnunar að við höfðum hisst

Kidda sem vinnur hjá Kaupþing í Reykjavík og er að læra viðskiptafræði á Bifröst með vinnunni og Helga er iðjuþjálfi á Blönduósi og sveitarstjórnarkona með meiru.

Svo er það Hugrún sem grunnskólakennari, tónlistarkennari og oraganisti og býr Skagaströnd. Svo er það hún Erla, við vorum saman í grunnskóla að 6.bekk og svo í háskóla en hún er uppeldis- og menntunarfræðingur eins og minns. Erla býr hvergi eins og er :) og ég er bara ég.

Mig er farið að þyrsta í páskafrí, það er samt svo mikið eftir að gera... ég á eftir að henda heilum kassa á bókum og greinum inn í EndNote. 5 verkefni bíða þess að verða unnin, 12 verkefni bíða yfirferðar og skila. Inn á milli þessa þarf ég að safna gögnum, taka viðtöl og fara í þátttökuathuganir... og þar allra leiðinlegasta - að afrita viðtölin og þátttökuathuganirnar. Auk þess þarf ég að lesa slatta og vinna en ég var að bæta við mig vinnu á skrifstofunni. Jafnréttisáætlun deildarinnar er þar í smíðum, bara skemmtilegt verkefni.

En ný vinnuvika byrjar ekki skemmtilega, kl. 8.30 í fyrrmálið á að taka síðasta endajaxlinn úr frúnni og þar sem tíminn er svona snemma þá verð ég að vera "edrú".. kvíður vel fyrir því. Svo allir leggist á bæn og hugsið til mín frá 8.30-9.30! Danke

Og svo bara í lokin...


Which Trainspotting Character Are You?

þriðjudagur, mars 20, 2007

Táknrænt eða hvað?

Nóg af árshátíðarpælingum, alvarlegri málefni taka við! Síðustu dagar Alþingis voru viðburðarríkir líkt og venjulega fyrir þinglok. Sameining HÍ og KHÍ varð að lögum á föstudaginn þrátt fyrir að samstaða ríki ekki um endanlega framkvæmd, minnilhlutinn í menntanefnd setti fyrirvara þess efnis í greingargerð sína og tók það fram að sameiningarferlið gæti gengið til baka. Það verður spennandi að sjá hvernig staðan verður 1.júlí 2008. En Ágúst Ólafur náði loks frumvarpi sínu í gegn um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum, miklar umræður voru um það á kaffistofunni í vinnunni í gær.
---
Afbrotafræðiprófessor vildi meina að aðgerðin væri fyrst og fremst táknræn, hún markaði tímamót fyrir þolendur kynferðisofbeldis en hefði ekkert vægi réttarfarslega. Hann taldi að sakfellingum myndi ekki fjölgja því sönnunarbyrðin verður enn erfiðari eftir því sem lengra líður frá broti. Hann kom með nokkra áhugaverða punkta um þetta, er hætta á því að málsmeðferð dragist nú enn meira en þekkt er? Hverra hagsmuna er verið að gæta, er það endilega það besta í stöðunni fyrir fullorðinn einstakling sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi í æsku að taka málið upp og mæta ofbeldismanninum? Er ekki hætta á því að fólk "geri ekkert" í málunum fyrr en seint og síðarmeir þegar það hefur nógan tíma? Mér finnst þetta allt vinklar sem vert er að skoða.
---
Annar félagsfræðiprófessor taldi rétt að afnema alla fyrningafresti á brotum ef "alvarleikinn" á að segja til um það. Hver á dæma um alvarleika hvers brots? Minniháttar líkamsárás getur haft djúpstæð áhrif á einstakling til lengri tíma á sama hátt og kynferðisbrot, þó það sé ólíklegt þá er það mögulegt. Eru kynferðisbrot jafn alvarleg og morð og landráð, sem eru samkvæmt kaffistofunni einu brotin án fyrningar? Til hvers erum við með fyrningarfresti á brotum yfir höfuð?
---
Flestir voru sammála afbrotafræðiprófessornum að þessi aðgerð væri fyrst og fremst táknræn, hún hefði ekkert gildi annars. Hvað finnst ykkur?

sunnudagur, mars 18, 2007

Sunday

Árshátíðin var í gær... það er ekki laust við að smá "þreyta" sé að síga í kroppinn eftir kvöldið. Mér finnst alltaf jafn fyndið að hugsa til þess þegar ég fór í árshátíðina í fyrra og hélt að ég væri að fara að mæta á steingelda samkomu fræðimanna sem hefðu engan húmor. Í stuttu máli þá má segja að ég hafði mjög svo rangt fyrir mér. --- Herlegheitin hófust í snemma dags í gær. Ég keypti mér nýjan kjól fyrir kvöldið og taldi mig nokkuð ready með hann upp á arminn en allt kom fyrir ekki hárblásarinn minn dó í miðjum klíðum, veskið sem ég ætlaði með fannst ekki, þjófavörnin var ennþá í kjólnum og það var blindbylur úti. En Guðrún reddaði mér, en ekki hvað? Hún kom með blásara og sléttujárn, skvísaði til á mér hárið, lánaði mér veski og keyrði mig í fyrirpartýið. Þjófavörnin er ennþá í kjólnum. --- Oddverjar hittust til að væta kverkarnar heima hjá deildarforseta vel tímanlega fyrir fordrykk í Gullhömrum. Samræðurnar þar voru fjölbreyttar og það var pælt í ýmsu. Einn þekktur maður sagði mér að hann hefði nú næstum því verið of seinn til Óla því hann hefði verið að grúska í dag, jújú það var nefnilega þannig að kollegar hans héldu því fram fyrir helgi að með auknum ójöfnuði hefðu glæpatíðni aukist. Hann ákvað að kynna sér þetta til að geta hrakið þetta, og vitið menn, rétt fyrir kl. 17 komst hann að þeirri niðurstöðu að kollegarnir hefðu rangt fyrir sér. Þegar hann vissi um bakgrunn minn í uppeldis- og menntunarfræðinni og núverandi nám fór hann að segja mér frá reynslu sinni í tengslum við börn og nám. Samkvæmt honum er það víst þannig að sum börn geta einfaldlega ekki lært, þau eru bara illa gefin (Munnleg heimild. Oddverji, 17.mars 2007). --- Rútan sótti okkur svo rétt fyrir 19 (ekki frá Kynnisferðum Guðrún- Teitur!). "Ófærðin" í Hlíðunum olli smá vandræðum með stórkostlegri fimi bílstjórans í snjóakstri tókst að koma rútunni út á Miklubraut. Þjófavörnin slóst heldur of mikið í kálfann í rútunni. Loks komum við í Gullhamra, mér leið eins og litlu barni í röðinni í anddyrinu þegar nokkrir menn fóru að rifja upp ákveðið atvik í Glaumbæ og annað í Hollywood þegar þeir voru 16 ára. Ég meina ég hef aðeins lesið um þessa staði! Fordrykkurinn var dísætt freyðivín sem búið var að stilla upp á borðum- ég gat ekki annað en hugsað um það hvað þetta var mikið snyrtilegra og þægilegra fyrir þjónana heldur en bakkasörvis. --- Árshátíðin sjálf var æði, dádýrið rann ljúflega niður með dýrindis rauðvíni og Breezerinn var hressandi þegar líða tók á kvöldið. Baggalútur kom sá og sigraði, Raggi Bjarna rifjaði upp eld-gamla takta og hljómsveit hússins hélt uppi stuðinu fram á nótt. Þegar vel var farið að þynnast í hópnum á dansgólfinu ákvað ég að skella mér í bæinn með "unga fólkinu". Sumir voru búnir að drekka allt of mikið og lögðu sig heldur mikið á Ölstofunni og fengu því handleiðslu út af staðnum, aðrir áttu í stökustu vandræðum með franskan hönk, enn aðrir pirruðu sig á karlmönnum og hinir (ég) sátu með Southern og höfðu það næs fram undir morgun. Eina parið í "unga" hópnum fór heim fljótlega eftir að við komum á Ölstofuna. --- Þegar klukkan var að ganga fimm vorum við þrjár eftir; ég, Silja Bára og Svandís Nína. Okkur datt ekki í hug að ganga niður að leigubílaröð heldur stoppuðum við næsta bíl og fengum ökumanninn til að keyra okkur heim. Hann var 17 ára og nýfluttur til Reykjavíkur úr Dölunum, hann rataði ekkert í Reykjavík en ég og Silja Bára komumst heim til okkar- ég býst við því að hann hafði komist heim til Svandísar Nínu en ég veit ekkert hvort hann hafi svo ratað til baka greyið. En við komumst nú heilar heim og þjófavörnin ennþá í kjólnum! --- Frábært kvöld!

sunnudagur, mars 11, 2007

Dugleg spelpa!

Nú er sunnudagur.. styttist í að hann verði búinn og aldrei þessu vant hef ég náð að afreka eitt og annað um helgina. Verið alveg róleg, ég var ekki að djamma svo ég afrekaði enga skandala á því sviði- enda löngu hætt svoleiðis :)
---
Á föstudaginn sótti ég Maríu snemma í skólann, við þöndum sportarann og drifum okkur í Hafnarfjörðinn og sóttum hina prinsessuna mína hana Önnu Maríu á leikskólann. Að sjálfsögðu byrjaði hún að tala áður við mæðgur náðum að komast alveg inn á deild til hennar og hún spjallaði non-stop alla leiðina heim til sín. Hún er svo mikil rófa, hún sagði mér að hana langaði að mamma sín ætti alveg eins bíl og ég! Reyndar á Maja tæknilega bílinn en ég var ekkert að útskýra það fyrir henni. En henni fannst bíllinn ógisslega flottur!
---
Heill her kvenna með Ottó í hægri síðunni bakaði svo pizzu heima hjá Maju. Maja rifjaði upp flotta pizzugerðartakta frá Western fried og henti deginu fagmannlega í loftið til að fletja það út. Beggi og Siggi komu svo tímanlega í pizzuátið og líkaði bara nokkuð vel, Maja átti reyndar stærsta heiðurinn af þessu öllu saman. Ég henti áleggi á eina pizzu, og Maja gerði eiginlega rest :) Enda hefur hún reynsluna og er því best í þessu! Við María hengum svo hjá Hafnfirðingunum okkar fram eftir kvöldi en drifum okkur svo heim áður en möguleiki var á barnaverndarstarfsmönnum í eftirlitsferð um bæinn... segi svona.
---
Á laugardaginn vaknaði ég á undan Maríu sem gerist mjög sjaldan um helgar, María kom fram að horfa á barnaefnið um hálf níu leytið og ég sat og las Skugga-Baldur í sófanum á meðan. Stutt og fín bók, ég hefði sennilega ekki lesið hana nema af því ég þarf að gera það vegna vinnunnar. Ég náði að klára verkið áður en prinsessan fór í balletskólann. Á meðan hún var í ballett brunaði ég í Hagkaup og keypti mér nýjar svartar buxur- sem betur fer voru til eins buxur og ég keypti um daginn. Ég stökk því bara á rekkann, tók rétt númer og beið í röðinni til að borga. Hinar buxurnar sem ég keypti um daginn urðu fyrir því óláni að hlaupa vel í þvottavélinni, tóku góðan sprett! og ég fattaði það á laugardagsmorgun og þurfti að nota þær í vinnu seinni partinn.
---
En jæja, áfram með dugnaðinn. Við mægður skelltum okkur svo heim eftir ballettinn og tókum til í tösku fyrir prinsessuna því hún var að fara í gistingu til Ingu. Hún var voðalega spennt og velti því mikið fyrir sér hvort hún og Brynhildur fengju að sofa á dýnu í sjónvarpsherberginu eða hvort Brynhildur myndi lesa fyrir hana í rúminu hennar. Svo gott að eiga stóra frænku! Á meðan stubbann var hjá Ingu fór ég að vinna. Ég, Guðrún og Sunnefa höfðum lofað okkur í vinnu á árshátið Símans í Laugardalshöll. Þvílík keyrsla og mikið af fólki.. rétt um 1300 manns. Undir lok kvöldsins var ég orðin nokkuð sleip í að ganga hratt, mjög hratt, með þrjá diska út í sal. Nokkuð stolt af því sko- ég missti engan! var nálægt því í tveimur ferðum.. en slapp
---
Vinnan var búin og ég á heimleið um hálf tvö í nótt, fæturnir voru alveg að gefa sig - mér hefur sjaldan langað eins mikið í sjálfskiptan bíl og í nótt. Helv.. kúplingin, það var svo vont að stíga á hana. Ég stoppaði í klukkubúðinni í Lágmúla á leiðinni heim, náði mér í snakk, kók og dvd. Ég keypti kók og tók með mér heim- eitthvað sem ég hef ekki gert í tæpan mánuð. Ég hlammaði mér svo í sófann með sæng og skellti myndinni í spilarann góða.
---
Þegar ég vaknaði í morgun lá beinast við að smella á "resume film" þar sem ég steinsofnaði áður en myndin byrjaði að nokkru viti í nótt og ég var ennþá í sófanum með snakkið og alle græjer þegar ég vaknaði. Þar sem klukkan var bara rétt um níu ákvað ég að horfa á myndina. Bara nokkuð góð ræma á ferð. Í hádeginu hringdi ég svo í Kollu og óskaði henni til hamingju með prinsinn sem átti afmæli um daginn, búin að ætla að gera það í rúma viku en lét verða af því í dag. Þegar símtalinu var lokið skellti ég mér í jakka og skó og vopnuð skólatösku og taupoka með fullt af bókum fór ég út.
---
Núna, nokkrum klukkutímum seinna er ég nánast búin með aðferðafræðikaflann í MA ritgerðina mína, bara oggupons eftir. En harðsperrurnar í höndunum, fótunum, bakinu og náranum eru á undanhaldi. Ég hélt ég væri að endulifa harðsperrurnar á Þorrablótinu á Akureyri, svona er þegar maður er í svona góðu formi! Jamms, manni hefnist letin og aðgerðaleysið þegar maður hreyfir sig loksins eitthvað- og ég tala nú ekki um hreyfingarnar sem maður er ekki vanur!
---
Nóg af öllu monti, ég hefði nú átt fríhelgi þannig séð ef ég hefði verið duglegri undanfarið... Það kemur að því að ég eigi fríhelgi- einn daginn!

föstudagur, mars 02, 2007

Fremtiden!

Oohhh, ég þoli ekki að vera orðin fullorðin og þurfa að taka ákvarðanir um framtíðina... Hvar á ég að búa? Í hvaða skóla á María að fara næsta haust? Hvað á ég að gera þegar ég er búin með skólann? Á ég að halda áfram að læra eða fara að vinna? Mér finnst ég þurfa að taka svo mikið af ákvörðunum núna að ég er ekki að höndla það... Framtíðarheimilið okkar Maríu, hvar á það að vera? Mig langar að búa í vesturbænum áfram, við fluttum hingað haustið 2002 og ég er orðin samgróin Suðurgötunni og stóra hringtorginu. En eins og fasteignamarkaðurinn er hérna í dag þá er það mjög svo fjarlægur möguleiki að ég geti keypt hérna. En svo langar mig stundum að flytja út á land, ódýra húsnæði og rólegra umhverfi.. og lítið af fólki sem þekkir mann. Stundum langar mig að flytja til Akureyrar og stundum til Skagastrandar.. ólíkir staðir :) En þá kemur stóra spurningin, hvað á ég að vinna við þar?? Það er sennilega meiri möguleiki á góðri stöðu á Akureyri en... ef við búum á Akureyri eigum við þá ekki eftir að sakna allra í Rvk??? Skólinn hennar Maríu.. hún er að klára fimm ára bekkinn núna. Ef ég læt hana hætta í Landakoti og fara í Melaskóla þá finnst mér ég tilneydd til að koma mér í húsnæði hérna í vesturbænum næsta sumar... með góðu eða illu svo hún geti verið í Melaskóla eitthvað áfram. Helst vil ég að hún verði í sama skólanum þar til hún verður 16 ára. Tvær af stelpunum í hennar bekk hætta í Landakoti og fara í Vesturbæjarskóla. Það er margt sem ég er óánægð með í Landakoti en margt sem ég er ánægð með. Auk þess finnst mér það skipta miklu máli hvar við mæðgur endum haustið 2008. En hvað á ég að gera þegar ég er búin með MA prófið... á ég að halda áfram og klára náms- og starfsráðgjöfina, eða fara í dipl. í opinberri stjórnsýslu eða jafnvel hætta þessu skólaveseni og fara að vinna??? og hvar á ég þá að fara að vinna... Hvað á ég að gera?? Reykjavík vs landsbyggðin? Landakot vs Melaskóli? Skóli vs vinna?