---
Undirbúningur ferðarinnar gekk svo glimrandi vel að ég gleymdi að bóka íbúð fyrir okkur svo við vorum í bústað í staðinn. Þrátt fyrir smávægileg mistök var mér treyst til þess að koma með hrásykurinn, sem ég gleymdi og mamma brunaði vestur í bæ með handklæði og rúmföt rétt fyrir flug þar sem ég gleymdi því líka. Og bara svona til að toppa skipulagshæfileikana mína þá tók ég að mér að panta borð á Strikinu um kvöldið.. ég bókaði okkur kl 19.30 - vélin fór frá Reykjavík kl 19.15 svo ljóst var að við myndum ekki ná því.
---
Á föstudag var unnið eins og reglur segja til um til rúmlega fimm, skottan kíkti í stutta heimsókn fyrir flug í litla kotið á Eggertsgötunni en mætti svo tímanlega, aðeins á eftir Hildi og Ingunni upp á flugvöll - ég hef aldrei skilið þetta hálftíma- mál með innanlandsflug.. bara illa farið með tíma.
---
En að Akureyrinni, við þrjár lentum á Eyrinni á góðum tíma og biðum eftir töskunum þegar við áttuðum okkur á því að engin okkar hafði beðið Maríu um að sækja okkur á völlinn - með krosslagða fingur og hreina sál biðum við eftir því að sú fagra kona mætti á flugvöllinn, sem hún gerði þessi elska.
---
María fékk lánaða drossíu frá systu sinni, drossí sem María keypti þegar hún var 16 ára. Eftir matinn á Strikinu var ferðinni heitið í Kjarnaskóg.. stuttu eftir að farartækið fór af stað brotnaði rúðuþurrkan - redduðum því með því að skella henni á gólfið við farþegasætið. Ferðinni var haldið áfram eftir smá hlátur.
---
Ingunn tók við fararstjórn, ferðinni var heitið inn í Kjarnaskóg. Samkvæmt skipun úr aftursætinu átti að taka fyrstu brekkuna inn í Kjarnaskóg "á ferðinni, ekki þenja bílinn of mikið en ekki slá af heldur" - það gekk eftir upp fyrsta hallann. Spennan var yfirþyrmandi.. drossían dreif og taktfastar hreyfingar farþeganna hjálpuðu eflaust til. Næsti halli var ekki eins "auðveldur" yfirferðar, þegar drossían komst ekki lengra þar ákváðum við María að fara út að ýta og Hildur tók við akstrinum. Þrátt fyrir háa hæla, mikinn hlátur, enga vettlinga og vætu í brókinni haggaðist bíllinn lítið sem ekkert - nema þá í öfuga átt. Stelpukvikindi á nýjum bíl brunuðu fram úr okkur og Hildur bakkaði niður brekkuna, með smá pælingum var þessi líka tekin á ferðinni og kagginn brunaði upp eins og á góðum sunnudegi.
---
Við fundum bústaðinn mjög fljótlega, gula slangan var aftur á móti ekki eins auðfundin. Vatn fékk að leka í pottinn, mortélið spratt upp úr töskunum og Hildur tók sig til við að blanda mojito og ég opnaði GTR beljuna sem baulaði svo fallega í ísskápnum. Allt í einu var föstudagurinn úti og þreyttar kerlingar lögðust í bælið - sumir hvíldu sig þó í sófanum :)
---
Á laugardagmorgun kom Hnikarr færandi hendi með krúttsprengjuna og bakkelsi í morgumat/hádegismat. Krúttsprengja fékk handsnyrtingu hjá mér og sturtaði nokkrum sinnum niður í klósettinu áður en skvísurnar þrjár lögðu í bæinn til að kaupa vistir ... og komust á útsölur. Tvær peysur, kaffi og kaka á Bláu könnunni og kaffi og spjall í Vanabyggðinni var afrakstur dagsins ásamt ýmsu öðru nauðsynlegu.
---
Laugardagurinn var ekki kraftminni en föstudagurinn þrátt fyrir að komast upp í bústað í fyrstu atrennu - potturinn skítkaldur fyrstu 2 tímana eins og fyrra kvöldið, en heitu kjéllingarnar héldu honum alveg nógu góðum :) Á sunnudeginum var klukkan rétt um hálftvö þegar létt ryðgðar vinkonur héldu til byggða - sumir á kaffihús, aðrir í mömmukaffi. Bústaðurinn var tæmdur og þrifinn og beðið eftir flugi.