mánudagur, mars 30, 2009

Fögur er hlíðin.. og svo asskoti hál

... já eða svona allt að því. Tvær giftar húsmæður úr Reykjavík og dramadrottning í foreldrahúsum lögðu af stað sl föstudag norður yfir heiðar til að hitta Maríuna okkar, húsmóðirna á Laugum. Sem betur fer ákváðum við nú að fá far í Fokker50 og skildum drossíurnar eftir heima. 
---
Undirbúningur ferðarinnar gekk svo glimrandi vel að ég gleymdi að bóka íbúð fyrir okkur svo við vorum í bústað í staðinn. Þrátt fyrir smávægileg mistök var mér treyst til þess að koma með hrásykurinn, sem ég gleymdi og mamma brunaði vestur í bæ með handklæði og rúmföt rétt fyrir flug þar sem ég gleymdi því líka. Og bara svona til að toppa skipulagshæfileikana mína þá tók ég að mér að panta borð á Strikinu um kvöldið.. ég bókaði okkur kl 19.30 - vélin fór frá Reykjavík kl 19.15 svo ljóst var að við myndum ekki ná því.
---
Á föstudag var unnið eins og reglur segja til um til rúmlega fimm, skottan kíkti í stutta heimsókn fyrir flug í litla kotið á Eggertsgötunni en mætti svo tímanlega, aðeins á eftir Hildi og Ingunni upp á flugvöll - ég hef aldrei skilið þetta hálftíma- mál með innanlandsflug.. bara illa farið með tíma. 
---
En að Akureyrinni, við þrjár lentum á Eyrinni á góðum tíma og biðum eftir töskunum þegar við áttuðum okkur á því að engin okkar hafði beðið Maríu um að sækja okkur á völlinn - með krosslagða fingur og hreina sál biðum við eftir því að sú fagra kona mætti á flugvöllinn, sem hún gerði þessi elska.
---
María fékk lánaða drossíu frá systu sinni, drossí sem María keypti þegar hún var 16 ára. Eftir matinn á Strikinu var ferðinni heitið í Kjarnaskóg.. stuttu eftir að farartækið fór af stað brotnaði rúðuþurrkan - redduðum því með því að skella henni á gólfið við farþegasætið. Ferðinni var haldið áfram eftir smá hlátur.
---
Ingunn tók við fararstjórn, ferðinni var heitið inn í Kjarnaskóg. Samkvæmt skipun úr aftursætinu átti að taka fyrstu brekkuna inn í Kjarnaskóg "á ferðinni, ekki þenja bílinn of mikið en ekki slá af heldur" - það gekk eftir upp fyrsta hallann. Spennan var yfirþyrmandi.. drossían dreif og taktfastar hreyfingar farþeganna hjálpuðu eflaust til. Næsti halli var ekki eins "auðveldur" yfirferðar, þegar drossían komst ekki lengra þar ákváðum við María að fara út að ýta og Hildur tók við akstrinum. Þrátt fyrir háa hæla, mikinn hlátur, enga vettlinga og vætu í brókinni haggaðist bíllinn lítið sem ekkert - nema þá í öfuga átt. Stelpukvikindi á nýjum bíl brunuðu fram úr okkur og Hildur bakkaði niður brekkuna, með smá pælingum var þessi líka tekin á ferðinni og kagginn brunaði upp eins og á góðum sunnudegi.
---
Við fundum bústaðinn mjög fljótlega, gula slangan var aftur á móti ekki eins auðfundin. Vatn fékk að leka í pottinn, mortélið spratt upp úr töskunum og Hildur tók sig til við að blanda mojito og ég opnaði GTR beljuna sem baulaði svo fallega í ísskápnum. Allt í einu var föstudagurinn úti og þreyttar kerlingar lögðust í bælið - sumir hvíldu sig þó í sófanum :)
---
Á laugardagmorgun kom Hnikarr færandi hendi með krúttsprengjuna og bakkelsi í morgumat/hádegismat. Krúttsprengja fékk handsnyrtingu hjá mér og sturtaði nokkrum sinnum niður í klósettinu áður en skvísurnar þrjár lögðu í bæinn til að kaupa vistir ... og komust á útsölur. Tvær peysur, kaffi og kaka á Bláu könnunni og kaffi og spjall í Vanabyggðinni var afrakstur dagsins ásamt ýmsu öðru nauðsynlegu.
---
Laugardagurinn var ekki kraftminni en föstudagurinn þrátt fyrir að komast upp í bústað í fyrstu atrennu - potturinn skítkaldur fyrstu 2 tímana eins og fyrra kvöldið, en heitu kjéllingarnar héldu honum alveg nógu góðum :) Á sunnudeginum var klukkan rétt um hálftvö þegar létt ryðgðar vinkonur héldu til byggða - sumir á kaffihús, aðrir í mömmukaffi. Bústaðurinn var tæmdur og þrifinn og beðið eftir flugi. 

mánudagur, mars 23, 2009

Sá handlagni

Á hverju heimili er nauðsynlegt að hafa einn handlaginn - bara svona til að dytta að því sem þarf þegar þarf. Einhvern veginn virðist þetta hlutverk oftar en ekki detta inn hjá karlkyninu sama hvaða hæfileika hann hefur.
---
Ég þekki einn svona "handlaginn". Fyrir mörgum árum þegar María var nettur bumbubúi bilaði klósettkassinn í Leirubakkanum, sá handlagni tók sig til og "lagaði" kassann. Viðgerðin fólst í því að fyrir hverja ferð þurfti að skrúa frá krananum í kassann, bíða smá stund og skrúfa svo fyrir þegar búið var að sturta. Annað dæmi er þegar kraninn frá þvottavélinni lak, viðgerðin fólst í því að skella handklæðum utan yfir kranann...
---
Undanfarið hafa flest raftæki í eldhúsinu hér í sveitinni gefið upp öndina, tilviljun veit ég ei en frá því ég flutti inn um áramót hefur kaffivélin hætt að mala, uppþvottavélin höktir og á það til að skilja eftir vatn í tíma og ótíma, hraðsuðuketillinn er dauður og spaneldavélin gaf upp öndina rétt í þessu. 
---
Sá handlagni ætlaði að losa helluborðið og koma því í viðgerð. Barnabarnið fylgdist spennt með konurnar á heimilin biðu eftir slysi. Helluborðið fór af eftir smá svona dúllerí. Kona hins handlagna sá sig knúa til að minna hann á að slá út rafmagninu fyrir helluborðið sem hann taldi sig nú hafa gert. Konan taldi þá málið í nokkuð öruggri höfn og lagði sig með blöðin inn í rúmið.  Stuttu síðar varð allt svart og frúið gólaði úr rúminu: "Er í lagi með viðgerðarmanninn?". Jú, hann var hress, helluborðið laust og ekkert rafmagn á efri hæð hússins. 
---
Þegar sá handlagni hafði gengið frá vírum og slegið rafmagninu aftur inn fór ég inn á bað, ég hafði lagt húfu af barnabarninu í bleyti og ætlaði að losa um tappann í vaskinum. Ekkert gekk svo ég kallaði á konu hins handlagna.. jú það er ekki að spyrja að því, vaskurinn stíflaðist fyrir einhverjum misserum síðan svo hinn handlagni þurfti að losa vatnslásinn... í miðri viðgerð lenti tappinn í hnjaski og hefur ekki virkað síðan.

sunnudagur, mars 22, 2009

Lífið og tilveran..

Tvær vikur án bloggs er langur tími.. mig hefur oft langað að blogga undanfarið en um hvað? Vitur maður sagði mér bara að blogga um lífið og tilveruna... Lífið er skemmtilegt og tilveran sömuleiðis.
---
Síðan ég bloggaði síðast hef ég heimsótt Akureyri, Egilsstaði og Ísafjörð. Á Akureyri hitti ég Völluna mína, sötraði hvítt, borðaði gott pasta og sötraði smá kaffi yfir löngu tímabæru spjalli. Daginn eftir kynnti ég Félagsvísindasvið með aðstoð tveggja laganema - gekk bara nokk vel. Þaðan fórum við á Egilsstaði, tókum eina hæð á hótelinu og fengum nettan valkvíða yfir matseðlinum á hótelinu - skyldi það verða lamb eða fiskur... daginn eftir var skólinn aftur kynntur fyrir Austfirðingum.
---
Svo kom helgin, á sunnudeginum ætlaði ég til Ísafjarðar - en eins og oft þegar ég er á ferðinni undanfarið.. þá var ófært. Titrandi af reiði fékk ég far með fyrstu vél á mánudag, kynnti skólann og sjálfa mig með fínasta laganema mér við hlið. 
---
Svo kom aftur helgi, á föstudag var árshátíðin - laganeminn var kynntur fyrir samstarfsfólki, stóð sig með prýði. Laugardagur var letidagur. Sunnudagur var fjölskyldudagur með laganemanum og mínu uppáhaldsfólki - gekk líka nokk vel :) 

þriðjudagur, mars 10, 2009

Svaðilför ti Skagastrandar

Eitt kvöld á facebook ákvað ég að síðasta helgi væri snilldarhelgi til að kíkja norður til Rögnu á Skagaströnd. Anna Maja var alveg sammála mér svo að á síðasta föstudag ókum við norður í land með Maríuhænuna mína í aftursætinu. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig þar til við komum í Borgarnes (alla leið í Borgarnes), þá áttaði ég mig á því að drossían var ljóslaus. Vitandi það að ekkert bílaverkstæði í Borgarnesi væri opið ákvað ég að láta slag standa og keyra með háa settið norður, því jú gáfumennin á bensínstöðinni minni höfðu eitt sinn sagt mér að þeir skiptu ekki um þessar perur þar sem of mikið þyrfti að losa frá. 
---
Í Norðurárdalnum var orðið ansi dimmt og ljóst var að háa settið mitt var að blinda ansi marga ökumennina, því ákvað ég að reyna að "semja" við afgreiðslufólkið í Staðarskála um peruskipti. Þjónusta N1 á landsbyggðina er algjörlega til fyrirmyndar.. NOT - þar er ekki þjónusta á kvöldin úti á plani. Hvað á það eiginlega að þýða? En jæja, inn í skálann arkaði saklaus borgarmær í ullarkápu og á háum hælum og spurði hvort það væri nokkur sem gæti aðstoðað hana. Það var ekki að spyrja að því, grillmeistarinn skellti af sér svuntunni, fór í úlpu og kom út. Hann náði annarri perunni en þorði ekki að reyna við hina.
---
Stuttu síðar héldu stoltir ljósaeigendur áfram út í myrkrið. Rétt við Hvammstanga minntist mín kæra frænka á síðasta ferðalag okkur um Húnvatnssýslurnar - fyrir nokkrum árum þegar ég varð Blönduóslöggunni að bráð. Það var ekki að spyrja að því, þegar við renndum í gegnum Blönduós stoppaði þessi elska okkur. Drossían eineygð, ég eldrauð í framan eftir gullin komment frá frænkunni og frænkan í hláturskasti...  
---
Við lentum loksins á Skagaströnd seint á föstudag, Birta tók á móti okkur og spurði um Ottó. Gormarnir léku sér fram á kvöld og frænkan fór heim í sveit. Við Ragna sötruðum kók og kjöftuðum - styttra en venjulega. Laugardagurinn gekk í garð, ég svaf á mínu græna á meðan Ragna hugsaði um öll dýrin á heimilinu, madamman úr Reykjavík vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir tólf og gekk upp stigann með samviskubit dauðans. 
---
Eftir hádegi ákváðum við að fara út á rúntinn - skoða plássið ;) Við tókum smá rúnt í blíðskaparverði með börnin í aftursætunum - allir hressir og glaðir að borða nammi, nema Birta hún var komin með í magann. Allt í einu varð kolvitlaust veður. Skynsamar mæður héldu þá heim og bílnum var lagt snyrtilega í skúrnum. Veðrið vesnaði þegar leið á kvöldið og um tíma sást ekki einu sinni til kannabisverksmiðjunnar sálaugu - ekki skrítið að vinnslan gat farið svona leynt ef veðrið verður oft svona. 
---
Anna Maja lét sig hafa það að kíkja á okkur í stutta heimsókn þrátt fyrir blindbyl, á heimleiðinni gekk ekki betur en svo að bíllinn fór út af með dömuna innan borðs. Allir gengu þó heilir af velli nema þó ekki væri nema sært stolt frænku. 
---
Sunnudagurinn gekk í garð heiður og fagur.  Allt á kafi í snjó og logn úti. Við frænkur bjuggum okkur til brottfarar og sennilega um leið og við skelltum bílnum í "Drive" fór að hvessa. Við létum okkur nú hafa það, keyptum vistir í N1 og fylltum bílinn. Í Vatnsdalnum hringdi frænka í Vegagerðina og tók stöðuna á heiðinni, þar var hálka og stórhríð - og fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Miðað við umferðina suður ákváðum við að láta sem hún hefði aldrei hringt. Bylgjan ómaði í bílnum og við skemmtum hvor annarri með því að búa til veðurfréttir..  VNA 18 metrar á sekúndu, skyggni 2 stikur... 
---
Einhvers staðar á leiðinni heyrðum við fréttir .. þar sem heiðinni var lokað, björgunarsveitir komnar upp aðstoða fólk og fólk beðið um að halda sig heima við. Frænkurnar ákváðu því að snúa við rétt vestan við Hvammstanga. Heimleiðin á Skagaströnd tók svo tæpa 2 tíma, geri aðrir betur! 
---
Það var svo í morgun að frúin skellti sér í dreifbýlisskóna, snjóbuxur, úlpu og húfu og óð skafla að bílnum sem fékk að eyða nóttinni við Apótek bæjarsins. Rétt fyrir níu vorum við komnar á fullt skrið til borgarinnar, sóttum meiri vistir í N1, fylltum bílinn og tókum myndir af ísbirninum. 
---
Í stuttu máli, við lentum í Reykjavík um 2 leytið. Heiðin var viðbjóður, skyggni ýmist ein stika eða engin. Snjór og vesen, flutningabíll á hliðinni og sæmilegasta samloka í Hreðavatnsskála. 

mánudagur, mars 02, 2009

Sól...

... hvítvín og heitur sjór - eða snjór, hvítvín og heitur pottur, já eða kannski bara toddý undir teppi að horfa á imbann. Kók, teppi og tölva er bara ekki að hitta í mark núna. 
Ég er að kafna úr geðvonsku - já eiginlega bara fýlu...
  • Íbúðin sem mig langaði í er ekki lengur á sölu. 
  • Fluginu mínu var aflýst í dag
  • Mér er skítkalt