föstudagur, desember 31, 2010

Árið 2010

Þegar skipslúðrarnir blésu inn 2010 á Ísafirði á gamlárskvöld sá ég fyrir mér skemmtilegt ár, ár sem ég hafði lengi beðið eftir. Fátt á árinu hafði ég hins vegar getað spáð fyrir um.
---
Í upphafi árs sá ég fram á nýtt líf á Hagamelnum þar sem grunnurinn að framtíðinni væri lagður. Ég var í stjórnunarstöðu í vinnunni og ætlaði að ljúka MA ritgerðinni áður en árið væri úti, eins og svo oft áður. Framtíðin var björt og kerlingin bara þokkalega bjartsýn.
---
Árið sem er að líða var allt í senn skemmtilegt, erfitt, flókið og einfalt. Ég hélt upp á 29 árin með því að segja upp vinnunni minni og sækja um nám, þrátt fyrir að um erfiða ákvörðun væri að ræða fylgdu því mörg tækifæri - ég fékk að kenna meira en nokkru sinni áður og kynntist skemmtilegu fólki í náminu svo ég tali nú ekki um tækifærin til að heimsækja Akureyrarskvísurnar mínar einu sinni í mánuði. Ég hélt áfram í hlutastarfi á skrifstofunni við það sem mér finnst skemmtilegast, kennslumálin.
---
María ákvað að hætta í ballettinum og kórnum sem höfðu alltaf verið fastir póstar í okkar lífi, þess í stað vildi hún læra á hljóðfæri og stendur sig með sóma með klarinettuna að vopni. Hún er svo klár og dugleg þessi elska að lítið virðist stoppa hana - ég sé hana fyrir mér sem vísindamann í framtíðinni sem spilar á hljóðfæri sér til dægrastyttingar.
---
Nú stöndum við mæðgur í svipuðum sporum og fyrir 2 árum síðan, óvissan með framhaldið er óþægileg og ekki það sem lagt var með í upphafi. Sú stutta hefur þurft að ganga í gegnum miklar breytingar á stuttum tíma, eitthvað sem ég ætlaði aldrei að leggja á hana.
---
En á áramótum á maður víst alltaf að setja sér áramótaheit, ég er mikið búin að hugsa þau. Það er margt sem mig langar og sumt ég framkvæmt ein og óstudd, stundum er best að einblína á það. Áður en árið 2011 verður úti ætla ég að klára MA ritgerðina mína, klára kennsluréttindin, hætta að reykja og jafnvel skella mér í ræktina og ná af mér nokkuð mörgum kílóum.
---
Eníveis, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært að fá blogg elsku krúttlan mín, þú ert yndi og ótrúlega dugleg og gangi þér vel með áramótaheitin :) Sjáumst í feb!
Valla

Nafnlaus sagði...

Já þú verður að fara að hætta að reykja annað er bara rugl. Þú mættir svo bara í spinning til mín, þú hefðir gott af því :)

Ásdís Ýr sagði...

Hvernig væri það, ég hoppandi í spinningtíma hjá þér!?! :)

Nafnlaus sagði...

það væri bara gaman :)