mánudagur, október 31, 2005

Stanslaust stuð á Fróni

Ég hélt upp á útskriftina mína á laugardaginn, við vorum með smá rétti og smá áfengi... 60 lítra af bjór, 18 lítra af hvítvíni, 1 Baccardi flösku og 20 Breezera. Varla dropi var eftir svo að ég held að það sé nokkuð ljóst að þorstinn sækir að fólki svona með fyrsta kuldakastinu :) ---
Bara svona smá update af kvöldinu... Elín, Danni og Hildur komu og hjálpuðu okkur við að græja salinn. Ég mæli eindregið með Elínu og Danna við borðskreytingar, þau skreyttu allt glimrandi vel, takk kærlega fyrir :) Glimmerið fór reyndar á veislugesti í lok kvöldsins. Svo komu gestirnir, nánast allir sem ætluðu að koma komu, alveg frábær mæting. Svo var setið fram eftir nóttu, sötrað áfengi og nartað í matinn. Kolla og Homero tóku snilldartakta á "dansgólfinu" þegar Kolla náði yfirráðum á græjunum :) María Helen fékk óvænt en glaðlegt brjóstanudd og Siggi hélt skemmtilega ræðu um alþjóðlegu og flóknu fjölskylduna.
---
Kvöldið var einstaklega vel heppnað, en það hefði ekki verið svona nema fyrir ykkur öll sem komuð, takk fyrir mig! Sunnefa mín, það hefði sko verið gaman að hafa þig líka, takk fyrir kveðjuna *kiss kiss*.
---
Ég er búin að setja inn myndaalbúm af kvöldinu, hérna til hægri. Ef einhver kann að setja inn video þá má hann endilega láta mig vita :)

sunnudagur, október 23, 2005

Þá er það skjalfest

Ég er formlega orðinn uppeldis- og menntunarfræðingur, frekar fyndið finnst mér, eitthvað svo fullorðins :) Brautskráningin var í gær í Háskólabíó, alveg stappað í stóra salnum af fólki. Það voru samt ekkert svo margir að útskrifast núna, 332 og að sjálfsögðu flestir úr félagsvísindadeild. Þetta var mjög hátíðlegt allt saman, forsetinn og frú Vígdís létu meira að segja sjá sig með öllum hinum.
Eftir athöfnina fórum við fjölskyldan á MacDonalds til að seðja hungrið :) Uppáklædd og fín sátum við í barnahorninu á Makkanum. Svo skunduðum við bara heim og fórum úr sparifötunum, bara svona í smástund. Við fórum svo öll saman, ég, Nonni, María, mamma, Siggi og Maja út að borða á Ítalíu í boði mömmu og Sigga. Það var rosalega fínt og skottan var voða góð, rölti bara um á milli þess sem hún fékk sér bita. Henni fannst ristaða brauðið og tómatarnir bestir á meðan við fengum okkur dýrindis steik, hún vildi fyrst fá hakk og spaghetti en svo fékk hún lasange...
Við komum svo heim og höfðum það náðugt, María bauð mér að vera besta vinkona sín ef ég myndi lita með henni í nýju litabókina sem Maja gaf henni á föstudaginn, algjör dúlla. Núna er ég bara að læra fyrir próf á þriðjudaginn, lokapróf í fagi sem ég kann ekki neitt í. Þetta er nú samt heimapróf þannig að ég vona að það bjargi mér eitthvað :)

fimmtudagur, október 13, 2005

Uppeldi

Frú Ásdís afskiptasama fékk áfall í morgun! Ég, nývöknuð og úrill, gekk fram á gang með mína yndislegu dóttir :) Þegar ég var að fara í skóna heyrði ég að barni var hent fram á gang með þvílíkum látum á hæðinni fyrir neðan. Barnið grét ansi sárt, mér datt helst í hug að barnið hefði meitt sig all svakalega og reyndi að kíkja niður um handriðið en ég sá ekki neitt. Ég dró því dóttir mína á eftir mér niður á 2.hæð, þar sé ég litla stelpu sem er á 5.ári hágrátandi, hangandi á hurðinni heima hjá sér að biðja mömmu sína um að opna. Mér blöskraði svo að ég gekk til stelpunnar og bað hana um að hætta að sparka í hurðina, sem hún gerði. Því næst bankaði ég á hurðina, til dyranna kom stúlka sem ég þekki :( eða þekkti :) ---
Ég spurði þessa svokölluðu móðir hvað gengi eiginlega á, hún svaraði mér að hún yrði að gera þetta við hana. Ég sagði að hún yrði ekki að gera þetta og ef hún ætti í vandræðum með uppeldi barna sinna þá væru til dæmis námskeið í boði fyrir hana. Hún hreytti í mig að það kostaði peninga, ég sagði henni að ódýrasta námskeiðið kostaði nú bara 3.000 kall hjá heilsugæslunni fyrir háskólanema. Skvísan var í mjög dýrum gallabuxum! Ég sagði þá við hana að þetta væri nú framtíð barnsins hennar þá sagði hún að maður þyrfti að hafa tíma, ég sagði bara við hana aftur að hún væri að tala um framtíð barnsins og gekk í burtu.
---
Svo segir María við mig, þetta var XXXXX XXXXX á leikskólanum. Barnið er nýtt á deildinni hennar Maríu... Ég finn ekkert smá til með þessu barni, ég viðurkenni alveg fúslega að ég er ekki fullkominn uppaldandi en þetta myndi ég aldrei gera mínu barni og hef ég nú verið sökuð um að halda heraga á mínu heimili, sem er reyndar langt frá því að vera rétt.
Ef þú höndar ekki samskipti við 5 ára barn, hvernig getur þú þá höndlað samskipti við 15 ára ungling? Ef þú byrjar á því í æsku barnsins að brjóta það niður hvað færðu annað í hendurnar en niðurbrotinn unglinginn. Agi og ástúð geta og eiga að fara saman, ekki niðurlæging.
----
Það sem líka kom mér á óvart, eða ekki, er að þessi stelpa átti mjög erfiða æsku sjálf. Það er alveg hellingur í mínu uppeldi sem ég er ekki sátt við og vill ekki taka upp heima hjá mér, við eigum að vera gagnrýnin á eigið uppeldi en ekki bara gera eins og við upplifðum. Ef við erum óörugg þá eigum við að leita okkur aðstoðar, í bókum, á námskeiðum, hjá fagaðilum og svo framvegis. Uppeldisfærni er ekki eðlislæg, það er fátt til eins alvarlegt og slæmt uppeldi.

þriðjudagur, október 11, 2005

Búin að skila!!!!

Ég skilaði ritgerðinni áðan innbundinni inn á skrifstofu, svo fékk ég einkunn í gær :) Nokkuð sátt, fékk 8,5 ...er í tíma, skrifa seinna

sunnudagur, október 09, 2005

Frábær helgi

Ég og María brugðum undir okkur betri fætinum á laugardag og skelltum okkur upp í Munaðarnes í tilefni þess að ég skilaði ritgerðinni af mér á föstudag til yfirlestrar. Elín og Danni voru í bústað þar og buðu okkur að koma. Nonni var of upptekinn í vinnunni til að komast með okkur.
Við komum uppeftir seint á laugardag og það var bókstaflega tekið á móti okkur eins og prinsessum. Danni töfraði fram dýrindismáltíð, franska önd með vanillueplum, steiktu grænmeti, salati og bakaðri kartöflu í aðalrétt og heit súkkulaði kaka með ís og jarðaberjum í desert. Bara gott, og ótrúlega flott enda meistarakokkur á ferð. Flosi, gamall skólafélagi Nonna og vinur Danna var líka upp í bústað og eftir að María sofnaði sat fullorðna fólkið að ostaáti og sötraði léttvín með. Potturinn var reyndar eitthvað stríða okkur og neitaði að hitna en við sátum bara inni í staðinn :)
Við María skunduðum svo af stað eftir um miðjan dag í dag eftir að hafa fengið sörveraða ommelettu í hádegismat. Hún var líka mjög ánægð með helgina, enda er Elín eitt af idolunum hennar. Elín las fyrir hana og lá hjá henni á meðan hún sofnaði og svo átti Elín bara að gera allt...
Elsku Elín og Danni, kærar þakkir fyrir okkur.

miðvikudagur, október 05, 2005

I´m so happy!

Ég er að springa, þetta er allt að koma! Ég er langt á undan áætlun og núna á ég bara eftir Inngang, Lokaorð og Útdrátt....nenenenne. Ég ætla að skila JTJ handriti annað kvöld og svo á pakkinn að fara í prentun á mánudag ef allt gengur svo vel áfram.
Núna finnst mér þetta gaman, loksins þegar ég sé fyrir endann á þessu. Reyndar er hún alltof löng en ég get ekki stytt hana meira, og gamli setti ekkert út á lengdina síðast. Hún endar sennilega í 20 þús orðum, en ég veit um lengri ritgerð svo að ég er bara sátt.
Ég var að fá tilboð um að blanda mér í pólitík, þið sem þekkið mig vitið að mér finnst svoleiðs ýkt skemmtó. Ef ég þigg boðið fæ ég sæti ofarlega á lista fyrir næstu kosningar, spennandi :) En tíminn, ég veit ekki hvort ég á svoleiðis eftir fyrir eitthvað svona. Ég ætla reyndar að vera minna í skólanum eftir áramót, er bara skráð í 10 einingar... kannski breyti ég því eitthvað, aldrei að vita. Ég ætla alla vega að pæla í þessu...
Skottan mín getur ekki beðið eftir því að það komi föstudagur, þá er starfsdagur á leikskólanum og ég ætla að vera heima með henni. Við María þurfum reyndar að vinna verkefni en við reddum því heima hjá snúllunni. Hún var voðalega óheppin eitthvað í gær, datt á leikskólanum og sprengdi vörina, svo datt hún úr rúminu okkar í svefni og fékk stóra kúlu á höfuðið. Í takt við lífið síðustu daga faðmaði hún pabba sinn og vildi lítið við múttuna ræða, en þetta lagast.

mánudagur, október 03, 2005

Sá gamli orðinn stressaður

Ég sendi JTJ lagakaflann í gærkvöldi og líka Róberti frænda til yfirlestrar. Eftir tímann í morgun var gamli eitthvað að sýna stressmerki... Hann vill fá þetta allt tilbúið á föstudag, mér líst mjög vel á það enda var ég búin að gera ráð fyrir því. Róbert ætlar að skila mér í síðasta lagi á föstudag, ég er búin að "endurvinna" fyrsta kafla ritgerðarinnar svo að það eru bara 4 eftir. Mesta vinnan er kannski í þeim síðasta, svona hálfgert pillerí að týna til upplýsingar úr ritgerðinni og fella inn í þennan. Ég verð endalaust fegin þegar þetta er búið

sunnudagur, október 02, 2005

Rómantíkin vék fyrir önnum :(

Já, við ákváðum að fara seinna út að borða... kannski þegar það róast eitthvað hjá okkur. Inga tók Maríu fyrir okkur eftir hádegið á morgun þannig að ég gat farið að læra, ég lærði fram yfir kvöldmat og afrekaði frekar mikið. Nonni kom heim með skottuna um níuleytið, ég sakna hennar svo mikið þessa dagana og hún lætur mig sko alveg finna fyrir því að ég sé ekki mikið með henni, óþekk með eindæmum!
Í gær náði ég sem sagt að klára ritgerðarhlutann sem ég átti að skila fyrir hópavinnuna, á bara eftir að laga smá hnökra. Svo vann ég í lagakaflanum og ég er komin alveg til ársins 1991, bara 14 ár eftir og 84 búin. Ég næ alveg að klára hann fyrir yfirlestur á morgun. Mamma tók Maríu fyrir mig áðan og Nonni sækir hana svo þegar hann er búinn að vinna, en ég verð eitthvað fram á kvöld.
Ég gat gert mikið meira núna um helgina en ég bjóst við, en ég er mjög mikið að hugsa um þær fórnir sem maður þarf að færa sem foreldri í námi. Ég veit vel að þetta er bara tímabundið ástand en getur maður unnið það upp seinna? Sá tími sem ég á með Maríu er því miður ekkert sérstakur þessa dagana þar sem hún er eins og ég sagði áðan með eindæmum óþekk og ég með eindæmum óþolinmóð. Ég reyni eins og ég get að setja mig í hennar spor og róa mig án þess þó að slaka á reglum. Greyið litla vildi ekki fara í pössun áðan, hún vildi bara vera heima með mér. Henni var alveg sama hvert hún væri að fara en hún vildi bara vera heima hjá mér, punktur!
Ég reyndi að útskýra fyrir henni að við þyrftum öll að hjálpast að við þetta, eins vel og hægt er fyrir 4ára barni. Þá sagði hún að hún óskaði þess að ég væri ekki í skóla, þá gætum við alltaf verið saman. Ég veit af eigin reynslu hvernig það er að eiga upptekna foreldra og ég vil ekki að snúllan mín kynnist því líka of vel. Þess vegna er ég í námi, til að geta unnið á heilbrigðum tímum en samt gefið henni gott líf.
Þessi tími kemur aldrei aftur, ég er samt ekki tilbúin að fórna mínu námi, en þetta er bara tímabil. 23.október verð ég búin að útskrifast og þá hef ég vonandi meiri tíma til að gera eitthvað skemmtilegt með henni, ég var einmitt að pæla í því áðan að við höfum ekki farið í sund eða fjöruferð í háa herrans tíð.

laugardagur, október 01, 2005

Tíminn flýgur, 5 ár

Við skötuhjúin eigum 5 ára afmæli í dag, vá hvað tíminn líður hratt. Gamli ákvað að koma með á óvart og bjóða mér út að borða í kvöld. Það verður kærkomið í öllu þessu stressi að slaka aðeins á yfir góðum mat. María verður í pössun hjá Ingu og Ragga og fær að gista þar. En er nú ekki við hæfi að rifja upp hvernig við kynntumst...
Ég var í drykkjupásu, búin með kvótann :) en var samt mikið úti á lífinu með Sunnefu og Helgu. Sunnefa var að vinna á Glaumbar og átti þar vin sem yfirleitt var kallaður Nunnan. Ekki misskilja, það var ekkert í tengslum við skírlífi heldur grímubúning. Svo var það í kveðjupartýi sameiginlegs vinar Sunnefu og Nunnunnar, og reyndar fyrrv. hans Nonna líka, að hann gaf sig á tal við mig og bauð mér í Bláa Lónið daginn eftir. Það var nú bara í gríni svo ég þáði boðið en hann bað um símanúmerið mitt. Þegar hann vissi að ég væri á lausu spurði hann mig hvort ég væri svona erfið í umgegni! Mig langaði til að slá hann.
Daginn eftir fékk ég SMS að ferðinni í Bláa Lónið hefði verið frestað vegna veðurs, eins og ég hefði eitthvað ætlað að fara. Næstu skipti sem ég fór á Glauminn hitti ég hann, hann endaði svo með því að bjóða mér út. Ég var voðalega tvístígandi og sagði við hann að ég væri til í að fara með honum en það fylgdi því ekkert, hann gerði nú bara grín af mér og sagðist reyndar vera búin að skipuleggja brúðkaup helgina eftir.
Alla vega, hann kom og sótti mig heim, 1.október 2000. Við fórum á Caruso þar sem ég fékk algjöra prinsessuþjónustu. Eftir matinn fórum við á íshokkíleik og svo þaðan í bíó á leiðinlegustu mynd allra tíma, Scary Movie. Eftir bíóið keyrði hann mig heim. Næstu dagar og vikur liðu með blómasendingum, sms, símtölum, dekri og dúlleríi. Ég sagði stelpunum að ég ætlaði mér sko ekki að ná í kærasta heldur bara kannski sofa aðeins hjá honum. Ég hélt því statt og stöðugt fram að hann væri bara bólfélagi minn og ekkert annað....
Svo fórum við nú að eyða nánast öllum stundum saman, þannig að ég smám saman viðurkenndi að ég ætti nú kærasta. Mamma fékk að vita af honum rétt fyrir jólin, hitti hann á annan í jólum og svo eftir áramótin var ekki aftur snúið. Ég var orðin bomm... Það var nú ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir en það blessaðist nú allt.