sunnudagur, mars 18, 2007

Sunday

Árshátíðin var í gær... það er ekki laust við að smá "þreyta" sé að síga í kroppinn eftir kvöldið. Mér finnst alltaf jafn fyndið að hugsa til þess þegar ég fór í árshátíðina í fyrra og hélt að ég væri að fara að mæta á steingelda samkomu fræðimanna sem hefðu engan húmor. Í stuttu máli þá má segja að ég hafði mjög svo rangt fyrir mér. --- Herlegheitin hófust í snemma dags í gær. Ég keypti mér nýjan kjól fyrir kvöldið og taldi mig nokkuð ready með hann upp á arminn en allt kom fyrir ekki hárblásarinn minn dó í miðjum klíðum, veskið sem ég ætlaði með fannst ekki, þjófavörnin var ennþá í kjólnum og það var blindbylur úti. En Guðrún reddaði mér, en ekki hvað? Hún kom með blásara og sléttujárn, skvísaði til á mér hárið, lánaði mér veski og keyrði mig í fyrirpartýið. Þjófavörnin er ennþá í kjólnum. --- Oddverjar hittust til að væta kverkarnar heima hjá deildarforseta vel tímanlega fyrir fordrykk í Gullhömrum. Samræðurnar þar voru fjölbreyttar og það var pælt í ýmsu. Einn þekktur maður sagði mér að hann hefði nú næstum því verið of seinn til Óla því hann hefði verið að grúska í dag, jújú það var nefnilega þannig að kollegar hans héldu því fram fyrir helgi að með auknum ójöfnuði hefðu glæpatíðni aukist. Hann ákvað að kynna sér þetta til að geta hrakið þetta, og vitið menn, rétt fyrir kl. 17 komst hann að þeirri niðurstöðu að kollegarnir hefðu rangt fyrir sér. Þegar hann vissi um bakgrunn minn í uppeldis- og menntunarfræðinni og núverandi nám fór hann að segja mér frá reynslu sinni í tengslum við börn og nám. Samkvæmt honum er það víst þannig að sum börn geta einfaldlega ekki lært, þau eru bara illa gefin (Munnleg heimild. Oddverji, 17.mars 2007). --- Rútan sótti okkur svo rétt fyrir 19 (ekki frá Kynnisferðum Guðrún- Teitur!). "Ófærðin" í Hlíðunum olli smá vandræðum með stórkostlegri fimi bílstjórans í snjóakstri tókst að koma rútunni út á Miklubraut. Þjófavörnin slóst heldur of mikið í kálfann í rútunni. Loks komum við í Gullhamra, mér leið eins og litlu barni í röðinni í anddyrinu þegar nokkrir menn fóru að rifja upp ákveðið atvik í Glaumbæ og annað í Hollywood þegar þeir voru 16 ára. Ég meina ég hef aðeins lesið um þessa staði! Fordrykkurinn var dísætt freyðivín sem búið var að stilla upp á borðum- ég gat ekki annað en hugsað um það hvað þetta var mikið snyrtilegra og þægilegra fyrir þjónana heldur en bakkasörvis. --- Árshátíðin sjálf var æði, dádýrið rann ljúflega niður með dýrindis rauðvíni og Breezerinn var hressandi þegar líða tók á kvöldið. Baggalútur kom sá og sigraði, Raggi Bjarna rifjaði upp eld-gamla takta og hljómsveit hússins hélt uppi stuðinu fram á nótt. Þegar vel var farið að þynnast í hópnum á dansgólfinu ákvað ég að skella mér í bæinn með "unga fólkinu". Sumir voru búnir að drekka allt of mikið og lögðu sig heldur mikið á Ölstofunni og fengu því handleiðslu út af staðnum, aðrir áttu í stökustu vandræðum með franskan hönk, enn aðrir pirruðu sig á karlmönnum og hinir (ég) sátu með Southern og höfðu það næs fram undir morgun. Eina parið í "unga" hópnum fór heim fljótlega eftir að við komum á Ölstofuna. --- Þegar klukkan var að ganga fimm vorum við þrjár eftir; ég, Silja Bára og Svandís Nína. Okkur datt ekki í hug að ganga niður að leigubílaröð heldur stoppuðum við næsta bíl og fengum ökumanninn til að keyra okkur heim. Hann var 17 ára og nýfluttur til Reykjavíkur úr Dölunum, hann rataði ekkert í Reykjavík en ég og Silja Bára komumst heim til okkar- ég býst við því að hann hafði komist heim til Svandísar Nínu en ég veit ekkert hvort hann hafi svo ratað til baka greyið. En við komumst nú heilar heim og þjófavörnin ennþá í kjólnum! --- Frábært kvöld!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahaha snilld :) djöfull hefði ég verið til í að vera makinn þinn á þessari árshátíð!

Ásdís Ýr sagði...

bara skemmtileg kvöld... mig vantaði einmitt sárlega maka þetta kvöld. Hanna Björg var nú samt nokkuð góður dansfélagi og Alla fínasti borðfélagi... þú hefðir nú samt toppað alla!

Nafnlaus sagði...

Greinilega Mjööög gaman hjá ykkur. Skrítið að hugsa til þess að þetta næstum því steingelda fólk sem maður sér daglega, geti slett svona úr klaufunum!