Já, veistu ég held það bara - það er nauðsynlegt að flytja annað slagið og grisja aðeins draslið sem maður safnar. Þegar maður býr lengi á sama stað hættir maður að taka eftir því sem maður þarf ekkert að nota. María var lasin heima í dag svo ég var aðeins að dunda mér í geymslunni á meðan hún fékk vinnutækið mitt lánað aka. tölvuna.
---
Þegar ég flutti hingað fyrir rúmum tveimur árum fannst mér það gríðarlegur kostur hvað geymslan var stór. Þegar ég bjó á Hjónagörðum var geymslan lítið frímerki þar sem ég geymdi allt sem ekki var notað daglega, til dæmis straujárn og þess háttar (íbúðin var sko líka frímerki). Svo flutti ég úr tvistinum yfir í sexuna og fékk aðeins stærri geymslu. Ókosturinn við þá geymslu var að maður þurfti að fara út á bílaplan til að komast í geymsluganginn. Þegar ég flutti þaðan man ég ekki til þess að geymslan hafi verið neitt troðfull af einhverju drasli heldur bara svona týpísku geymsludóti - útilegudótið og svoleiðis.
---
Geymslan hérna í tíunni er svipað stór og íbúðin á Hjónagörðum - eða alla vega stofan :) Þegar ég flutti ákvað ég að gerast sveitó og hafa hluta af geymslunni fyrir búr þar sem gengið er í geymsluna úr eldhúsinu. Nema hvað að búrdraumurin dó fljótlega því ég fór að skella öllum fjandanum þarna inn. Undanfarna mánuði hefur verið nokkuð mál að komast með góðu móti inni blessað geymsluskotið þótt ég hafi ekki fyrir svo löngu rutt öllu þar út, raðað upp á nýtt og hent bílförmum af drasli.
---
Eitt af því sem fær að fjúka þarna inn eru pokar af plastflöskum og áldósum. Sökum þess hve geymslan er "rúmgóð" er farið mun sjaldnar í Endurvinnsluna en í den. Í dag ákvað ég að það væri kominn tími til að fara með þetta í Endurvinnsluna og græja eitthvað á þessu svona á síðustu og verstu tímum. Ég eyddi því drúgum hluta dagsins í að telja flöskur og dósir í nýja poka - ég hafði náttúrulega ekki hugvit í að telja í pokana þegar ég henti þessu inn svo ég fékk það verkefni í dag. Mikið lifandis skelfingar ósköp er það leiðinlegt verk. Nema hvað, í geymslunni minni voru hvorki meira né minna en 350 plastflöskur og 57 áldósir sjáanlegar - sem gera 8 ruslapokar af flöskum og dósum. Það er spurning hvað fleira leynist þarna?
2 ummæli:
Drekkurðu svona mikið Ásdís? Þú ættir kannski aðeins að fara að róa þig í drykkjunni, þetta nálgast greinilega hættumörk...
Þetta eru sennilega 2ja ára birgðir.. eins og þú veist þá drekk ég samt ekki heima hjá mér, helst bara á Akureyri :)
Skrifa ummæli