þriðjudagur, september 30, 2008

Þegar barnið veit betur

Ég man alltaf eftir því þegar ég hlustaði á fyrirlestur hjá Hugó fyrir nokkrum árum og hann sagði að foreldrar spyrðu börnin nánast undantekningalaust hvað þau vildu fá í matinn þegar foreldrarnir vildu sukka. Ég lenti í þessum aðstæðum í dag.
---
Í dag fórum við mæðgur á búðarbrölti eftir vinnu og klukkan orðin ansi margt þegar við erum á leið út úr Smáralindinni. Ég stakk upp á því að við myndum bara fá okkur pyslu í kvöldmat.. nei barnið var ekki til í það. Þá stakk ég upp á því að við myndum steikja okkur hamborgara... nei barnið var ekki til í það. Hún gekk rakleitt að fiskborðinu í Hagkaup og velti fyrir sér hvernig fiskrétt hana langaði í - barnið valdi plokkara. Hún var reyndar smá stund að velja á milli plokkara og ýsu í Malasíusósu. Ég gat hreinlega ekki neitað barninu um plokkara og sagt að við yrðum að kaupa hamborgara - sem hún nb veit að eru óhollir og kosta meira en plokkarinn. Við enduðum því með plokkara í matinn.
---

þriðjudagur, september 23, 2008

Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn

Eins of flestir horfði ég á Kompás í gærkvöldi. Ég var kannski ekkert sérstaklega sjokkeruð á þessu, enda hardcore lady.. djók. Mér fannst þátturinn alveg ágætur, ekkert meira en það. Mér fannst vanta meiri dýpt í umfjöllunina og meiri dýnamík í þáttinn sjálfan - svo var það blessuð kræklingaræktin sem kom á eftir sem drap alveg stemmninguna.
---
En umræðan í dag hefur mér þótt með eindæmum leiðinleg. Fólk eyðir þvílíkum tíma í að ræða um þessa blessuðu menn. Af hverju ræðir enginn handrukkun per se eða bara löggumanninn sem var vinnufélagi annars þeirra? Mér finnst það skipta miklu meira máli ...

laugardagur, september 20, 2008

Stjörnuspár, geðillska og dagblöð

Stundum (eða kannski oft) kíki ég á stjörnuspána mína á mbl.is eða dreg spil á spamadur.is. Yfirleitt alltaf fæ ég þau svör sem ég er að leita að hverju sinni, nema í dag þá var stjörnuspáin mín á mbl.is fáránleg - þar var sagt að mig langaði að koma einhverjum undir græna torfu!!! Kannski er þar undirmeðvitundin að láta á sér kræla en ég kannast ekki við þessar pælingar ... Ég elska stjörnuspána þegar hún segir mér það sem ég vil heyra og það sem ég er að hugsa. Call me crazy.. I know.
---
Það er samt svo margt að flækjast í hausnum á mér þessa dagana, það er stutt í geðvonskuna og gleðina. Ég er eins og íslenska veðrið, breytist oft á dag. Kannski er tóbaksleysið að tala, ég vil alla vega kenna því um geðsveiflurnar. Ég ákvað það þegar ég vaknaði í morgun að gera ekki neitt í allan dag og vera í náttfötunum þangað til á morgun. Það entist ekki lengi, mikið svakalega er leiðinlegt að gera ekki neitt. Mér þótti það svo leiðinlegt að ég er búin að þrífa ísskápinn og byrjuð á eldhússkápunum. Svo skellti ég mér niður og nældi mér í góðan haug af dagblöðum því ég ætla að pakka niður í kassa - ég flyt einn daginn, svo það er eins gott að vera búin að þessu.
---
En talandi um dagblöð, ég bað dóttir mína að fara niður og sækja dagblöð fyrir mig til að pakka einhverju niður. Hún kom eftir dágóða stund og sagði mér að það væri ekkert dagblað niðri en hún hélt samt á góðum bunka. Þegar ég benti henni á að hún héldi á nokkrum sagði hún réttilega við mig: "Þetta eru 24stundir og Fréttablaðið - ég fann ekkert sem heitir Dagblað!"

föstudagur, september 19, 2008

Kláralega hressasta kaffistofa landsins í dag

Vissir þú að.... þegar dóttir krataforingjans og sonur íhaldsforingjans trúlofuðu sig lagðist íhaldið í rúmið og gat sig hvergi hreyft þar til kunningi benti honum á þetta væri nú ekki alslæmt - íhaldið væri nú alltaf ofan á... (Já, nema þau tækju upp kratasiði og prufuðu nýja hluti - sem kunninginnn hefur ábyggilega ekki bent á)

miðvikudagur, september 17, 2008

Hvað er málið???

Ég opnaði tölvupóstinn minn áðan eins og ég geri svo gjarnan á heila tímanum.. fríkeypis skipulagsráð frá JTJ. Nema hvað að þegar ég flétti í gegnum hrúguna fann ég mjög svo sérstakt bréf. Í því stóð:
---
"HelloAm Rita,fair in complexion,tall hot in bed.and loving and caring young lady with good understanding and sharing in nature i decided to contact you at www.barnaland.is ) do contact me through this my id so that we know each other better and share pictures to ourselves.Hope to hear from you and bye with a warmly kissssssssssss. Rita"
---
Á barnaland.is eru í flestum tilfellum bara myndir af börnum - hvaða máli skiptir þá að gellan sé hot in bed?

mánudagur, september 15, 2008

Næst á svið..

... er Ásdís Ýr ballettdansmær frá Ballettskóla Guðbjargar Björgvins! Hljómar þetta ekki vel? Ekki falla í yfirlið, ég er ekki farin að æfa ballett en ég fékk samt gott boð í dag frá ballettkennararnum hennar Maríu. Þar eru í boði balletttímar fyrir foreldra, allt frá algjörum byrjendum til gamalla dansara. Nema hvað samtal okkar var eitthvað á þessa leið:

Kennari: Þú vilt ekki koma í ballettinn sem er núna í gangi, þetta eru foreldrar margra krakka hérna - passar akkúrat við tímann hennar Maríu? Ásdís tilvonandi ballettdansmær: Uhh, ég er veit það ekki.. ég er svo strið að ég yrði eins og álfur þarna Kennari: Elskan mín, heldurðu að þú getir ekki lyft fætinum upp á stöngina? Ásdís tilvonandi ballettdansmær: (Hóstar) nei, ég held ekki sko Kennari: Iss, ég verð fjót að teygja það úr þér. Hugsaðu alla vega um það!

Ég komst í splitt í nokkur skipti þegar ég var 14 ára (eða 15 ára). Þau voru ekki mörg, en ég komst. Ætli ég yrði ekki létt á mér og tignarleg á sviðinu í tutupilsi með celló á rassinum?

laugardagur, september 13, 2008

7 ár...

Mér finnst svo stutt, en samt svo langt síðan að ég var að elda lasange með skrítnar pílur í maganum.. sem voru hríðir. Það eru komin sjö ár síðan. Yndislega dóttir mín verður 7 ára á morgun. Það er gaman að rifja þetta upp...
---
1.september 2001 fluttum við Nonni í íbúð upp í Grafarvogi sem við höfðum á leigu, ég var orðin eins og hvalur (að mér fannst) - slagaði upp í 70kg sem mér fannst ótrúlega mikið verandi komin 9 mánuði á leið. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir eyddi ég öllum mínum tíma í að baka Betty Crocker, borða Betty Crocker og drekka nýmjólk með. Ég straujaði bleiur, bjó um vögguna í mismunandi útfærslum og h0rfði á sjónvarpið.
---
Þegar 13.september leit dagins ljós flaug mér ekki í hug að hann ætti eftir að verða eitthvað öðruvísi en aðrir dagar, ég byrjaði að elda kvöldmatinn fljótlega eftir hádegismatinn og fór með Nonna og sótti nokkar dvd myndir til ða horfa á. Þegar ég var að leggja lokahönd á margra klukkutíma matreiðsluna, lasange, fór ég að fá skrítnar pílur í magann og bakið. Eftir matinn lagðist ég í sófann og fór að glápa á sjónvarpið. Þessir skrítnu verkir ágerðust þegar leið á kvöldið og nóttina, ég gat ekki sofnað en Nonni var alveg að leka út af og það sætti ég mig ekki við. ÉG vildi að hann myndi horfa á mig en ekki tala við mig.
---
Um miðja nótt ákváðum við að fara upp á spítala til að láta tékka á þessu. Mamma ætlaði að vera með okkur svo ég hringdi í hana til að láta hana vita, ég sagði henni að ég myndi hringja í hana af spítalanum og láta hana vita hvernig staðan væri. Ég gleymi aldrei andartakinu þegar ég við hringdum bjöllunni, mér fannst það svo vandræðalegt - hvað á maður að segja: .."Hæ, ég er að koma að fæða barn!"
---
Við vorum rétt nýkomin inn þegar mamma mætti, hún var greinilega tilbúin í gírinn með myndavélina um hálsinn og íþróttatösku fulla af nesti, nuddolíum og alls konar dóti. Við tók nokkurra klukkutíma bið - mig minnir að við höfum við komin um fjögurleytið um nóttina og María er fædd í hádeginu. Fæðingin gekk bara nokkuð vel, ég fylgdist vel með klukkunni og taldi niður tímann fram að hádegi - ljósan hafði sagt að hún myndi fæðast þá.
---
Fyrir fæðinguna var ég búin að gera rosalega fínan óskalista þar sem óskir mínar komu fram, sorry en hverjum datt í hug að láta frumbyrju fá þá flugu í hausinn að hún gæti stýrt þessu eitthvað. Óskalistinn gleymdist heima en jeminn hvað hann var úr takti við raunveruleikann. Til að mynda sagði ég við ljósuna að ég vildi fara í gegnum fæðinguna án deyfingar, ss vildi ekki að mér væri boðið neitt og ég vildi vera sem mest á ferðinni en ekki í rúminu. Ég vildi ekki eiga á bakinu og só on. Til að gera langa sögu stutta var ég farin að heimta verkjalyf fljótlega eftir að ég kom, ég lá á grjónapúða upp í rúmi nánast allan tímann og ég átti á bakinu :)
---
Fæðingin sjálf er samt ansi gloppótt í minninu, ég man eftir einstaka mómentum en ekki öllu. Ég man samt svo vel eftir því þegar ljósan klappaði mér á öxlina og hrósaði mér fyrir það hvað ég var dugleg - ég lifði lengi á þessu hrósi þrátt fyrir að nokkru seinna hafði ég heyrt að þær segja þetta við alla.
---
En nóg um það, á morgun eru 7 ár síðan ...

mánudagur, september 08, 2008

Hamstrar og samkynhneigð

Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil um hvernig mann ég vildi fá að eiga fyrir mig - bara fyrir mig. Mörgum fannst ég vera óraunhæf og sögðu að þessi maður væri ekki til. Ein vinkona mín gekk svo langt að segja að ástæðan fyrir því að ég væri ein væri sú að ég vildi það sem ég gæti ekki fengið til að vera alltaf ein, ætli það sé rétt? Ég barasta veit það ekki, ég veit samt alveg hvað ég vil og ég veit að það er ekki í boði.
---
Kannski langar mig bara í þessa ímynd, fjölskyldumyndina. Mig langar að skipuleggja barneignir með fullkomnum manni, mig langar að hafa einhvern heima á kvöldin og taka þátt í lífinu með mér. Ég nenni ekki að hanga á msn öll kvöld, ein fyrir framan tölvuna heima hjá mér. Ég nenni ekki að þurfa að hringja ef mig langar að tala við einhvern, mig langar að geta snúið mér við og spjallað án þess að tækni þurfi að koma þar við.
---
Ég er pirruð

sunnudagur, september 07, 2008

Sveitasælan

Þá erum við mæðgur komnar heim - reyndar sú yngri fór á hitt heimilið í Breiðholtinu. Það er einhver ákveðinn sjarmi yfir þessari helgi, allir koma í sveitina og yfirleitt er leiðinlegt veður - sem þykir reyndar betra veður til að smala en gott veður, skrítið. Þegar við mættum á föstudagskvöldið var komið myrkur enda miðnætti, bóndinn var úti á hlaði að dytta að fjárkerrunni og bræðurnir tvær stóðu álengdar og fylgdust með. Þegar bóndinn hafði orð á því að viðgerðin gengi ekki upp sagði annar bróðirinn, smiðurinn í fjölskyldunni, að hann þyrfti bara að reyna aðeins betur. Ég skilaði mömmu af mér og hélt af stað aðeins lengra heim til Rögnu frænku.
---
Ég bar Maríu inn steinsofandi og setti hana á dýnuna í "okkar" herbergi. Við Ragna sátum á snakki langt fram eftir nóttu enda langt síðan við höfum fengið tækifæri til þess - eða síðan við höfum gefið okkur tækifæri til þess. Á laugardagsmorgun var ég síðust á fætur, við þurftum bara að mæta í fyrirstöðu svo við þurftum ekki að vera snemma á ferðinni í sveitina. Rétt eftir hádegi fórum við af stað og lögðum bílunum utan vegar og biðum eftir fé. Meðan við biðum rifjuðum við upp gamla tíma - traktorsferðirnar, djúsbrúsana og súkkulaðikexið sem amma gaf okkur alltaf í nesti. Við sórum þess eið að á næsti ári færum við með stelpurnar upp í fjall enda allt of langt síðan síðast.
---
Þessi smölun var viðburðarríkari en flestar aðrar, í fyrsta skipti í sögu búskapar á okkar bæ kom lögreglan og sótti einn gagnamann og flutti hann í fangageymslur. Jafnframt keyrði eitt fjórhjólið á bíl frænku upp í dal og skemmdi hann. Mennirnir eru alls óskyldir okkur :) Við frænkurnar þurftum aðeins að láta í okkur heyra þegar fjárhópur tók stefnuna til okkar, að sjálfsögðu hljómuðum við eins og hálfvitar en vá hvað það var gaman. Auk þess reyndum við eftir fremsta megni að láta lögregluna sjá okkur í þeirri von að önnur okkar færi í járn - því jú löggan á þessum slóðum er ekkert slor :)
---
Svo var farið í réttina að draga. Eitt borgarbarnið var eitthvað óhresst með tímann sem það tók að fara í réttina og spurði mig: Ásdís, hvenær förum við eiginlega í ræktina og sorterum kindurnar? Við létum ræktina vera þennan daginn, sem og aðra. Það er svo gaman í réttinni, þó ég ráðist nú bara á lömbin. Ég ákvað að ná mér í eina rollu og þá lenti ég á rassgatinu - lömbin voru mín deild. Það voru þreyttir og skítugir kroppar sem komu svo til Skagastrandar í gærkvöldi.
---
Fljótlega eftir hádegi gerðum við okkur ferðbúnar og fórum af stað heim. Þar sem ég pakkaði svo litlu var lítið til að taka með heim, ég var svo dugleg að pakka að ég gleymdi ýmislegu nauðsynlegu svo sem nærfötum, sokkum og utanyfirfötum. Utanyfirfötin fékk ég lánuð fyrir norðan en sokkana og nærfötin verslaði ég á leiðinni. Spurning um að pakka létt eða bara of létt?
---
Á morgun tekur við löng vinnuvika, þrátt fyrir að búa nánast í vinnuna þessa dagana þá skulda ég tíma frá síðustu viku og ef bókhaldið mitt er nógu gott þá þarf ég að vinna aukalega 6 tíma í þessari viku. Stefnan er tekin á bólið snemma í kvöld.

miðvikudagur, september 03, 2008

Að muna eða muna ekki

Stundum er sagt að ég muni allt, ég man mjög mikið úr fortíðinni og samtíðinni - oftast hluti sem engu máli skipta. Stundum hef ég velt því fyrir mér hvort hægt sé að breyta því sem liðið er, og alltaf komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Learning by doing sagði einn mjög svo gáfaður maður... fortíðin er til að læra af - og ekkert annað ... jú kannski líka hlægja að. Svo getur maður lent í því, líka við sem teljum okkur muna allt, að það sem við munum er ekki rétt. Það getur verið spaugilegt og já líka háalvarlegt - allt eftir því hvernig litið er á málin. En hvað er þá rétt, það sem við munum eða það sem hinir muna? Kannski er þetta spurning um það sem við viljum muna...