sunnudagur, september 07, 2008

Sveitasælan

Þá erum við mæðgur komnar heim - reyndar sú yngri fór á hitt heimilið í Breiðholtinu. Það er einhver ákveðinn sjarmi yfir þessari helgi, allir koma í sveitina og yfirleitt er leiðinlegt veður - sem þykir reyndar betra veður til að smala en gott veður, skrítið. Þegar við mættum á föstudagskvöldið var komið myrkur enda miðnætti, bóndinn var úti á hlaði að dytta að fjárkerrunni og bræðurnir tvær stóðu álengdar og fylgdust með. Þegar bóndinn hafði orð á því að viðgerðin gengi ekki upp sagði annar bróðirinn, smiðurinn í fjölskyldunni, að hann þyrfti bara að reyna aðeins betur. Ég skilaði mömmu af mér og hélt af stað aðeins lengra heim til Rögnu frænku.
---
Ég bar Maríu inn steinsofandi og setti hana á dýnuna í "okkar" herbergi. Við Ragna sátum á snakki langt fram eftir nóttu enda langt síðan við höfum fengið tækifæri til þess - eða síðan við höfum gefið okkur tækifæri til þess. Á laugardagsmorgun var ég síðust á fætur, við þurftum bara að mæta í fyrirstöðu svo við þurftum ekki að vera snemma á ferðinni í sveitina. Rétt eftir hádegi fórum við af stað og lögðum bílunum utan vegar og biðum eftir fé. Meðan við biðum rifjuðum við upp gamla tíma - traktorsferðirnar, djúsbrúsana og súkkulaðikexið sem amma gaf okkur alltaf í nesti. Við sórum þess eið að á næsti ári færum við með stelpurnar upp í fjall enda allt of langt síðan síðast.
---
Þessi smölun var viðburðarríkari en flestar aðrar, í fyrsta skipti í sögu búskapar á okkar bæ kom lögreglan og sótti einn gagnamann og flutti hann í fangageymslur. Jafnframt keyrði eitt fjórhjólið á bíl frænku upp í dal og skemmdi hann. Mennirnir eru alls óskyldir okkur :) Við frænkurnar þurftum aðeins að láta í okkur heyra þegar fjárhópur tók stefnuna til okkar, að sjálfsögðu hljómuðum við eins og hálfvitar en vá hvað það var gaman. Auk þess reyndum við eftir fremsta megni að láta lögregluna sjá okkur í þeirri von að önnur okkar færi í járn - því jú löggan á þessum slóðum er ekkert slor :)
---
Svo var farið í réttina að draga. Eitt borgarbarnið var eitthvað óhresst með tímann sem það tók að fara í réttina og spurði mig: Ásdís, hvenær förum við eiginlega í ræktina og sorterum kindurnar? Við létum ræktina vera þennan daginn, sem og aðra. Það er svo gaman í réttinni, þó ég ráðist nú bara á lömbin. Ég ákvað að ná mér í eina rollu og þá lenti ég á rassgatinu - lömbin voru mín deild. Það voru þreyttir og skítugir kroppar sem komu svo til Skagastrandar í gærkvöldi.
---
Fljótlega eftir hádegi gerðum við okkur ferðbúnar og fórum af stað heim. Þar sem ég pakkaði svo litlu var lítið til að taka með heim, ég var svo dugleg að pakka að ég gleymdi ýmislegu nauðsynlegu svo sem nærfötum, sokkum og utanyfirfötum. Utanyfirfötin fékk ég lánuð fyrir norðan en sokkana og nærfötin verslaði ég á leiðinni. Spurning um að pakka létt eða bara of létt?
---
Á morgun tekur við löng vinnuvika, þrátt fyrir að búa nánast í vinnuna þessa dagana þá skulda ég tíma frá síðustu viku og ef bókhaldið mitt er nógu gott þá þarf ég að vinna aukalega 6 tíma í þessari viku. Stefnan er tekin á bólið snemma í kvöld.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahaha.. skömm að missa af þessu! Ég ætla aldrei að missa aftur af réttum.. Kv Anna Maja

Ásdís Ýr sagði...

Nákvæmlega frænka, mesti hasarinn síðustu ára var sennilega þegar ég keyrði á rollunna fyrir mörgum árum.. þú mátt aldrei sleppa réttum aftur :9

Nafnlaus sagði...

hahaha...hefði alveg viljað verða vitni að hasarnum:-) Það er aldrei leiðinglegt í kringum þig Ásdís mín

Sigurlaug Anna sagði...

þú hefðir kannski átt að spila minna rommý og pakka meira í töskur á föstudaginn?? :D
þetta hefur örugglega verið skemmtileg helgi hjá ykkur.

Ásdís Ýr sagði...

Elín - þakka þér fyrir sæta mín, það er náttla alltaf ofurskemmtilegt í kringum okkur því við erum bara skemmtilegastar saman

Sigurlaug - það er spurning... ég var bara svo viss um að allt væri í töskunni....

Helga Björg sagði...

HAHAHA.... ég hefði sko alveg viljað verða vitni af þessu! :)