mánudagur, mars 23, 2009

Sá handlagni

Á hverju heimili er nauðsynlegt að hafa einn handlaginn - bara svona til að dytta að því sem þarf þegar þarf. Einhvern veginn virðist þetta hlutverk oftar en ekki detta inn hjá karlkyninu sama hvaða hæfileika hann hefur.
---
Ég þekki einn svona "handlaginn". Fyrir mörgum árum þegar María var nettur bumbubúi bilaði klósettkassinn í Leirubakkanum, sá handlagni tók sig til og "lagaði" kassann. Viðgerðin fólst í því að fyrir hverja ferð þurfti að skrúa frá krananum í kassann, bíða smá stund og skrúfa svo fyrir þegar búið var að sturta. Annað dæmi er þegar kraninn frá þvottavélinni lak, viðgerðin fólst í því að skella handklæðum utan yfir kranann...
---
Undanfarið hafa flest raftæki í eldhúsinu hér í sveitinni gefið upp öndina, tilviljun veit ég ei en frá því ég flutti inn um áramót hefur kaffivélin hætt að mala, uppþvottavélin höktir og á það til að skilja eftir vatn í tíma og ótíma, hraðsuðuketillinn er dauður og spaneldavélin gaf upp öndina rétt í þessu. 
---
Sá handlagni ætlaði að losa helluborðið og koma því í viðgerð. Barnabarnið fylgdist spennt með konurnar á heimilin biðu eftir slysi. Helluborðið fór af eftir smá svona dúllerí. Kona hins handlagna sá sig knúa til að minna hann á að slá út rafmagninu fyrir helluborðið sem hann taldi sig nú hafa gert. Konan taldi þá málið í nokkuð öruggri höfn og lagði sig með blöðin inn í rúmið.  Stuttu síðar varð allt svart og frúið gólaði úr rúminu: "Er í lagi með viðgerðarmanninn?". Jú, hann var hress, helluborðið laust og ekkert rafmagn á efri hæð hússins. 
---
Þegar sá handlagni hafði gengið frá vírum og slegið rafmagninu aftur inn fór ég inn á bað, ég hafði lagt húfu af barnabarninu í bleyti og ætlaði að losa um tappann í vaskinum. Ekkert gekk svo ég kallaði á konu hins handlagna.. jú það er ekki að spyrja að því, vaskurinn stíflaðist fyrir einhverjum misserum síðan svo hinn handlagni þurfti að losa vatnslásinn... í miðri viðgerð lenti tappinn í hnjaski og hefur ekki virkað síðan.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahaha ertu ekki farin að ná þessum hintum... Þú átt greinilega að flytja í vesturbæinn aftur, nú eða jafnvel bara á Akureyri!! :D

Akureyringurinn :P

Nafnlaus sagði...

þetta var ekki ég sem skrifaði hér að ofan en eins og talað út úr mínu hjarta. Akureyri mun taka vel á móti þér þegar þú kemur :)
Valla