---
Barnið mitt er formlega orðið lyklabarn og er ótrúlega sátt við fyrirkomulagið. Það er mikið að gera á litla heimilinu okkar, barnið stundar fótboltann á fullu, ballettinn er að kikka inn aftur og sömuleiðis kórinn. Það var yndislegt að keyra hana á ballettæfingu fyrr í dag, beint af fótboltaæfingu. Innan um puntskó og dúllerí plantaði hún takkaskónum og legghlífunum. Gervigrasbuxurnar og sokkarnir fengu svo að hanga í klefanum með prinsessudótinu. Eftir nokkrar mínutur var gallharði KR-ingurinn orðinn ballerína með snúð í tjullpilsi.
---
Á meðan barnið æfði stíft með balletthópnum ákvað mamman að versla inn fyrir fyrsta hlutann af afmælisveislum - sá síðari verður eftir rúma viku. Það getur verið hollt að fara í búð og vita ekkert hvað maður ætlar að kaupa, þá fær hugurinn að njóta sín og stundum verður útkoman góð og stundum ferlega fyndin. Nema hvað, ég fór að velta því fyrir mér af hverju eru brauðvörur alltaf það fyrsta sem maður sér í Bónusverslun - það vita það allir sem versla og hafa smá rökhugsun að ef þú setur brauð neðst í körfuna þá verður það ansi kramið ef þú heldur áfram að hlaða ofan á það!
---
Ég gekk um búðina, fór sömu gangana aftur og aftur og reyndi að muna hvað ég ætlaði að kaupa. Ég gafst upp eftir dágóða stund og ég held ég hafi keypt allt sem mig vantaði nema tómatsósu og mjólk. Ég meina hver þarf tómatsósu og svo er mjólk ekkert svo holl. Barnið pantaði pizzur og Hello Kitty köku á la mamma. Mamman ætlar að verða við þeirri beiðni aðfararnótt sunnudags - á sama tíma og hún ætlar að tæma síðustu kassana og finna leið til að koma 16 stelpum í sæti.
---
Eníveis, plan helgarinnar er að draga nokkra lambskrokka í sveitnni og halda svo stelpupartý í borginni - Er ekki helgin bara 2 dagar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli