mánudagur, janúar 02, 2012
Gleðilegt nýtt ár!
Við mæðgur höfum átt nokkuð gott ár. Sú eldri varð þrítug og sú yngri 10 ára. María Rún byrjaði að æfa karate í janúar hjá Karatefélagi Reykjavíkur við góða orðstýr, hún skorar reglulega á mömmu sína í armbeygjukeppni og vinnur án undantekninga. Hún hélt áfram í fótboltanum og er nú komin í 5.fl.kvk. hjá KR,. Meðfram íþróttunum spilar sú stutta á klarinett í Skólahljómsveit Reykjavíkur. Ásamt öllu þessi sinnir hún svo hefðbundnu námi í Melaskóla þar sem hún stendur sig að sjálfsögðu með prýði. Mömmunni finnst hún að sjálfsögðu fullkomið barn. Mamman lauk loksins MA náminu í fötlunarfræði ásamt því að ljúka kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri.
Eins og venjulega reyndum við að ferðast um landið, mamman fór reglulega í vinkonu- og námsferðir til Akureyrar fram á vorið og heillaðist enn meir af fjallaloftinu í Eyjafirði. María Rún kíkti í upphafi sumars til Spánar með ömmu sinni þar sem þær sóluðu sig, versluðu og skoðuðu allt það sem Spánn hefur upp á að bjóða. Mamman notaði tækifærið og kíkti í heimsókn á Hveravelli, og fann þar nýjan uppáhaldsstað í tilverunni. Góðir vinir fluttu til Svíþjóðar svo við gáfum okkur góðan tíma með þeim á Akureyri áður en þau flugu af landi brott, við tókum okkur svo 9 klukkutíma í keyra fyrir Tröllaskaga og vestur á Blönduós. Nokkra daga í júlí vorum við svo í gamla skíðaskálanum við Skagaströnd þar sem sögustund var afskpalega vinsæl fyrir svefininn með sögum úr sveitinni. María Rún fór svo vestur til Ísafjarðar þar sem hún var í góðu yfirlæti í Króki.
Þegar fór að hausta, a.m.k. samkvæmt dagatalinu, fórum við að sjálfsögðu í réttir í elskulegu sveitinni okkar. Hápunktur haustisins var án efa skiptinám Maríu Rúnar í Höfðaskóla þar sem sú stutta fékk að prufa eina viku í fámennum skóla, æfa fótbolta með Fram og spila á þverflautu frænku sinnar.
Sveitin kom sterkt inn á þessu hausti, mamman kíkti á ball á haustmánuðum sem reyndist örlagaríkt. Þar var myndarlegur bóndi úr sveitinni sem bauð múttunni upp í dans. Það er aldrei að vita nema mamman mæti með date á árshátíðina! Fyrst þarf hún reyndar að fara í dansskóla. Síðustu daga ársins vorum við í góðu yfirlæti í Hafnarfirðinum ásamt því að dúllast heima við. Okkur hlakkar mikið til að takast á við nýtt ár og vonum að það muni færa okkur gleði og lukku, og betri danskunnáttu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
krúttin mín, gleðilegt ár :)
valla
Skrifa ummæli