Í fyrsta skipti í ansi langan tíma var ég ein heima um helgina. Það að vera einn með sjálfum sér er stórlega vanmetið fyrirbæri, sérstaklega þegar maður hefur ekki verið mikið einn. Mamma flutti í nýja íbúð um síðustu helgi og María var á leið í frænkuheimsókn - svo voila, Hagamelsmúttan var ein heima.
----
Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudag var ég ansi eirðarlaus, mig langaði margt og fæst af því var hægt að framkvæma svo skynsamlegt væri. Ég henti mér í sturtuna og lagðist upp í rúm, dormaði þar fram að kvöldmat milli þess sem ég kjaftaði í símann. Allt í einu fannst mér ferlega notalegt að þurfa ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, ég druslaðist þó út í búð til að fylla á sælgætisbirgðarnar.
----
Þegar leið á kvöldið mætti "litla" frænka í heimsókn, við fleygðum okkur í sófann með nóg af kóki, snakki og nammi til að fæða heilt þorp í Afríku. Við áttum oft svona kvöld í den þegar ég bjó á stúdó og hún kom í heimsókn en undanfarið höfum við verið alltof latar (eða uppteknar) í svona kvöld. Notalegt og bara nauðsynlegt. Þegar frænka var farin valdi ég mér vælu til að horfa á - Brown Sugar - sofnaði yfir henni og gekk inn í rúm milli svefns og vöku einhvern tímann um miðja nótt.
---
Þegar laugardagurinn bankaði upp á, og ég var vakin :) - hafði ég sett mér háleit markmið fyrir daginn: fara út að hlaupa og fara í vinnuna til að klára verkefni síðustu viku. Ég gerði hvorugt heldur kveikti aftur á ræmunni sem ég ætlaði að horfa á nokkrum klukkustundum áður og fattaði að ég horfði aðeins á 17 mínútur af myndinni - úthaldið var greinilega gríðarlegt. Um miðjan dag kom María heim og múttan tók á móti henni í gervi uppvaknings, einstaklega úldin og með ljótuna á háu stigi.
---
Þegar fór að rökkva ákvað ég að skella mér í búð þar sem ég átti von á matargestum og ég þurfi að skutlast til múttu. Ég stoppaði lengur þar en ég hafði gert ráð fyrir svo að matargestirnir voru mættir þegar enn átti eftir að úrbeina kjötið, skera niður grænmeti og búa til sósu. Það kom ekki að sök þar sem eldri matargesturinn dáðist að aðförum mínum með hnífinn í eldhúsinu og hafði áhyggjur af því að ég myndi úrbeina sjálfa mig. Þegar hún svo vissi að úrbeiningarkunnáttan væri ekki frá ömmu heldur af Youtube fór hún að hafa meiri áhyggjur - óþarfa áhyggjur þar sem kjötið spratt af beininu. Yngri matargesturinn dáðist af dótturinni þar sem hún sýndi snilli sína í púsli og bara flestu á heimilinu. Þegar gestirnir yfirgáfu heimilið horfðum við mæðgur á einn þátt af PamAm - þvílík dásemd sem þessir þættir eru. Sú stutta fór svo að sofa um miðnætti en fannst það frekar snemmt.
----
Sunnudagurinn mætti okkur svo með þvílíkri sælu, ég vaknaði rúmlega 10 og sá ekki betur en að öll ljós væru slökkt og blótaði því að hafa ekki vakið barnið til að hún myndi sofna á skikkanlegum tíma. Sú stutta var aldeilis á undan móður sinni og mætt fram í stofu, mamman sá sé þá leik á borði og henti sér aftur í bólið og dormaði yfir bók lengur en góðu hófi gegnir.
---
Dagurinn í dag einkenndist af smá vinnu, smá leti, smá gelgju og smá íslenskulærdómi. Kvöldið verður nýtt í sjónvarpsgláp - með smá facebook pásum. Lífið er ljúft ;)
1 ummæli:
ég hefði nú platað þig á kaffihús og pöbbarölt á föstudagskvöldinu hefði ég verið í nágrenninu! Ánægð með þig að vera byrjuð að skrifa aftur, þú ert í morgunrúntinum mínum sko! love, Valla
Skrifa ummæli