fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Breiðavík...

Þvílíki viðbjóðurinn. Ég á fá orð um þetta nema viðbjóður og mannvonska. Fréttatímar síðustu daga hafa lítið annað gert en að fjalla um hörmungarnar sem þessir drengir þurftu að þola svo árum skipti. Þegar Lalli Johns brotnaði niður þá gerði ég það líka, ég vorkenndi honum svo mikið. Hann er nagli, hann þarf að vera nagli til að geta lifað á götunni og á Hrauninu en það að hann skildi brotna niður 40 árum eftir þetta segir manni ansi margt.
---
En í dag finnst mér það ekki skipta máli hvað var gert og hvernig. Við erum búin að fá að vita það að líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi var daglegt brauð þarna um margra ára skeið. Ég vil fá að heyra frá opinberum starfsmönnum þessa tíma. Ég vil að Bjarni Þórhallsson komi fram í fjölmiðlum og skýri sitt, í það minnsta, þar sem brot hans eru líklega fyrnd. Ég vil að skýrslur sálfræðingsins sem skoðaði heimilið árlega í 13-14 ár komi fram í dagsljósið. Ég vil að þeir starfsmenn sem þarna unnu á þessum tíma komi fram og segi sína sögu. Auk þess vil ég að eftirlifandi starfsmenn ríkis, barnaverndar og sveitarfélaga sem áttu sinn þátt í því að senda drengi þangað komi fram og viðurkenni ábyrgð sína. En sjaldnast fæ ég það sem ég vil...
---
Á barnaland.is eru fjörugar umræður um þetta, margar hverjar hafa gengið svo langt að leita að minningargreinum um fyrrv. forstöðumanninn. En þar eru líka margar sem vilja halda því fram að svona heimili gæti aldrei blómstrað í dag. En hvað með Byrgið? Þangað fóru einstaklingar á öllum aldri, ekki eins ungir á á Breiðavík en margir ungir. Sagan segir að tíu börn hafi verið getin á staðnum síðastliðin ár, þegar starfsmenn nýttu sér völd sín og valdleysi niðurbrotinna kvenna, skjóstæðinga sinna. Fyrir nokkrum árum síðan lokuðu félagsmálayfirvöld heimili fyrir unglinga, ástæðan mun hafa verið samskiptavandi milli ráðuneytis og heimilisins. Í þeirri umræðu kom ekki fram að sonur hjónanna á heimilinu hafði verið ákærður og sýknaður af kynferðislegu ofbeldi gagnvart stelpum sem voru í vist á heimilinu.
---
Þegar ég var að vinna BA ritgerðina mína rakst ég á fullt af heimildum um heimili sem rekin voru af barnaverndarnefndum um land allt, auk þess benti Jón Torfi mér á hin ýmsu heimili sem hann þekkti til. Mörgum þeirra var lokað nánast fyrirvaralaust og ekkert gefið upp afhverju. Það kæmi mér ekki á óvart ef fleiri mál af sama toga færu að spretta upp núna. Nú er lag að koma þessu í gott stand- eins gott stand og hægt er.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff já þetta er alveg hrikalegt mál og ég bíð einmitt líka eftir því að þessir menn stígi fram og axli ábyrgð!

Ásdís Ýr sagði...

Fyrrum félagsmálastjórinn í Rvk kom í fréttum í kvöld og sagðist ekki bera ábyrgð á því að hafa sent uþb 6 stráka þangað frá 1970-1972. En hann sagði að það hafi verið skipulega unnið að því að minnka tilvísanir þangað... af hverju? Var eitthvað farið að koma í ljós?

Nafnlaus sagði...

Er svo sammála ykkur stöllum! Finnst alvega að við getum krafist þess að fólk komi ram og skýri sinn þátt eða sína ábyrgð eða bara sinn þátt í þessu öllu saman.

Þessir menn sem að hafa lent þarna (og í þessu tilviki er rétt að segja að þeir hafi "lent" þar) eiga skilyrðislausan rétt til sálfræðilegrar hjálpar að mínu mati. Ríkið hlýtur að geta komið til móts við þessa menn að einhverju leyti.

En eins og þú bendir á Ásdís, þá fáum við nú sjaldan það sem við heitast viljum og því eru þessi skrif okkar kannski það næsta sem við komumst...

Ásdís Ýr sagði...

Það verður alla vega í það minnsta spennandi að sjá hvernig hið opinbera vinnur úr þessu...

Ég heyrði því fleygt fram á ákv. kaffistofu í dag að ástæðan fyrir því að þetta hafi verið þaggað niður væri sú að forstöðumaðurinn hefði fengið góða stöðu í sjávarútvegsráðuneytinu... Spurning hvort pabbi þinn þekki hann Hildur :)