Fyrir nokkrum árum vandi ég mig á þann ósið að lesa fyrir svefninn - þegar mikið er að gera finnst mér nauðsynlegt að lesa eitthvað algjörlega óskylt því sem ég geri á daglegum basis, bara svona rétt til að hugsa um eitthvað allt annað. Við rúmið mitt þessa dagana eru tvær bækur, önnur eftir Sigurð Líndal um lög og lögfræði og hin er Öldin okkar 1971-1975. Sú síðarnefnda hefur verið í uppáhaldi síðustu kvöld.
---
Stundum skil ég ekki af hverju ég fór ekki í sagnfræði, jú ég skil það svo sem alveg.. ég hef lítinn áhuga á því sem gerðist fyrir aldamótin 1900 :) Öldin okkar er því tilvalin leið til að dýpka sagnfræðiþekkinguna... þar er margt spennandi að finna. Til dæmis:
---
- 24.október 1975 var í fyrsta sinn sent út sjónvarpsefni í lit, þátturinn var um ballett. Allt íslenskt efni var þó enn sent út svart-hvítt.
- 1971 varð hugtakið grunnskóli til þegar frumvarp að lögum um grunnskóla var lagt fyrir, lögin voru svo samþykkt 1974 - mín uppáhaldslög :)
- 18.mars 1971 voru popphljómleikamenn látnir berhátta við komuna til landsins frá Færeyjum vegna gruns um fíkniefnasmygl
- 1. maí 1971 hentu iðnnemar líkkistu iðnfræðslukerfisins út í Tjörnina í mótmælaskyni við lág nemalaun - hefur engum dottið í hug að endurtaka leikinn?
- 2.apríl 1971 gáfu SÍNE (Samband námsmanna erlendis) út "Lítið rautt kver fyrir skólanemendur" þar sem nemendum var kennt að standa upp í hárinu á kennurum og lögreglustjórinn í Rvk vakti athygli saksóknara á kverinu þar sem fjallað var um kynlíf á heldur opinskáan hátt. Kverið minnti á rauða kverið hans Mao formanns :)
- 7.maí 1971 var Hemma Gunn og Þorbergi Atlasyni neitað að spila með landsliðinu í fótbolta nema þeir myndu láta klippa síða hárið
- 2.júní 1971 var Saltvíkurhátíðin haldin. Talið var að 10.000 manns hefðu sótt hátíðina og engin alvarleg slys urðu á fólki.
- 3.janúar 1974 hefur fræðimaður áhyggjur af málfari unga fólksins en það var farið að nota orð eins og pía, tjása, pæja, skvísa, bomba, kroppur, gaur, peyi, gaukur og töffari. Jafnframt hafði hann orð á því að unglingar fíli hitt og þetta og pæli í öðru.
- 7.október hefur áfangakerfi framhaldsskólanna verið tekið í notkun og þá þurfti 132 einingar til að ljúka stúdentsprófi.
--- Að sjálfsögðu gerðist margt annað áhugavert, til dæmis fær Z margar síður þar sem hún virtist ætla að verða eilíft þrætuepli á Alþingi, við áttum auk þess í hatrömmu stríði við Breta um þorskveiðar, Geirfinnur hvarf og Bobby Fischer passaði fyrir Sæma.
2 ummæli:
Gerðist ekkert merkilegt 26. apríl 1978?
Ég er bara komin í 1975 ;)
Skrifa ummæli