Hvað annað er við hæfi á síðustu dögum ársins en að íhuga það og gera það upp, svona rétt áður en það verður kvatt. Árið sem er að líða hefur að mörgu leyti verið mjög sérstakt, ég hef upplifað marga sigra og of oft látið í minni pokann. Samt finnst mér ég koma út sem sigurvegari. Stormasama árið 2008 verður kvatt með stæl á gamlárskvöld í góðum hópi.
---
Í upphafi árs fór ég í frábæra ferð til Tenerife - þá allra bestu frá upphafi. Ég, Maja, Beggi og börnin nutum þess að vera í afslöppun og leti í tæpar þrjár vikur. Aldrei áður hefur mig ekkert langað heim. Í febrúar og mars var ég á kafi í vinnu og fór í stórskemmtilega vinnuferð út á land. Við förum til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Ég flaug á alla staðina, Akureyrarflugið var bara venjuleg - upp og svo niður. Egilsstaðaflugið var geðveikt - heiðskírt alla leið. Ísafjarðarflugið var viðbjóður - vélin hentist til og frá og við vorum grænar þegar við loksins lentum. Á Ísafirði afrekaði ég það að detta tvisvar á hausinn, einu sinni á rassgatið og í hitt skiptið fram fyrir mig. Mjög elegant. Ég þurfti bólgueyðandi í nokkrar vikur á eftir. Þessar ferðir áttu eftir að hafa jákvæðar afleiðingar á líf mitt og starf :)
---
Svo fór að vora og elsku Akureyrarfólkið mitt gifti sig, án þess að segja frá. Boðskortið kom í pósti og ég las það nokkrum sinnum til að fatta að þau hefðu raunverulega gift sig og komið í mat án þess að segja nokkuð. Ég átti afmæli eins og flest önnur vor, afmælið var táknrænt - ég þroskaðist talsvert við að verða 27 ára og fattaði á sama tíma að ákveðnir hlutir voru bara ekki að virka.. þó það hafi tekið aðeins lengri tíma að ná því í gegn.
---
Sumarið var gott og skemmtileg, endalaust sól í minningunni. Ég fékk launalaust leyfi til að vinna í ritgerðinni minni og þótti mér ganga nokkuð vel. Það var þrælskemmtilegt að geta setið yfir skólabókum eftir svona langa fjarveru. Ég ferðaðist smotterí innanlands, auðvitað til Akureyrar og í Brekkuskóg. Við Guðrún skipulögðum svo leyniferð til Krítar með Sunnefu og Viktoríu - sem þær fréttu af upp á flugvelli :) Á Krít var afslappelsi og lífsháski. Flugferðin heim var skondin og vandræðaleg. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég nýjar lendur Facebook og er ennþá fárveik af þeim fræðum.
---
Haustið var skemmtilegt, flókið, auðvelt og erfitt allt í senn. Ég mætti til vinnu í september í nýja stöðu og fékk að blómstra í vinnunni. Mér tókst að flækja lífið allverulega eftir því sem leið á haustið. Ég vissi ekkert hvað ég vildi en hélt það samt, en veit núna að ég hafði rangt fyrir mér. Ég kynntist fullt af nýju fólki og fékk enn aðra stöðu í vinnunni sem ég er enn að læra á - mjög spennandi staða. Kreppan skall á af fullum þunga og ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og flytja til mömmu um áramótin. Það er blendnar tilfinningar sem fylgja því að flytja en ég veit að þetta er tækifæri sem ég verð að nýta.
---
Nýja árið mun marka tímamót, ég ætla að snúa aftur til þess lífs sem ég vil hafa og ráða för. Ég ætla að búa í Ólafsgeislanum fram á vor og flytja svo aftur í vesturbæinn áður en næsti vetur skellur á. Ég ætla að klára ritgerðina mína áður en árið verður úti og mæta með date á árshátíðina.
---
Næsta ár verður það besta í sögunni!