Fyrir 8 árum síðan og nokkrum dögum betur komst ég að því að ég væri ólétt. Fyrsta sem ég gerði var að hugsa, ofhugsa og senda Helgu sms með tíðindunum.. hún hafði sem sagt rétt fyrir sér. Á þessum 8 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar.
--
María fæddist 7 mánuðum seinna, lítil bolla sem átti að fá allt það besta sem lífið gæti boðið upp á. Aðstæður voru oft erfiðar, og ég jú algjör krakki oft og tíðum en samt sem áður hefur þessi elska blómstrað og orðið að einu besta og klárasta barni sem um getur.
---
Frá því hún var lítil hefur hún alltaf verið mikill hugsuður og rólyndistýpa, hún er ekkert fyrir að flýta eða ana út í neina vitleysu. Það tekur allt langan tíma hjá Maríu, sama hvað það er - klæða sig, borða, læra eða bara greiða hárið. Þetta þarf allt að gerast í réttri röð og á réttum hraða.
---
Mamman stökk í foreldraviðtal í hádeginu á föstudag, vinnan hefur átt hug hennar allan undanfarnar vikur svo skottan var orðin ansi "mömmuveik". Það var mikill spenningur á heimilinu fyrir foreldraviðtalinu, María hafði orð á því á fimmtudagskvöldinu að kannski gæti hún fengið A í öllu en henni fannst það nú hæpið.
---
Í foreldraviðtalinu fengum við í fyrsta skipti vitnisburð, þar fengum við það skjalfest að við eigum lítinn snilling. Hún fékk að sjálfsögðu A í öllu. Hún les 170 atkvæði á mínútu en markmiðið er að þau nái 60-110 atkvæðum við lok 2.bekkjar, rúllar upp stærðfræðinni með annarri, skrifar mjög vel og sýnir mikinn þroska í skólastarfinu. Meðal annars lætur hún kennarann vita þegar hún hefur ekki vinnufrið og kemur með skemmtileg komment í umræður.
---
Eftir foreldraviðtalið fórum við mæðgurnar á bæjarrölt. Við byrjuðum í Þjóðmenningarhúsinu þar sem forvitnagenið í barninu fór á fullt og hver einasti krókur og kimi í húsinu var skoðaður - meira að segja salernin. Úr Þjóðmenningarhúsinu fórum við á Sólon þar sem sú stutta fékk sé köku og kakó - meðan hún slafraði kökunni í sig minnti hún helst á karlmann þar sem hún sagði ekki orð nema allt í einu poppaði út úr henni: "Hrikalega góð kaka mamma, smakkaðu" og rétti mér bita með skeiðinni.
---
Við enduðum svo bæjarröltið í Eymundsson þar sem keyptar voru bækur fyrir bókaorminn. Kvöldinu eyddum við svo fyrir framan imbann að háma í okkur nammi og spila Rommý og Asna. Nú er sunnudagur, á morgun er vinnudagur - það er langt síðan við höfum eytt heilli helgi saman, þrátt fyrir að búa saman. Mamman er alltaf of upptekin til að vera mamma, hún er komin með nóg af því.
7 ummæli:
Yndislegt.. bara yndislegt!
Já þetta var annsi skemmtilegur tími þegar þú uppgötvaðir óléttuna, í smá tíma náði maður ekki alltaf að klára samræðurnar - Ásdís horfin! ! :) haha...
En já það er nokkuð ljós að þú átt algjöran snilling, annað væri nú líka eitthvað gruggugt þar sem mamman er nú algjör snillingur líka :) :)
Knús
Sunnefa - bara yndislegt
Helga - hahaha, hlaupa frá og æla ;) Mér finnst líka alltaf jafn fyndið að hugsa til þess að ég hafi fundið fyrstu hreyfinguna með þér í sálfræðitíma hjá KAA. Hún er snillingur þessi elska - fékk akademísku fræðin beint í æð þegar mamman var að læra.. kannski þess vegna hafi ég ælt svona?
Yndislegar mæðgur og krúttleg saga.
já ég man ennþá eftir tilkynningunni, fannst þú aldeilis orðin fullorðin!
Gaman að heyra hvað þið áttuð góðan dag og helgi saman, áttuð það svo sannarlega skilið!
knús til ykkar
Guðrún
Gullmoli :)
Kv. María
Er einmitt að glíma við þetta tíma-dæmi... mínum finnst lærdómur og vinna taka alltof langan tíma og vill sko fá smá mömmu tíma þrátt fyrir að vera orðinn 10 ára :) Þau eru svo miklar dúllur..
Ég man hvar ég var þegar þú hringdir í mig og sagði mér að þú værir ólétt:) ég var á rúntinum á Króknum, var fyrir utan bæjarskrifstofuna meira að segja hehehe :)
kv Kidda
Skrifa ummæli