þriðjudagur, maí 31, 2005

Snælandsgellan

Þá er ég komin aftur í gamla gallan, bláan stuttermabol skreyttan auglýsingum frá Góu og Kjörís! Nákvæmlega, ég er orðin Snælandsgella alveg eins og í den nema hvað að núna er ég í heimsborginni Reykjavík en ekki upp í sveit :) Og svo er stutt fyrir Guðrúnu að skeppa til mín í hádeginu.
Ég sem sagt byrjaði að vinna í Snæland á Laugaveginum í gærkvöldi, Elín sér um sjoppuna svo að þetta verður næstum því eins og í gamla daga. Nema hvað að við erum aðeins eldri og erum sjaldanst á leiðinni á djammið eftir vinnu. Ég komst að því að vinna í Snæland er eins og að vera skáti, einu sinni skáti ávallt skáti! Ég kann ennþá að gera ís, vá hvað mér kveið fyrir því að klúðra öllu ísdótinu en ég missti bara einn ís ofan í dýfuna og einn í nammið... geri aðrir betur eftir 4 ára pásu frá ísvélinni.
Ég ætla að vinna þarna með ritgerðinni í sumar, verð 2 daga í viku sem er bara fínt og brýtur aðeins upp vikuna. Annars verð ég að mestu leyti heima með Maríu þessa viku því hún er í aðlögun á Leikgarði út þessa viku í það minnsta, svo að við eyðum deginum hérna heima og á flakki. Í dag vorum við með mömmu að taka upp úr kössum og henda gömlu dóti og ég rétt náði að bjarga uppáhaldskjólnum mínum, munið þið eftir þessum brúna stutta gamla þarna... ég elska hann en kemst að sjálfsögðu ekki í hann. En svo tók ég líka með heim kjól sem ég var í eitt kvöld í Stapanum fyrir 6 árum síðan...ég kemst ekki í hann heldur :)
En fyrst ég nú að skrifa hérna þá verður maður að monta sig aðeins, hún Valla ofurduglega er næsti uppeldisfræðikennari Menntaskólans á Akureyri. Til hamingju Valla!

laugardagur, maí 28, 2005

Fínn föstudagur

Föstudagurinn var bara nokkuð góður, ég fór til Guðrúnar rétt um sexleytið því við vorum að fara saman í leikhús. Guðrún var svo góð að bjóða mér með sér að sjá Vodkakúrinn. Við byrjuðum kvöldið á Hamborgarabúllunni, alveg hreint ágætis borgarar og hröð þjónusta. Því næst var tekinn taxi upp í Austurbæ og þar byrjuðu sko herlegheitin. Guðrún vissi að það væri eitthvað hvítvín í boði fyrir sýningu en við vissum ekki að við vorum með VIP miða þar sem boðið var upp á hvítt, rautt og bjór og svo geggjaðar snittur. Við sögðum engum frá því að við værum nýkomnar af Búllunni og vorum ansi duglegar í snittunum. Sýningin sjálf var mjög skemmtileg, Steinn Ármann kom þvílíkt á óvart og Helga Braga er náttla Helga Braga. Eftir sýninguna fórum við á Victor, ég fékk mér kaffi, kokteil og kók (í þessari röð) og þurfti ekkert að borga fyrir það! Það borgar sig sko að vera með "rétta" fólkinu :) Guðrún gaf mér meira að segja líka afmælisgjöf, geggjað flottan bol en svo þegar ég ætlaði í hann í morgun þá var hann bara alltof þröngur (ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur númerið) svo að ég fór í Kringluna og ætlaði að fá að skipta en stærri bolur var ekki til svo að ég fékk mér grænt pils í staðinn. Takk æðislega fyrir mig Guðrún mín!

Fínn föstudagur

Föstudagurinn var bara nokkuð góður, ég fór til Guðrúnar rétt um sexleytið því við vorum að fara saman í leikhús. Guðrún var svo góð að bjóða mér með sér að sjá Vodkakúrinn. Við byrjuðum kvöldið á Hamborgarabúllunni, alveg hreint ágætis borgarar og hröð þjónusta. Því næst var tekinn taxi upp í Austurbæ og þar byrjuðu sko herlegheitin. Guðrún vissi að það væri eitthvað hvítvín í boði fyrir sýningu en við vissum ekki að við vorum með VIP miða þar sem boðið var upp á hvítt, rautt og bjór og svo geggjaðar snittur. Við sögðum engum frá því að við værum nýkomnar af Búllunni og vorum ansi duglegar í snittunum. Sýningin sjálf var mjög skemmtileg, Steinn Ármann kom þvílíkt á óvart og Helga Braga er náttla Helga Braga. Eftir sýninguna fórum við á Victor, ég fékk mér kaffi, kokteil og kók (í þessari röð) og þurfti ekkert að borga fyrir það! Það borgar sig sko að vera með "rétta" fólkinu :) Guðrún gaf mér meira að segja líka afmælisgjöf, geggjað flottan bol en svo þegar ég ætlaði í hann í morgun þá var hann bara alltof þröngur (ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur númerið) svo að ég fór í Kringluna og ætlaði að fá að skipta en stærri bolur var ekki til svo að ég fékk mér grænt pils í staðinn. Takk æðislega fyrir mig Guðrún mín!

þriðjudagur, maí 24, 2005

Hrós dagsins

Eins og margir vita þá á ég frænku sem greindist með hvítblæði í október síðastliðinum. Hvítblæðið er af sérstakri gerð sem yfirleitt greinist eingöngu í fullorðnum og á síðustu 6 árum hafa aðeins 3 börn greinst með þessa gerð. Fjölskyldan hennar var að breyta öllu sínu lífi á örfáum tímum til að koma henni í meðferð, en þau búa úti á landi og krabbameinsmeðferðin er einungis í boði á Barnaspítalanum. Sama dag og greiningin kom voru þau komin suður.
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna útvegaði þeim íbúð til að búa í en starx var ljóst að Barnaspítalinn yrði þeirra fyrsta heimili um tíma. Harpa byrjaði fljótlega í lyfjameðferð. 9 ára afmælið var haldið á Barnaspítalanum. Meðferðin var mjög erfið og um tíma var henni ekki hugað líf, fjölskyldunni var sagt að kveðja hana. Það tók enginn í mál, hvorki hún né fjölskyldan. Á undraverðan hátt fór líkami hennar að starfa aftur og hún gat haldið áfram í meðferðinni. Um jólin var hún of veik til að fá að vera heima svo að fjölskyldan kom saman á stofunni hennar á Barnaspítalanum og hélt sín jól. Margrét frænka var í viðtali við RÚV á aðfangadag og benti fréttamönnum á að þetta væri það besta sem þau gætu hugsað sér, hún væri með þeim á jólunum, þau gætu ekki beðið um meira.
Meðferðin gekk upp og niður eftir áramótin en aldrei var eins tvísýnt um hennar líf og fyrir jólin. Í dag hefur Harpa Lind verið útskrifuð af spítalanum og er kominn norður með kisuna sína hana Jasmín. Þessi tími hefur verið stuttur en erfiður, þó svo að ég hafi aðeins getað fylgst með úr fjarlægð. Ég er svo stolt fyrir hennar hönd og fjölskyldunnar hennar, þau misstu aldrei vonina og sýndu að þau geta allt. Þvílíkur kraftur og þrautsegja.

mánudagur, maí 23, 2005

Afmælisbarnið

Hann á afmæli í dag Hann á afmæli í dag Hann á afmæli hann Nonni Hann á afmæli í dag Hann er 36 ára í dag Hann er 36 ára í dag Hann er 36 ára, hann Nonni hann er 36 ára í dag Til lukku með daginn gamli minn

sunnudagur, maí 22, 2005

Á ferð og flugi!

Helgin er búin að vera ansi pökkuð, ég hef bara ekkert verið heima að neinu viti. Á laugardagsmorguninn fórum við María og mamma í sveitaferð hjá Mánagarði. Við mægður náðum að vakna í tæka tíð sem má nú telja nokkuð gott því við þurftum að labba á leikskólann, og græja okkur og allt og vera komnar þangað 10.45 :) Ferðinni var haldið upp í Mosfellsdal, ég mundi ekki hvað bærinn héti en mamma hafði nú áhyggjur af því hvert við færum... flestir úr Mosó vita að í dalnum er nú allskonar fólk. En við fórum nú á besta stað, bílstjóranir reyndar villtust (enda voru þeir frá Hópferðum eða eitthvað álíka). Það var fullt af dýrum þarna, og skottan skemmti sér alveg konunglega en það var eitt sem stóð upp úr og reyndar líka hjá okkur mömmu. Rétt eftir að við komum fór ein rollan að bera, ég hef ekki séð rollu bera síðan ég var álíka stór og María og mamma sennilega ekki heldur í 20 ár. Mamma stóð með Maríu og Arey Rakel við stíuna og ég var eins og óður maður á myndavélinni á meðan greyið rollan engdist um. En alla vega, út komu tvö hvít lömb og sú stutta var alveg gáttuð á þessu öllu saman, sérstaklega því það þurfti ekki að skera rolluna, lambið gerði bara gat með fótunum???? Við komum heim um miðjan daginn, og dúlluðumst aðeins hérna heima en fórum svo á Drekavellina í Euró-mat. Reyndar var lítið pælt í þessari leiðinda keppni, meira var bara spjallað um heima og geima. Mamma og Siggi fóru á undan okkur heim en við alltof seint... Við mægður máttum svo hafa okkur allar við því önnur ferð var á dagskrá í dag og við sváfum yfir okkur en mæting var klukkan 11.00 í Neskirkju, jeminn eini. Við misstum nú ekki af rútunni sem betur fer en þetta var vorferð barnastarfsins í Neskirkju. Við fórum í Törfagarðinn á Stokkseyri en þar var algjört rokrassgat og varla stætt úti, svo fórum við í Hveró og grilluðum pylsur í ágætisveðri. Við komum svo ekki heim fyrr en um sexleytið. Sá gamli á afmæli á morgun, hann er nú ekkert svo gamall. Það er alveg 4 ár í fertugsafmælið... En þangað til næst, bæjó

föstudagur, maí 20, 2005

Lyfjamisnotkun

Í Kastljósinu miðvikdagskvöldið 18.maí síðastliðinn var Þórarinn Tyrfingsson á spjallinu. Ég horfði svona á það með öðru auganu þar til hann fór að tala um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Hann vildi meina að læknar gætu ekki borið kennsl á fíknir þar sem lítið væri kennt um fíknisjúkdóma í Læknadeildinni og einnig vildi hann meina að það væri einungis fullorðið fólk misnota rítalín en ekki börn. Ég er ekki alveg sammála...
Það er auðvelt að misnota lyfseðilsskyld lyf á Íslandi, það er lítið eftirlit eftir ávísunum lyfja og lyfseðlum fólks. Að auki eru mörg önnur lyf sem eru misnotuð heldur en þessi klassísku, morfín og rítalín. Ef við hugsum okkar karlmann í Reykjavík sem misnotar lyf þá eru ýmsar leiðir fyrir hann til að verða sér út um lyfeðilsskyld lyf, einn dagur er nóg fyrir fullt af lyfjum.
Hann er sennilega með sérfræðing á sínum snærum, td geðlækni, svo er hann með heimilislækni og að auki hefur hann aðgang að bráðamóttökunni og læknavaktinni ef hann skyldi skyndilega verða slæmur. Hann gæti byrjað að morgninum og kvartað við heimilislækninn yfir höfuðverk sem er mjög slæmur, heimilislæknirinn ávísar sterkum verkjalyfjum handa honum þar sem hann á sögu um að þurfa sterk lyf. Því næst, eftir klukkan 17.00 fer hann á læknavaktina með sömu sögu og fær önnur lyf, sennilega ekki eins sterk og hjá heimilislækninum þar sem læknavaktin er með ákveðnar reglur um lyfjaávísanir. Svo gæti hann sest upp í bílinn og keyrt í Fossvoginn til að fara á bráðamóttökuna, segir sömu sögu og fer í endalausar rannsóknir. Niðurstaðan þar gæti verið sterk lyf til að slá á mestu verkina á meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsóknanna. Afrakstur dagsins gæti verið þrír lyfseðlar, og svo ef hann er öryrki þá eru lyfin sennilega niðurgreidd af ríkinu- ódýrt að misnota lyfseðilsskyld lyf ef maður er öryrki. Það versta af þessu öllu er að læknarnir vita ekkert af hvor öðrum. Þetta væri hægt að koma í veg fyrir að stórum hluta með því að halda miðlægan gagnagrunn þar sem haldið væri utan um lyfjaávísanir til einstaklinga, en því miður hefur Persónuvernd ekki gefið samþykki sitt fyrir því.
Annað mál, rítalínið. Það er að sjálfsögðu fullorðið fólk sem misnotar það en líka unglingar, og unglingar eru börn að 18 ára aldri. Ég hef kynnst því að unglingar sem greindir eru með ADHD og taka rítalín að staðaldri hafa margir hverjir selt félögum sínum lyfið því jú rítalín er nánast litli bróðir amfetamíns. Ég held að aðalmunurinn á þessum tveimur hópum sé sá að þeir fullorðnu fá lyfinu ávísað frá lækni með svindli og selja það á svörtum en unglingarnir fá lyfinu ávísað frá lækni því þeir eru með greiningu en selja það á svörtum til vinnanna til að fjármagna aðra neyslu. Unglinganna vegna er mjög gott að nýtt lyf er komið á markaðinn sem ekki þarf að taka eins oft við ADHD heldur eru þetta einhvers konar forðatöflur.
Ég held samt að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að fullu að lyfseðilsskyld lyf séu misnotuð. Flest öll þessara lyfja þurfa læknavísindin, hvernig væri ef morfín væri bara tekið af markaðnum? Það myndi einfaldlega ekki ganga og að auki færi morfín þá bara í sölu í undirheimum. En læknar þurfa aftur á móti að vera meira á varðbergi gagnvart neyslu sjúklinga sinna og síðast en ekki síst eiga ættingjar að láta lækna vita ef þeir vita að sjúklingar þeirra misnota lyf sem þeir ávísa.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Prófin búin...

Ég skellti ritgerðinni minni í brúnt umslag, merkti hana Sigurlínu og skellti henni í fína pappakassann hennar fyrir utan skrifstofuna. Svo fórum við hjónakornin á Hressó og fengum okkur smá kvöldmat, nammi gott grísasamloku. Sá gamli var að fara í afmæli svo að rétt fyrir átta skottaðist hann af stað og ég tölti yfir á Pravda. Ég var langfyrst svo að ég fékk mér bara bjór... og drakk svo nokkra í viðbót eftir því sem leið á kvöldið. Svo var það bara Broadway, hellings bjór drukkinn þar líka. En ég vildi nú meina að ég hefði ekki verið drukkin, en ég held það svona samt miðað við magnið sem ég slukraði. Á Broadway var hellingsfjör og fullt af fitubollum, já án djóks þá voru engar mjónur á dansgólfinu á tímabili. Mér leið bara nokkuð vel með mín aukakíló. En það gerðist eitt fyndið, ein stelpa í skólanum, nefnum engin nöfn :) fékk væna hræru hjá Mosfellingi í den, það er ansi langt síðan og þau hafa ekkert hist síðan þá... ekki einu sinni í strætó. Alla vega, þá rak ég augun í þennan strák. Hann er nú búinn að eldast svolítíð síðan ég sá hann síðast, hvað þá hún? Ég segi honum þessa skemmtilegu sögu af skólafélagnum mínum og hann bara mundi ekkert, fyrr en umræddur skólafélagi kom til mín. Ég stóð sem sagt á milli þeirra tveggja! Þetta varð smá vandræðlegt en við redduðum því bara, fórum að tala um kókaín bak við sætin í einhverjum innfluttum bílum og snobbaðar stelpur í Mosó. Kvöldið endaði svo bara ansi snögglega með leiðindum í afmæli... ég var því komin heim rétt um 2.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Soddan er það

Ég stóð nú ekki alveg við planið mitt en... ég fór nú samt á skorarfundinn, hann var bara fínn fyrir utan smá samtal sem ég átti við Guðnýju Guðbjörns fyrir fundinn. Ömurlegt og pirrandi, ég segi ykkur frá því seinna, ennþá smá leyndó! Fundurinn sem átti að vera stuttur, var að sjálfsögðu langur og ég skaust út rétt fyrir fimm til að sækja skutluna á leikskólann. Aðeins 1 starfsmaður var á deildinni hennar Maríu í dag, ég hélt að það væri vegna veikinda en skottan sagði mér að ein fóstran væri í fríi og hefði farið til útlanda... ókei, er ekki eðlilegt að reyna að redda því áður en kellu er gefið frí? Ég er svo fegin að María er að fara á Leikgarð, ég er orðin svo hundleið á þessu, maður getur aldrei treyst því að neitt sé í lagi á þessum blessaða leikskóla. Hún hættir á Mánagarði eftir rúmar 2 vikur, svo verðum við í fríi smá saman og svo byrjar aðlögunin á Leikgarði 1.júní. Við sóttum svo múttu og skutluðumst til Maju í Hafnarfjörðinn en þar var á planinu kerlingagrautur á la Vindhæli, við elduðum sem sagt grjónagraut og amma, mamma, Guðrún, Sigrún og strákarnir, Jóhanna og bumban, Dóra og Elísabet, Maja og Anna María, Sibba og við mæðgur vorum þar fram eftir kvöldi í grjónagrautsáti. Rétt áðan hringdi ég í Sunnefu og óskaði henni til hamingju með daginn, sambandið var frekar slæmt en ég gat nú aðeins spjallað við hana. Það var svolítið fyndið að tala við hana, greinilegt að íslenskan er ekki daglegt mál í Chile :) bara krúttlegt.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Fitubolla í fullu starfi

Þá er blessaða prófið búið... er einhver game í sumarpróf? Ég ætla alla vega að fara í sumarpróf því ég veit að mér gekk ekki betur en konunni sem reyndi við páfann um daginn, vonlaust dæmi!
Ég ákvað að vera góð við mig í dag því mér gekk svo illa í prófinu í gær. Ég fór snemma á fætur og skutlaði liðinu mínu í leikskólann og vinnu en fór heim og hentist í sófann. Ég horfði á alla dagskrána síðan í gær, meira að segja Jay Leno. Plan dagsins var einfalt:
  1. Fara í ljós
  2. Versla eitthvað fyrir afmælispeninginn minn

Mér tókst að fara af stað um eittleytið, ég skellti mér í ljós og brann ekki. Ég hafði bara viftuna á fullu og fór út áður en tíminn var búinn, sko mína. Svo fór ég í Kringluna til að eyða peningum. Ég var fyrir miklum vonbrigðum.

Sko áður fyrr var ég fitubolla í frístundum, eða að mesta lagi í hlutastarfi en í dag komst ég að því að ég er orðin fitubolla í fullu starfi. Ekki hafa áhyggjur, það spurði mig enginn hvort ég væri ólétt en ég var í mesta basli að finna á mig föt sem pössuðu og voru í "eðlilegri stærð". Ég gat nú keypt mér skó í mínu gamla númeri en tuskur á kroppinn þurftu að vera í stærra númeri en í den. Mér tókst nú að kaupa mér pils, buxur, skó, glimmerpúður og augnbrúnalit... Svo vantar mig bara jakka og bol, með síðum ermum takk!

Plan morgundagsins er líka einfalt:

  1. Hætta að vera fitubolla og fara í ræktina
  2. Fara upp í skóla og vinna í sérefnisritgerðinni
  3. Fara á skorarfund kl. 15
  4. Ef það er laus tími þá væri voða gaman að fara í Smáralind og athuga hvort þeir eigi eitthvað fyrir fitubollur í fullu starfi.

En þangað til næst, allir að syngja afmælissönginn á morgun því hún Sunnefa á afmæli... Til hamingju með daginn

sunnudagur, maí 08, 2005

Síðasta prófið í BA náminu

Þá eru bara 13,5 tími í síðasta prófið í BA náminu mínu hérna í uppeldis- og menntunarfræðinni. Ég er gjörsamlega úti að skíta í þessu námsefni enda einstaklega leiðinlegt... ég hef sjaldan eða aldrei verið svona óörugg, það væri ferlega fúlt að falla í fyrsta skipti á sínu síðasta prófi! Svo er það bara sérefnisritgerðin sem ég ætla að klára í vikunni og svo í næstu viku á að byrja á blessaða BA verkefninu. En fyrst er fjandans prófið á morgun!

fimmtudagur, maí 05, 2005

Súrefnisskortur í Odda

Þungt loft og hiti... loftið í Odda er ógeðslegt, ógeðslega heitt og loftlaust. Mig langar heim í kalda sturtu, stuttbuxur og hlýrabol (ef ég væri 15 kg léttari). Mér líður eins og feita svíninu í Húsdýragarðinum.

Prófastemning

Það er svo skrítið að vera upp í Odda á prófatíma, stemningin þar verður svo furðuleg. Það verður allt fyndið og sennilega er allt rætt... sama hvort það er til prófs eða ekki. En hér eru nokkur merki þess prófatíðin er á fullu:
  • Þér finnst afskaplega fyndið að tómatar tala ekki
  • Þú veist að afi lesfélagans var skipstjóri á Keflvíkingi
  • Þú veist allt um erfðamál langömmu þess sem situr hægra megin við þig
  • Þú átt alltof mikið af nammi
  • Þú innbyrðir meira koffein en hollt getur talist
  • Þú ferð alltof oft að borða á kaffihúsum borgarinnar
  • Þú kemst að því einn gutti er abbó út í vin þinn og dissar hann á blogginu sínu http://kop200.blogspot.com
  • Þú bíður eftir myrkrinu svo þú getir reykt við hurðina
  • Það er vond lykt á klósettinu
  • Það vantar klósettpappír á klósettið
  • Þú veist allt um fæðingu
  • og síðast en ekki síst, þú veist allt um bólfarir lesfélaganna í den

mánudagur, maí 02, 2005

Svo fullorðin

já, litla drottningin mín er orðin svo stór, bara svona allt í einu! Hún er með hlaupabóluna og ég hef nánast ekkert verið með henni síðan á laugadag en við er nú duglegar að tala í símann. Símtölin við hana er alveg met, hún segir mér allt og ekkert. Í dag var svo ánægð með útlenska tyggjóið sem afi gaf henni, hann keypti það sko í útlandinu. Svo sagði hún mér að afi hefði séð íkorna í útlöndum sem hefðu verið að byssast, amma og afi kannast nú ekki við að hafa sagt henni frá því en svona er þetta, maður er svo fullorðinn að maður veit bara allt. Ég ætla að vera með henni annað kvöld, borða saman og lesa fyrir hana. Ég sakna hennar svo mikið en ég veit ekki hvort að hún saknar mín jafn mikið... Nú er það bara ritgerðarvinna og próf fram að 14.maí en þá verður sko tekið gott djamm, svona í tilefni þess að maður er að fara aftur af stað með BA verkefnið.