Eins og margir vita þá á ég frænku sem greindist með hvítblæði í október síðastliðinum. Hvítblæðið er af sérstakri gerð sem yfirleitt greinist eingöngu í fullorðnum og á síðustu 6 árum hafa aðeins 3 börn greinst með þessa gerð. Fjölskyldan hennar var að breyta öllu sínu lífi á örfáum tímum til að koma henni í meðferð, en þau búa úti á landi og krabbameinsmeðferðin er einungis í boði á Barnaspítalanum. Sama dag og greiningin kom voru þau komin suður.
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna útvegaði þeim íbúð til að búa í en starx var ljóst að Barnaspítalinn yrði þeirra fyrsta heimili um tíma. Harpa byrjaði fljótlega í lyfjameðferð. 9 ára afmælið var haldið á Barnaspítalanum. Meðferðin var mjög erfið og um tíma var henni ekki hugað líf, fjölskyldunni var sagt að kveðja hana. Það tók enginn í mál, hvorki hún né fjölskyldan. Á undraverðan hátt fór líkami hennar að starfa aftur og hún gat haldið áfram í meðferðinni. Um jólin var hún of veik til að fá að vera heima svo að fjölskyldan kom saman á stofunni hennar á Barnaspítalanum og hélt sín jól. Margrét frænka var í viðtali við RÚV á aðfangadag og benti fréttamönnum á að þetta væri það besta sem þau gætu hugsað sér, hún væri með þeim á jólunum, þau gætu ekki beðið um meira.
Meðferðin gekk upp og niður eftir áramótin en aldrei var eins tvísýnt um hennar líf og fyrir jólin. Í dag hefur Harpa Lind verið útskrifuð af spítalanum og er kominn norður með kisuna sína hana Jasmín. Þessi tími hefur verið stuttur en erfiður, þó svo að ég hafi aðeins getað fylgst með úr fjarlægð. Ég er svo stolt fyrir hennar hönd og fjölskyldunnar hennar, þau misstu aldrei vonina og sýndu að þau geta allt. Þvílíkur kraftur og þrautsegja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli