þriðjudagur, júlí 15, 2008

Blettatígur með bólgið auga

Frá því ég fæddist á stofu 6 á Héraðshæli Austur Húnvetninga hef ég verið B manneskja, eða svo gott sem. Mér finnst best að vinna fram á nótt og þegar ég var sem mest í námskeiðum sátum við og lásum (og hlógum) í Odda þar til við vorum nánast reknar út úr húsinu - ýtið bara á "push to open" sagði einn öryggisvörðurinn við okkur þegar við héldum að við værum læstar inni.
---
Mér finnst algjörlega ómögulegt að fara snemma að sofa og að sjálfsögðu er mér ókleift að vakna fyrr en um sjö, hálf átta á morgnana í fyrsta lagi. Sem betur fer mæti ég ekki til vinnu fyrr en níu og Melaskóli byrjar ekki fyrr en hálf níu - gjörsamlega sniðið fyrir okkur mæðgur. Yndið mitt er nefnilega alveg eins og ég, hún nennir mjög sjaldan á fætur á morgana og er lengi að sofna á kvöldin. Litla dýrið er klædd í föt og fær morgunmat á skrifborðið sitt inn til sín - annars tekur það heila eilífð að koma henni á fætur. Ef ég næ ekki að grípa hana þegar hún er búin með morgunmatinn fer hún aftur að sofa. Eitt sinn ætlaði ég að kvarta við mömmu undan þessari hegðun hjá barninu en hún hló bara, ég var víst svona líka :)
---
Ég ætlaði þó að breyta til í kvöld, fara að sofa fyrir miðnætti. Ég ákvað þó að fara í sturtu fyrir svefninn og fara í smá beauty meðferð. Nema hvað, mig fór allt í einu að klægja svo svakalega í augað en pældi lítið í því fyrr en ég var búin að taka til augnbrúnalitinn. Ég hætti skyndilega við þegar ég sá að annað augað var eldrautt og stokkbólgið eins og á leikskólabarni með augnkvef. Jæja, ég ákvað að sleppa andlitsdúlleríi og skellti mér í sturtuna. Mér til mikillar ánægju steig ég úr sturtunni endurfædd sem blettatígur, fallega brúna húðin mín er öll að fara. Eftir að hafa borið á mig body butter ákvað ég að hætta við að fara snemma að sofa... það er alveg sama hvað ég geri, ég verð pottþétt með ljótuna á morgun.
---
Myndir frá bryllupinu á Akureyri eru hér

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fær barnið morgunmatinn inn í herbergi!!!!

Hvar í uppeldisfræðinni er þessi aðferð upphafin?

Og svo er sagt að við pabbarnir spillum börnunum!!!

Ja hérna, nú detta af mér allar dauðar lýs af skallablettinum :)

Ásdís Ýr sagði...

Uppeldisfræðin segir að mæta eigi barninu þar sem það sé statt :) Ég fékk morgunmat í rúmið alveg þangað til ég fór að búa með þér... þá hætti ég að borða morgunmat því ég nennti ekki að hafa fyrir honum.

Passaðu nú skallablettinn :)

Nafnlaus sagði...

gaman að því hvað nonninn er duglegur að kommenta hjá þér :)