miðvikudagur, október 29, 2008

Framundan..

...eru ef til vill skemmtilegir tímar, ég vil trúa því. Það eru mörg tækifæri framundan og galdurinn ku að vera að nýta þau til hins ýtrasta. Það hefur sjaldan verið eins mikið um að vera í félagslífinu hjá mér og nú, kannski er það vegna sífelldra áminninga um að þjóðin eigi að standa saman eða bara loksins sér fólk tilefni til að gera sér glaðan dag. Ég er búin að hitta mikið af skemmtilegu fólki, nýju og gömlu og ég hef sjaldan hlegið eins mikið. Á planinu er fullt af skemmtilegum hlutum, stelpudjamm, brjóstsykursnámskeið, sumarbústaður, afmæli og bara fullt...
---
Á sama tíma er ég mikið að hugsa, mikið að spá.. samt með það að markmiði að ofhugsa ekki hlutina :) Við María eigum eftir að búa hér á Eggertsgötunni í 2 mánuði í viðbót, við fluttum inn í tvistinn í mars 2003 að mig minnir.. Það er mikið frelsi fólgið í því að búa hér, María á vini á öllum hæðum og ég á Önnu mína rétt hinu megin við hornið. Þetta er yndislegt hús þrátt fyrir ljót gólfefni og lélega innréttingu :) Ég stóð mig að því í kvöld að horfa á kvöldhimininn og spá í því hvort hann væri eins fallegur í Grafarholtinu, eflaust - bara annað sjónarhorn.
---
Ég á eftir að sakna þess að búa í vesturbænum, hér er allt mitt en ég ætla að koma hingað aftur síðar. Mér finnst broslegt að hugsa til þess að þegar ég flutti í vesturbæinn átti það að vera tímabundið.. bara rétt á meðan ég kláraði Háskólann.. núna langar mig ekkert að fara héðan.

sunnudagur, október 26, 2008

Sunday..

Eru sunnudagar ekki ekta bloggdagar? Þeir eiga að vera letidagar þar sem allt annað fær að sitja á hakanum. En ég er búin að dekra svo mikið við mig um helgina að það var ekkert val um neitt nema skella sér í úlpuna og út á skrifstofu.. þar sem ég sit núna og rembist við að læra. Ég blóta því núna að hafa ekki sent viðgerðarbeiðni til RHÍ þar sem hátalarinn virkar ekki á tölvunni minni.. það væri notalegast að geta haft smá tónlist hérna fyrst maður er aleinn á stóru skrifstofunni.
---
Það er stuttur vinnudagur á morgun því María er í vetrarfríi, við ætlum að dúllast eitthvað eftir hádegi á morgun saman bara tvær. Hún er orðin svo stór þessi elska, við vorum í foreldraviðtali í síðustu viku - það gekk svo vel og ég er svo stolt af henni. Hún er langt yfir meðallagi í lestri en hún les 127 atkvæði á mínútu en meðaltalið er 100 í bekknum. Hún skoraði 9,9 á stærðfræðiprófi - hefði átt að fá 10,0 en það er önnur ella - börnin eiga víst að uppgötva stærðfræðina í dag en ekki kunna hana. Einstaklega vel heppnað eintak þetta barn þó ég segi sjálf frá, hún er ánægð í skólanum og líður vel þar. Hún á eftir að ná langt þessi elska, ég efa það ekki.
---
En helgin er búin.. MA ritgerðarfrestun að síast inn enn eina ferðina og ég hlakka til jólanna

þriðjudagur, október 21, 2008

Að flækja málin

Stundum held ég að ég sé snillingur að flækja málin og ofhugsa hlutina, já eða bara hugsa þá ekki neitt. Alltaf of eða van á þeim bænum... gullna jafnvægið virðist ekki vera til hjá mér stundum. Þegar manni tekst að búa til svona flækjur þá er gott að eiga góða vini til að dempa öllu á, öllu sem er svo lítið þegar vinurinn er búinn að kryfja það til mergjar. Eða jafnvel áttar maður sig á því að vandamálið er svo ekkert vandamál heldur ofhugsun á einföldum hlutum, kannski er einfaldleikinn til?
---
Stór hluti af MA náminu mínu felst í því að ígrunda og pæla í hlutum niður í kjölinn og jafnvel undir hann... sífelld gagnrýni á það sem sett er fram, kannski þess vegna sem ég hugsa of mikið :) Síðustu daga hafa ljósmyndir átt hug minn allan af þeirri einföldu ástæðu að ég þurfti að finna mynd á póster fyrir Þjóðarspegilinn. Ég fann mynd fyrir pósterinn hjá ljósmyndasnillingnum henni Helgu sem ég fékk að nota. Ljósmyndir segja svo mikið, meira en þúsund orð og því er svo mikilvægt að vanda valið. Ég fékk hjá henni mynd sem endurspeglar að miklu leyti væntanlegar niðurstöður rannsóknarinnar minnar. Ég er ótrúlega ánægð með hana. Þið getið skoðað pælingar um hana hérna.
---
Í dag skaut svo lúðinn upp kollinum á kaffistofunni þegar verið var að ræða auglýsinguna fyrir Þjóðarspegilinn. Myndin er blörruð og mér fannst það endurspegla samfélagið eins og það er í dag, það hélt ég að væri pælingin á bak við hana. Samfélagið er eitt kaos þessa dagana og ráðstefnan heitir Þjóðarspegilinn.. spegill þjóðarinnar. Sá eini sem heyrði þessar pælingar mínar hló, sagði að ég hugsaði of mikið :)
---
Eftir kaffistofusessionið sendi ég svo út fullt af tölvupóstum til fólks sem ég þekki mismikið vegna ráðstefnunnar. Þegar ég ýtti á send fékk ég bakþanka... átti ég kannski ekki að senda þessum eða hinum... auglýsingin fór til þeirra sem ég veit að tengjast ekki HÍ og eru úti á akrinum að vinna við sitt fag. Ég búin að hugsa um þetta í allan dag...

mánudagur, október 20, 2008

Mánudagur

Mánudagur til mæðu.. mikið langaði mig að gera ekki neitt í dag en það var víst ekki í boði. Ég var búin að vera óttalega öfugsnúin í dag, einfaldleikinn virkar eitthvað svo flókinn. Við vorum seinar á ferð eins og svo oft áður en settum persónulegt met.. það tók okkur 15 mínútur að vakna, græja nesti, íþróttaföt, ballettföt, bursta, borða og greiða. Andlitið mitt fór með í veskinu og hefur reyndar ekki enn verið sett upp..
---
Kuldinn er ekki mitt thing.. nema þá til að hanga í sumarbústað með hvítvín í heitum potti - með móðu á gleraugunum :) Mig langaði að reyna að troða mér í snjóbuxurnar hennar Maríu en ég lét mér nægja að pakka mér inn í dúnúlpuna mína, ég renndi upp í háls og setti hettuna á höfuðið, þar sló ég tvær flugur í einu höggi! Mér var hlýtt og enginn sá að hágreiðslan var í verri kantinum.
---
Ég er samt farin að hlakka til jólanna... ég hlakka til að hafa það notalegt með fullt af mat og góðu fólki. Aldrei þessu vant er ekkert á döfinni hjá mér í desember nema skila af mér einu námskeiði og jú ein MA ritgerð. Ég ætla að gera svo margt fyrir jólin, mig langar að baka og búa til konfekt ... og svo væri draumur ef mér tekst að draga Völluna í sumarbústað á aðventunni eins og við gerðum um árið. Stefnan er svo tekin á að borða 2ja ára skammt af jólasteikinni.. og enga aspassúpu þetta árið. Kannski er það kuldinn sem fær mann að hlakka til eða bara sú staðreynd að stutt er til jóla.. sem þýðir að stutt er í ritgerðarskil og flutninga... Það verður öðruvísi að búa í 113...

miðvikudagur, október 15, 2008

Svífur yfir bloggandinn...

Undanfarið hefur mig langað að blogga .. en samt hef ég ekki fundið andann sem knýr mig áfram á þessu sviði. Já um hvað á ég að blogga? Á ég að blogga um síðustu helgi, hún var ein sú skemmtilegasta í langan tíma - ég hitti skemmtilegt fólk, hló mikið, svaf lítið og *hóst*.. drakk mikið hvítvín :) Eða á ég að blogga um efnahagsmálin og hvernig skynsamt væri fyrir pólitíkusana að fá lán hjá IMF til að geta skellt skuldinni á þá þegar þarf að hækka skatta og ef eitthvað meira fer úrskeiðis? Eða jafnvel blogga um það jákvæða sem felst í öllu þessu efnahagsbrölti? Svo gæti ég náttla bloggað um nýju vúdúdúkkuna mína???
---
Ég held að það standi upp úr þessu öllu hvað það stendur margt frábært fólk í kringum mig, ég á góða fjölskyldu, skemmtilega vini og vinn með frábæru fólki. Frá því þetta allt fór í gang hef ég er mjög treg við að fara í búðir - ólíkt þeim sem hafa hamstrað fyrir kjarnorkustyrjöldina. Hugurinn tók U-beygju þegar allt fór að hrynja, ég hef ekki notað kort síðan Glitnir fór - samt er ég viðskiptavinur Landsbankans :) Hagsýna húsmóðirin hefur fengið byr undir báða vængi og ég get svarið það að mjög langt er síðan ég hef verið eins hagsýn í innkaupum og heimilishaldi - og mér líður bara nokkuð vel með. Spara er mitt mottó. Búðarferðirnar hafa verið það fáar að ég man ekki hvenær ég þurfti að draga Maríu með mér eftir skóla í hundleiðinlega verslunarferð sem þýðir að við höfum betri tíma saman.
---
Vúdúdúkkan hefur ekki enn verið notuð.. að neinu viti... en ef þú finnur fyrir einhverjum óútskýrðum verkjum.. þá er ég ekki vinur þinn muhahhahaha :)

þriðjudagur, október 14, 2008

Rídd?

Lesefni kvöldsins var erfðir, gen og litningar og því sérdeilis skemmtilegt að fá þennan gullmola í tölvupósti..
--
Þessi gullvæga setning heyrðist við kvöldmatarborð frá einni á leikskólaaldri nýverið.
---
Dóttirin: "Var ég búin til í glasi eða ættleidd eða rídd?"
---
Sem er tilefni þessarar vísu
Úr hvaða efni er ég smídd,
af íslensku holdi eða þýdd?
Ég vita það vil
því víst er ég til.
Er ég ættleidd, úr glasi eða rídd?
---
Við spurningu barnsins svarar pabbinn svona:
---
Úr ágætis efn' ertu snídd
og kostunum bestu ertu prýdd.
En eitt máttu vita ég vann mér til hita,
því á gamaldags hátt varstu rídd

mánudagur, október 13, 2008

Stjörnuspá dagsins..

Naut: Árásargirnin eykst hjá þér sem er frábært ef þú ætlar að yfirtaka fyrirtæki eða vinna fótboltaleik. Annars skaltu minnka kaffeínið og hraðann. --- Annars er óttalegur mánudagur í mér og mig langar ekkert að sleppa kaffibollanum...

fimmtudagur, október 09, 2008

Iceland vs America

The Americans have Bush, Stevie Wonder and Johnny Cash. The Icelanders have Haarde, no wonder and no cash!

mánudagur, október 06, 2008

Tilgangslaust en pínu skemmtilegt

Kidda (sem nota bene er starfsmaður KB banka) klukkaði mig um daginn, dagurinn í dag er tilvalinn til að velta hlutunum aðeins fyrir sér... Fjögur störf sem ég hef unnið við um ævina:
  1. Háskóli Íslands
  2. Götusmiðjan
  3. Sólbaðstofa Mosfellsbæjar
  4. Snæland video
Fjórir staðir sem ég hef búið á um ævina:
  1. Blönduós
  2. Mosfellsbær
  3. Keflavík
  4. Reykjavík
Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
  1. Ég
  2. man
  3. aldrei
  4. eftir myndum
Fjórir sjónvarpsþættir í uppáhaldi:
  1. Law and Order
  2. Law and Order: SVU
  3. Biggest Looser (leyndó samt)
  4. CSI
Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni:
  1. Lýðmenntun - hreinlega elska þá bók (brilliant bók fyrir fólk í menntapælingum)
  2. Ísland í aldanna rás (bara svona ef maður hefur ekkert að gera)
  3. Útkallsbækurnar (góðar fyrir svefninn)
  4. Mannkynbætur (sérlega áhugaverð bók um mannkynbótastefnur)
Matur sem er í uppáhald:
  1. Hamborgarhryggur
  2. Kalkúnn
  3. Nautasteik
  4. Indverskur
Fjórar síður sem ég heimsæki daglega (fyrir utan bloggsíður):
  1. http://www.mbl.is/
  2. http://www.hi.is/
  3. http://www.ugla.hi.is/
  4. http://www.facebook.com/

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  1. Tenerife (sól og sæla með famelíunni)
  2. Chile (búðir, áfengi og spænska)
  3. Krít (sól, hiti, strönd og lífsháski)
  4. Noregur (Helgan, búðir og áfengi)

Fjórir staðir sem ég myndi vilja vera á núna:

  1. Á Akureyri hjá Völlunni minni
  2. Á sólarströnd að kafna úr hita, með ískalt vatn undir bekknum
  3. Í heitum potti við sumarbústað með ískalt hvítvín
  4. Á ferðalagi um heiminn með Maríuna mína

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

  1. Guðrún
  2. Helga Björg
  3. Anna Rut (farðu nú að blogga kona!)
  4. Fanney Dóra

Kreppan 1914?

Nú vildi ég óska þess að ég hefði tekið betur eftir í sögunni hjá Sigga upp í Borgó, hvernig var kreppan 1914? Að hvaða leyti er ástandið nú sambærilegt því sem þá var? Ég veit samt ekki afhverju ég vil vita það, ég held að manni myndi ekkert líða betur með það - kannski hef ég einhverja þörf fyrir að velta þessu fyrir mér...
---
Andrúmsloftið í vinnunni var skrítið í dag, það hefur verið mikil spenna undanfarið og stuttu fyrir ávarp forsætisráðherra gekk boðskort í Club Polly Anna um húsið - í grafalvarlegu gríni að sjálfsögðu. Við hlustuðum á ávarpið í gömlu útvarpi sem var með stóru loftneti. Það hefði verið hægt að skera andrúmsloftið. Þegar ávarpinu lauk og forsætisráðherra bað Guð að blessa þjóðina var mér næstum allri lokið.. mig langaði að leggjast í gólfið og gráta - að láta eins og krakki.
---
Það var ekki mikið unnið eftir ávarpið, ég fór og sótti Maríuhænuna mína sem var inni hjá Höllu með magaverki. Við renndum svo heim, skottann fékk smá knús og magaverkirnir hurfu eins og dögg fyrir sólu. Barnið er frammi í fótbolta núna :)
---
Hvað gerist á morgun? Það veit enginn held ég, ég nenni ekki að spá í því í kvöld. Ég ætla að skrá mig í Club Polly Anna

fimmtudagur, október 02, 2008

"Alþjóðlegur vandi"

Mig langaði að blogga en samt ekki. Ég er að hlusta á ræðusnillinginn Steingrím Joð lesa ríkisstjórninni pistilinn. Ég er ekki vinstri græn en mér finnst alltaf jafn gaman að hlusta á hann. Kaffistofan í vinnunni er góður staður á tímum sem þessum, þar fær maður ýmsan fróðleik beint í æð. Ég er búin að læra ýmislegt síðustu daga, td að mynda að samingstaða Glitnis var verulega slæm og afskaplega tæpt sé að kenna illindum Davíðs og Jóns Ásgeirs. Glitnir hefði annars farið á hausinn. Veðin sem Glitnir bauð voru ekki pappírar sem teljast til góðra veða, meðal annars munu þar hafa verið bílalán og fasteignalán. Hagfræðingarnir á mínum vinnustað gera ráð fyrir því að um 60% skuldara eigi eftir að standa í skilum á næstum mánuðum sé litið til annarra lána en húsnæðislána, en þar má víst búast við allt að 90% skilum.
---
Það var mikið hlegið af frösum ráðamanna á borð við að þetta sé nú alþjóðlegur vandi og við eigum að snúa bökum saman. Að hluta til er okkar vandi alþjóðlegur en að hluta erum við að súpa seyðið af þvílíku eyðslufylleríi síðustu ára, vandinn er svo "alþjóðlegur" að eina landið í heiminum sem glímir við sama vanda og við í dag er Kazakstan... En að snúa bökum saman, jú jú við getum við snúið bökum saman en hvað svo? Eigum við kannski bara að botna Stuðmannlagið og þakka fyrir góða aldurssamsetningu þjóðarinnar?
---
Ég hef ekki hugmynd en snillingurinn sem ég vísaði til hér fyrr komst svo skemmtilega að orði áðan: Áhöfn í lekum bát sest ekki niður til að velta því fyrir sér afhverju fór að leka heldur byrja þeir að ausa. Bankar og ríkið þurfa að finna lausn. Ég segi Go Jóhanna! og held áfram að horfa á Alþingi..