Eitt kvöld á facebook ákvað ég að síðasta helgi væri snilldarhelgi til að kíkja norður til Rögnu á Skagaströnd. Anna Maja var alveg sammála mér svo að á síðasta föstudag ókum við norður í land með Maríuhænuna mína í aftursætinu. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig þar til við komum í Borgarnes (alla leið í Borgarnes), þá áttaði ég mig á því að drossían var ljóslaus. Vitandi það að ekkert bílaverkstæði í Borgarnesi væri opið ákvað ég að láta slag standa og keyra með háa settið norður, því jú gáfumennin á bensínstöðinni minni höfðu eitt sinn sagt mér að þeir skiptu ekki um þessar perur þar sem of mikið þyrfti að losa frá.
---
Í Norðurárdalnum var orðið ansi dimmt og ljóst var að háa settið mitt var að blinda ansi marga ökumennina, því ákvað ég að reyna að "semja" við afgreiðslufólkið í Staðarskála um peruskipti. Þjónusta N1 á landsbyggðina er algjörlega til fyrirmyndar.. NOT - þar er ekki þjónusta á kvöldin úti á plani. Hvað á það eiginlega að þýða? En jæja, inn í skálann arkaði saklaus borgarmær í ullarkápu og á háum hælum og spurði hvort það væri nokkur sem gæti aðstoðað hana. Það var ekki að spyrja að því, grillmeistarinn skellti af sér svuntunni, fór í úlpu og kom út. Hann náði annarri perunni en þorði ekki að reyna við hina.
---
Stuttu síðar héldu stoltir ljósaeigendur áfram út í myrkrið. Rétt við Hvammstanga minntist mín kæra frænka á síðasta ferðalag okkur um Húnvatnssýslurnar - fyrir nokkrum árum þegar ég varð Blönduóslöggunni að bráð. Það var ekki að spyrja að því, þegar við renndum í gegnum Blönduós stoppaði þessi elska okkur. Drossían eineygð, ég eldrauð í framan eftir gullin komment frá frænkunni og frænkan í hláturskasti...
---
Við lentum loksins á Skagaströnd seint á föstudag, Birta tók á móti okkur og spurði um Ottó. Gormarnir léku sér fram á kvöld og frænkan fór heim í sveit. Við Ragna sötruðum kók og kjöftuðum - styttra en venjulega. Laugardagurinn gekk í garð, ég svaf á mínu græna á meðan Ragna hugsaði um öll dýrin á heimilinu, madamman úr Reykjavík vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir tólf og gekk upp stigann með samviskubit dauðans.
---
Eftir hádegi ákváðum við að fara út á rúntinn - skoða plássið ;) Við tókum smá rúnt í blíðskaparverði með börnin í aftursætunum - allir hressir og glaðir að borða nammi, nema Birta hún var komin með í magann. Allt í einu varð kolvitlaust veður. Skynsamar mæður héldu þá heim og bílnum var lagt snyrtilega í skúrnum. Veðrið vesnaði þegar leið á kvöldið og um tíma sást ekki einu sinni til kannabisverksmiðjunnar sálaugu - ekki skrítið að vinnslan gat farið svona leynt ef veðrið verður oft svona.
---
Anna Maja lét sig hafa það að kíkja á okkur í stutta heimsókn þrátt fyrir blindbyl, á heimleiðinni gekk ekki betur en svo að bíllinn fór út af með dömuna innan borðs. Allir gengu þó heilir af velli nema þó ekki væri nema sært stolt frænku.
---
Sunnudagurinn gekk í garð heiður og fagur. Allt á kafi í snjó og logn úti. Við frænkur bjuggum okkur til brottfarar og sennilega um leið og við skelltum bílnum í "Drive" fór að hvessa. Við létum okkur nú hafa það, keyptum vistir í N1 og fylltum bílinn. Í Vatnsdalnum hringdi frænka í Vegagerðina og tók stöðuna á heiðinni, þar var hálka og stórhríð - og fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Miðað við umferðina suður ákváðum við að láta sem hún hefði aldrei hringt. Bylgjan ómaði í bílnum og við skemmtum hvor annarri með því að búa til veðurfréttir.. VNA 18 metrar á sekúndu, skyggni 2 stikur...
---
Einhvers staðar á leiðinni heyrðum við fréttir .. þar sem heiðinni var lokað, björgunarsveitir komnar upp aðstoða fólk og fólk beðið um að halda sig heima við. Frænkurnar ákváðu því að snúa við rétt vestan við Hvammstanga. Heimleiðin á Skagaströnd tók svo tæpa 2 tíma, geri aðrir betur!
---
Það var svo í morgun að frúin skellti sér í dreifbýlisskóna, snjóbuxur, úlpu og húfu og óð skafla að bílnum sem fékk að eyða nóttinni við Apótek bæjarsins. Rétt fyrir níu vorum við komnar á fullt skrið til borgarinnar, sóttum meiri vistir í N1, fylltum bílinn og tókum myndir af ísbirninum.
---
Í stuttu máli, við lentum í Reykjavík um 2 leytið. Heiðin var viðbjóður, skyggni ýmist ein stika eða engin. Snjór og vesen, flutningabíll á hliðinni og sæmilegasta samloka í Hreðavatnsskála.