föstudagur, desember 28, 2007

Heimt úr helju!

Þá er ég formlega "flutt" aftur heim með mitt hafurtask. Þessi blessaða kirtlataka var aðeins meira mál en ég átti von á svo það var voðalega notó að vera bara hjá stóru systu í pössun. Jólin komu og fóru án þess að ég tæki verulega eftir þeim. Aðfangadagur og jóladagur voru verstu dagarnir :( Ég borðaði aspassúpu og smá af maukuðu kjöti í jólamatinn. Heilsan er öll að koma til núna og ég get borðað smá - vatnið er samt bara best. --- María var hjá okkur á aðfangadag en fór svo til Nonna á jóladag og var þar út annan. Þau fóru saman í tvö jólaboð hjá Nonna fjölskyldu. Maríu var farið að langa að fara heim en svo þegar komið var að því að fara heim til okkar þá þurfti ég nánast að pína hana frá Mæju frænku - allt í einu langaði hana ekki heim. Við erum samt búnar að hafa það notalegt hérna heima þessa tvo daga, við máluðum piparkökur í gær og lágum svo saman í sófanum að lesa. Ég las um hernámið en María "unglingabók" sem hún fékk í jólagjöf. --- Annars sváfum við frekar lengi í gærmorgun og þegar ég vakti prinsessuna sagði ég henni að núna væri hún búin að sofa eins og unglingur og það stóð ekki á svari... "já, ég er líka unglingur!" Þegar unglingurinn fór á fætur kom Nonni hingað til að passa hana á meðan ég fór í jólaklippinguna - ég komst ekki fyrir jólin svo Anna Sigga gat reddað mér í gær svo að núna er ég bara asskoti fín um hárið, aðeins dekkra en síðast og meira af strípum - alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt. --- Plan dagsins er að skjótast í IKEA og kaupa kassa í stofuborðið og kíkja á útsöluna þar - athuga hvort það sé eitthvað á útsölu sem okkur vantar hér á Eggertsgötuna :) Svo fer skottan til pabba síns á morgun og verður fram á nýjársdag. Það verður í fyrsta skipti sem ég er ekki með henni á gamlárskvöld - það verður skrítið en hún á eftir að skemmta sér vel með pabba sínum og vinkonu sinni í Breiðholtinu. Ég er búin að kaupa smá áramótadót fyrir þær, hitti beint í mark hjá prinsessunni --- Eníveis, farin í IKEA

mánudagur, desember 17, 2007

Jari jari

Shitturinn, titturinn, mellan og hóran eða eitthvað þannig. Þá er ég búin í prófinu og skólinn kominn í smá pásu. Ég afrekaði það áðan að klára að versla allar jólagjafirnar nema eina - græja hana um helgina. Núna er þvottavélin bara á fullu, taskan á stofugólfinu og stessið að kitla mallan á minni - ójá, sko mikið að kitla þar :) Ég er nefnilega að fara að flytja í nokkra daga til elskulegu systu minnar. Doksinn ætlar að taka hálskirtlana úr mér í fyrramálið og það er víst ekki mjög gáfulegt að vera einn fyrstu sólarhringana á eftir. Ég er ótúlega geðvond og stressuð yfir þessu öllu saman.
--
Einstaklega jákvæður pistill - en þið sem eru að bíða eftir jólakorti frá mér. Ekki örvænta, kortið kemur sennilega að ári. Ég ákvað að senda engin kort núna, hef bara engan tíma til þess. Jólakveðjan verður hér á blogginu þegar nær dregur jólum.
---
Eníveis, síjú.

sunnudagur, desember 16, 2007

Frk jákvæð

Það er svo gaman að vera ég núna - að læra ályktunartölfræði frá morgni til kvölds.
--
Ég er búin að sigra tvo "bardaga" síðasta sólarhringinn og er bara þokkalega ánægð með það! Í gær fór ég til hennar Önnu tannsa og útskrifaðist - ég hef ekki farið í meðferð hjá tannlækni og klárað pakkann síðan 1702. Ég er varla að trúa því að fyrir 10 mánuðum hafi ég frekar viljað fara daglega til kvensjúkdómalæknis en að fara til tannsa. Við erum búnar að vinna markvisst að því að draga úr þessum hræðslupúkaskap og síðustu 4 skipti hef ég ekki svo mikið sem svitnað. Fyrsta skiptið sem ég kom til Önnu dó ég næstum því úr stressi, ég skalf eins og hrísla og svitnaði eins og vaxtarræktargaur en samt var hún bara að taka myndir. Mér fannst bara allt við tannlæknastofur hræðilegt. Frábær tannlæknir þar á ferð.
--
Svo fór ég í morgun og hitti fjórar stelpur úr fötlunarfræðinni til að fara yfir námsefnið. Ég var alveg á þeirri skoðun á föstudagskvöld að próftakan yrði hræðileg - ég skildi ekki neitt og fór í algjöra flækju nema hvað að þessi tími með stelpunum í dag reddaði málunum alveg fyrir mig. Ég gekk út með þvílíka sigurtilfinningu í maganum, ég sá ljósið og ég get svo svarið það að ályktunartölfræði er ekkert svo leiðinleg - meira að segja er hún bara nokkuð skemmtileg.
--
Well, samkvæmt bandarískri rannsókn gefur góður nætursvefn betri einkunn... farin í bælið

laugardagur, desember 08, 2007

Hádegismatur
Ristað brauð með graflaxi og sósu
Allan daginn matur
Salt flögur frá Lays og Sambó lakkrís. Kaffi og kók
Kvöldmatur
Kjúklingasúpa með kartöflum, hrísgrjónum, lauk og hvítlauk
Kvöldsnakk
Jarðaber og sódavatn
--
... þvílíkt hollusta hefur aldrei, og ég meina aldrei, þekkst á mínum árum í háskólanum á þessum tíma - prófatímanum. Ég á hrúgu af nammi og snakki sem mig langar bara ekkert í. Reyndar langar mig í meiri lakkrís en ég er bara búin með pokann. Ég er bara ekki að skilja þetta!
--
Annars tók ég mér frí frá tölfræðinni í dag og fór í eigindlegar pælingar í dag - svo miklu miklu skemmtilegri aðferðafræði. Ég ætla að klára aðferðafræðikaflann í lokaritgerðina áður en ég fer að sofa. Hanna mín er komin heim og ég fékk bara svona energy búst að sjá hana - svo gott að fá hana heim :)
--
Svo er bara rúmlega vika eftir af "sælunni" og þá tekur hrollurinn við. Ég á að fara í kirtlatökuna 18.des. Mig er farið að kvíða pínu fyrir, eitthvað skerí að fara í aðgerð á stofu. En svo er bara Tenerife eftir 4 vikur. Við verðum á geðveiku hóteli - við María verðum sér og Maja og Beggi sér. Við máttum víst ekki vera öll saman í einu húsi. Ég ætla að taka smá skóladót með mér út til að læra á kvöldin, þá get ég verið heima með sofandi börnin og skötuhjúin geta kíkt út á lífið.
--
Ég ætla að taka mér smá pásu á morgun og versla jólagjafir - var að fatta eina hana mömmu og Sigga og bara verð að fara á morgun og kaupa hana. Þá er bara eftir handa litla frænda sem fæddist á Akureyri í dag, fyrir Maríu Rún, Ottó Má, Maju og Begga, Martin bróðir, Grétar og Víking. Ég þarf að græja þessar gjafir í vikunni og svo á ég líka eftir að kaupa afmælisgjöfina fyrir Maju - veit hvað ég ætla að kaupa :)
--
Í vikunni þarf ég líka að græja jólakortin, skreyta, kaupa jólakápu fyrir Maríu og baka ef það verður gert :)

þriðjudagur, desember 04, 2007

+ og -

Frk. Neikvæð Ég er ekki að nenna neinu - ég er að skrifa fræðilegan inngang að lítilli rannsókn sem við gerðum í einu námskeiði og mér finnst efnið ekki spennandi. Ég gleymdi að hringja mjög mikilvægt símtal í dag og ég veit ekki hvernig á redda því Mig langar að jólast Mig langar að fara á Þjóðaspegilinn á föstudaginn Frk. Jákvæð Ég náði SPSS prófinu - ekki með neinum glæsibrag en það hafðist Á föstudaginn verð ég búin að skila öllum litlum verkefnum í MA náminu 17. des fer ég í síðasta prófið mitt í MA náminu Eftir 1 mánuð verð ég á Tenerife Ég á Senseo kaffivél ...... og svo bara þetta venjulega, hvað á barnið að fá í jólagjöf (iPodinn er ekki á listanum)?

sunnudagur, desember 02, 2007

Barnið mitt..

.... óskar eftir því að fá iPod í jólagjöf. Barnið varð 6 ára í september sl.