þriðjudagur, janúar 24, 2006

Jæja, koma svo

  1. Hver ert þú?
  2. Erum við vinir?
  3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
  4. Ertu hrifin/nn af mér?
  5. Langar þig að kyssa mig?
  6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
  7. Lýstu mér í einu orði.
  8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
  9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
  10. Hvað minnir þig á mig?
  11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
  12. Hversu vel þekkiru mig?
  13. Hvenær sástu mig síðast?
  14. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
  15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

mánudagur, janúar 23, 2006

Vallan mín

Í dag er stór dagur, hún Valla mín á afmæli og er 24 ára. Til hamingju með daginn elsku Valla- sakna þín alveg svakalega þessa dagana. Ég kynntist Völlu þegar við unnum saman Padeia blaðið fyrir 2 árum síðan. Ég hafði reyndar séð hana og vitað hver hún væri- sérstaklega þekkti ég orðsporið... ógeðslega klár stelpa.
---
Fyrsta minning mín af Völlu var í tíma í Lögbergi, ég sat fyrir ofan hana og fylgdist með henni glósa af öllum mætti í tíma hjá Jóni Torfi- Kenningum í uppeldis- og menntunarfræði. Hún var alltaf svakalega vel lesin og talaði og skrifaði á tölvuna bæði í einu, mér fannst það alveg svakalegt.
---
Svo ákvað ég að henda mér í djúpu laugina og prufa að fara í ritnefnd Padeia, Valla kom líka í ritnefndina sem tengiliður stjórnar en þegar upp var staðið vorum við mest tvær að vinna þetta saman. Það gekk þvílíkt vel, tvær "frekjur" sem þó gátu alltaf mæst á miðri leið gerðu þetta snilldarblað. Stuttu seinna flutti ég inn á Vetrargarða og þá var ekki aftur snúið, ég kynntist Völlu enn betur og eyddi meiri tíma með henni. Kaffihús í flíspeysu rétt fyrir miðnætti var sko okkar stíll!
---
Rauðvín er eitthvað sem okkur báðum finnst gott að drekka, reyndar hef ég farið varlega í það síðan Valla bauð mér upp á það síðast :) Við fórum líka saman í okkar fyrsta kokteilboð, stóðum okkur þvílíkt vel- misstum bara diskana einu sinni og fáir tóku eftir því.
---
Í dag er Valla uppeldisfræðikennari með meiru í Menntaskólanum á Akureyri. Sennilega einn yngsti menntaskólakennari á landinu og ég leyfi mér að fullyrða að hún sé með þeim betri. Allt sem Valla tekur sér fyrir hendur gerir hún vel enda ofurkona á ferð.
---
Síðasta sumar fór ég með henni norður á heimaslóðir og fékk grillaða löpp að hætti pabba hennar. Foreldrar hennar voru líka þvílíkt almennilegir, fyrir utan hvað það var gaman að koma á æskuslóðirnar hennar- síðasta púslið.
---
Síðasta haust ákvað Valla að fara norður að kenna, María og Nonni heimsóttu þau fljótlega enda María og Rannveig bestu vinkonur. Ég hef ekki enn gerst svo fræg að stíga fæti í Hjallalundinn en það stendur til bóta, mig dauðlangar að kíkja á hana og bara spjalla í eigin persónu- ekki svona í gegnum síma. Valla er nefnileg ein af þessum stelpum að það skiptir ekki máli hvenær þú talaðir við hana síðast, það er alltaf eins og það hafi verið í gær.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Orðin vinnandi kona!

Heil og sæl aftur. Nú er allt komið á fullt hjá mér á nýjan leik, reyndar var ég að spá í að bæta við mig einingum og taka þá 13 einingar á þessari önn en þegar ég rak augun í kennsluáætlunina við ljósritunarvélina í dag sá ég að sama hvað ég vildi þá gæti ég það ekki alveg... En það var ekki að ástæðulausu að ég var við ljósritunarvélina :) Ég er komin með vinnu 3 morgna í viku frá 9-13 á skrifstofu Félagsvísindadeildar. Ég er búin að vinna núna 3 daga og líkar bara rosalega vel. Ég er í afgreiðslunni að aðstoða fólk í sambandi við námið, svara fyrirspurnum, svara í síma og svoleiðis. Mér tókst bara að skella á eina manneskju þegar ég var að reyna að gefa henni samband áfram... reddaðist nú alveg.
---
Þetta er alveg ótrúlega gaman, þvílíkur hasar allan tímann og tíminn líður rosalega hratt. Maður er varla mættur þegar dagurinn er búinn. Svo lærir maður svo margt nýtt, í dag var ég að ljósrita upp úr bók sem ég fór bara að lesa í leiðinni. Spurning um að verða mér úti um þessa bók? Hún var um barnaverndarmál og það sem vakti athygli mína var umfjöllun um börn sem vitni, verð að lesa það betur :)
---
Svo er svo skrítið að vera þarna, það eru allir svo næs og hjálpsamir. Það er enginn að henda manni í djúpu lauginni án þess að kenna manni fyrst. Það er bara eins og ég hafi alltaf verið þarna, ég þarf lítið að kynna mig sjálf- konurnar sjá um það. Frábærar konur sem vinna þarna. Það eru allir svo almennilegir. Rosalega gaman, var ég búin að nefna það?
---
En eitt er víst að þetta verður annasöm önn en mjög skemmtileg, námskeiðin sem ég er í eru bæði mjög áhugaverð. Annað fjallar um fötlun í menningu samtímans og hitt er um uppeldi, kynferði og menntun. Svo verð ég áfram aðstoðamaður Hönnu Bjargar og að vinna að rannsókn hjá henni. Spennandi tímar framundan.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Komin heim í kuldann

Jæja, þá er ég komin heim í kuldann. Það er nú voðalega ljúft að koma heim en ég sakna sólarinnar samt alveg viðbjóðslega mikið. Það er svo ljúft að vera bara í pilsi og bol alla daga, sofa eins og maður getur og borða það sem maður vill... allt bara af því það er sól :) ---- Annars er allt komið á fullt hjá mér núna, ég átti eftir að klára verkefni hjá Hönnu Björgu sem ég er búin að vera að fara yfir frá því ég kom heim. Kemur reyndar ekki að sök því mér finnst það bara gaman, svo var ég búin að ráða mig í vinnu með skólanum en svo var ég að fá annað atvinnutilboð sem er mjög spennandi. Það er samt ekki orðið fast ennþá en mig langar alveg geðveikt í það. Ég held að það verði bara alveg brjálað að gera þessa önn... eins og það sé eitthvað nýtt en ég ætlaði mér nú að hafa það rólegt núna. Ég er bara í 10 einingum, að vinna hjá Hönnu Björgu að rannsókn með henni og svo vinnan.. ef hún gengur eftir þá er hún 3 morgna í viku. En til að fá einhver námslán held ég að verði að vera með 12 einingar svo að ég verð að redda því einhvern veginn. Veit einhver um svoleiðis námskeið, það þarf helst að tengjast skóla án aðgreiningar, mannréttindum, fötlunarfræði eða einhverju slíku??? --- Svo skilst mér að það sé reunion hjá Gaggó Mos í mars... jeminn ég verð að ná bumbunni fyrir þann tíma eða klæða mig bara upp sem fíl. Komm on þetta á nú að vera grímuball svo það er alveg hægt! Ég er samt ekkert súperspent fyrir því að djamma í Mosó... það var rosalega gaman stundum að vera unglingur þarna en eftir á að hyggja var það líka mjög slæmur tími. Sjálfsvirðing og metnaður var eitthvað sem ég þekkti ekki þegar ég bjó þarna, og svo virðist vera að ákveðnir bæjarbúar haldi að ég hafi ekki enn kynnst þessum hugtökum og þaðan af síður lært að lifa eftir þeim. Batnandi mönnnum/konum er best að lifa! Ég verð nú samt að viðurkenna að ég verð allt önnur manneskja þegar ég kem inn fyrir þessi blessuðu bæjarmörk... ég meina til dæmis þá er ég ómáluð alla daga í skólanum og í miðbæ Reykjavíkur en ég og Hildur fórum á KFC í Mosó um daginn... ég var ómáluð og mér fannst það þvílíkt óþægilegt. Ég veit ég er rugluð en ég er samt viðkvæm fyrir smjattinu þarna.... ---- En var ég búin að segja ykkur að mig langar að flytja? Ég er að kafna heima hjá mér og langar í stærri íbúð, með stærri stofu og auka herbergi. Sérhæð í vesturbænum væri draumur, eða kannski Þingholtunum eða bara Nesið.... en fyrst verður maður víst fyrst að borga jólin, þau voru aðeins í dýrari kantinum þetta árið :)