fimmtudagur, september 27, 2007

Helgihald í Háskóla Íslands

As we speak sit ég í "skólastofu" í kjallara Neskirkju. beint fyrir ofan mig eru bekkirnir fyrir kirkjugesti og ef ég myndi sitja aðeins lengra til vinstri þá væri altarið beint fyrir ofan mig. Mér fannst þetta pínu fyndið þegar organistinn fór að æfa slögin fyrir næsta spil. Róandi kikjutónlist studdi fyrirlesturinn hjá Andreu Dofra um aðferðafræði. Aldrei þessu vant fer húsnæðisvandi HÍ ekki í taugarnar á mér. Einu tímarnir sem ég sit eru hér í Neskirkju, utan við einn sem ég hleyp í úr vinnunni en hann er í Odda. Neskirkja er að mínu mati besti kennslustaðurinn hjá Háskólanum. Það er alltaf nóg af bílastæðum hérna fyrir utan. Neskirkja rekur kaffihús með dýrindis kaffi og smákökum (og hollustu fyrir þá sem vilja). Inni í kennslustofunum eru stólarnir breiðir og þægjó. Brilliant staður! --- Hópurinn minn í tölfræðinni hittist yfirleitt hérna til að funda um verkefnið og um daginn gekk annar prestanna hér í Neskikju fram hjá okkur og sagði:" Blessi ykkur". Það eru sko ekki allir sem fá kristna blessun í verkefnavinnu :) Þrátt fyrir að ég hafi alveg þverfótað fyrir trúnni í gegnum tíðina þá finnst mér þetta ótrúlega kósý. Mér finnst þetta líka sniðugt af kirkjunni að opna hana svona fyrir hverfinu. --- Annars er ég voðalega soft eitthvað núna, María er að fara til pabba síns eftir skóla í dag og kemur ekki heim fyrr en á sunnudaginn. Mér finnst það pínu erfitt, fyrst fannst mér þetta voða þægjó að vera barnlaus heila helgi en núna finnst mér þetta bara erfitt eiginlega. Ég sakna hennar svo mikið, hún er svo yndisleg þessi elska. Það er svo kósí að sofna aðeins með henni eftir kvöldmat þegar ég svæfi hana (jamms hún er ennþá svæfð) og svo er hún svo mikil dúlla. Til dæmis var gærdagurinn alveg snilld, hún fékk sér smá brauð eftir skóla og ég sagði henni að hún yrði að bíða meðan ég gengi frá dótinu því ég gæti ekki gert brauðið fyrir hana fyrr en þá. Lítið mál, hún klifraði upp á eldhúsbekkinn og náði sér í disk - svo remú úr ísskápnum og svo brauð. Brauðið var fagmannlega skorið og skorpan tekin af, remúlaðinu var svo smurt á brauðið í allt of miklu magni að mínu mati - en ég var nú ekki að fara að borða þetta. Hún var svo agalega ánægð með þetta, þá sérstaklega hvað hún skar skorpuna alveg 100% rétt af. Yfir kvöldmatnum vorum við svo að ræða um Danmerkuferð sem snúllan er að fara í fljótlega. Hún sagði mér það að ég yrði að láta hana hafa einhvern pening því hún ætlaði að kaupa sér föt! Einmitt, barnið er rétt orðið sex ára og strax farið að plana verslunarferðir til útlanda. Eftir matinn skellti hún sér í bað - ég mátti ekki aðstoða hana við neitt frekar en venjulega. Baðherbergið var allt út í vatni því hún notaði sturtuhausinn til að bleyta hárið og skola það, en skvísan réði bara ekki alveg við sturtuhausinn. Svo læsti hún að sér inni á baði, þurrkaði sér og klæddi í nærföt. Svo leið tíminn heil ósköp og ég var farin að hafa áhyggjur af barninu - ímyndunarveiki mæðra fór á fullt- en svo kom hún fram, þá var hún búin að greiða sér svona rosalega "fínt". Hún var með tvö tögl, skipt í miðju og tvær spennur sitt hvorum megin við skiptinguna. Ég tók mynd af þessari fínu greiðslu. Hún endurtók greiðsluna í morgun - svo Heba ef þú hefur eitthvað við hárið á barninu mínu að athuga, þá gerði hún þetta sjálf :) --- Jæja, tíminn er að byrja aftur. Spurning um að fylgjast með??

föstudagur, september 14, 2007

Litla barnið mitt

Mér finnst eins og það hafði verið í gær að ég lá heima í íbúðinni upp í Gullengi með einhverjar skrítnar pílur í maganum. Ég lagðist á gólfið, ég bretti mig og fetti en allt kom fyrir ekki - þetta hætti ekki. Um nóttina var mér svo ljóst að þetta voru hríðar, ég var sjálf lítið lamb. Rétt skriðin í tvítugt. Föstudaginn 14.september 2001 kl. 12.20 fæddist litla prinsessan mín, mamma og Nonni voru með mér í fæðingunni. Ég man hvað hún var blá þegar hún fæddist en það var víst alveg eðlilegt. Prinsessan var vigtuð 4110 gr og 53 cm. Nýja famelían fór svo á Hreiðrið og reyndi að lúra smá áður en hún fór heim daginn eftir.
Þessi mynd var einmitt tekin stuttu eftir fæðinguna. Heima fengum við þjónustu frá ljósu sem heitir Ragnheiður, svo skemmtilega vildi til að hún var með mömmu á Skógum í den. Hún var yndisleg þessi ljósa og gerði þessa fyrstu daga örlítið auðveldari. Það var rosalega skrítið að vera allt í einu orðin mamma. Ég var mjög óörugg en sem betur fer hafði ég gott fólk í kringum mig.
Sem betur fer erfði María Rún svefnvenjur mínar og strax frá upphafi kom í ljós að henni þótt mjög gott að sofa. Þessi mynd er tekin af henni nokkra daga gamalli þá steinsofandi. Hún fékk sjaldan í magann, ég man eftir einu erfiðu tímabili en það stóð stutt - einhverjar vikur. En svo þroskaðist prinsessan mín og ég með :) Því miður eru ekki til digital myndir af henni í rúmt ár hérna hjá mér - mín framkallaði filmur þá.
En við höfum haft það að sið að vera alltaf hjá mömmu og Sigga á jólunum með einni undantekningu. Þessi mynd er tekin af "fyrstu" alvöru jólunum hennar Maríu. Hún var tiltölulega nýfarin að labba og borðaði eins hestur.
En það hefur alltaf verið vandamál með hana hvað hún borar í nefið - henni finnst það svo gott :)
Ég varð bara að skella þessari mynd með - ég er svo barnaleg þarna! Þetta er tekið í Leirubakkanum á aðfangadag 2002.
Sumarið 2003 byrjaði María Rún í leikskóla. Hún fór á Mánagarð og svo þaðan á Leikgarð 2 árum seinna. Hún tók mikið þroskastökk þegar hún byrjaði í leikskólanum og fór að reyna að gera allt sjálf. Þessi mynd er tekin nálægt Blöndudal sumarið 2003.
Hún var oft dauðuppgefin eftir leikskólann eins og á þessari mynd. Við komum heim einn daginn þar sem við bjuggum á Hjónagörðum, hún fór og fann sér þessar fínu stuttbuxur og glæsilega úrið sem ég átti þegar ég var lítil. Svo lagðist hún í sófann og steinsofnaði.
Jólin 2003 gaf Eiríkur afi hennar Maríu henni þessi stígvél í jólagjöf. Spariskórnir voru lítið notaðir þessi jól því stígvélin þóttu mun betri mér til mikillar gleði. Annars er þetta nú ágætis samsetning hjá henni.
Merkilegt nokk en María og Anna María hafa alltaf verið sólgnar í Trúðaís þrátt fyrir að þeim finnist ísinn ekkert sérstaklega góður - tyggjókúlan í botninum er aðalmálið. Þessi mynd er tekin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sumarið 2004. Pæjan var að byrja að koma hjá henni en Spiderman bakpokinn er á bakinu á henni - hún dýrkaði Spiderman og var meðal annars Spiderman á öskudaginn árið 2004. Sumarið 2005 fór María Rún í fyrsta skipti til útlanda. Við fórum til Færeyja með Norrænu og stoppuðum m.a. við Jökulsárlón á leiðinni austur. Þrátt fyrir að ferðalagið austur hafi tekið einhverja 12 klukkutíma þá sat hún aftur í bílnum og hafði það notalegt. Ég minnist þess ekki að nokkur pirringur hafi komist í kroppinn, við stoppuðum nokkrum sinnum til að hlaupa um og skoða en þess á milli sat hún og hlustaði á tónlist og sögur.
Í Færeyjum keyptum við fyrsta samstæðuspilið hennar Maríu - hún var búin að læra það utan að þegar við komum til Íslands og enn þann dag í dag tekur hún fram þetta spil og rústar manni gjörsamlega.
Þessi mynd er tekin kvöldið eftir 4 ára afmælið hennar Maríu, Barbie afmælið mikla. Stofan var undirlögð af Barbie dóti. En finnst ykkur hún ekki sæt með svona topp? Mig langar svo að hún láti klippa hann stuttan en það er ekki að ræða það....
Jólin 2005 fórum við til Tenerife með Maju og Begga. Ferðin var rosalega fín, við lentum í fellibyl án þess þó að vita af því. Rafmagnið fór af hótelinu og við náðum að skoða talsvert mikið af eyjunni. María naut þess í botn að vera í hitanum, auk þess fékk hún líka að fara nokkrum sinnum með pabba sínum á golfvöllinn á Playa de Americas.
En þegar við komum heim frá Tenerife þá fór hún að safna toppi, reyndar ýtti ég því að henni fyrst en nú fer toppurinn afskaplega í taugarnar á mér.
Sumarið 2006 fórum við mæðgur með stórfjölskyldunni til Hesteyrar um verslunarmannahelgina. Það var mjög sérstakt að koma þangað og upplifa alla söguna bak við byggðina þar. Bátsferðin þótti líka mikið ævintýri. Við vorum á Ísafirði alla helgina en fórum líka inn í Vigur með Sigrúnu og Agli Bjarna.
En svo leið tíminn og fyrr en varði var gelgjan mætt á heimilið. Þessi mynd er tekin um páskana 2007. 6 ára gelgjan hefur vonandi náð hámarki :)
Þessi prinsessa sem er búin að missa fjórar tennur, fá tvær fullorðins og með fimm lausar er 6 ára í dag. Í dag er skvísan komin í Melaskóla, hún er í 1.-D og unir sér vel. Hún er orðin fluglæs og leggur saman og margfaldar ef þannig liggur á henni. Hún er yndisleg þessi elska, afskaplega þver, fyndin, hlédræg, frek og skemmtileg. Til hamingju með daginn mömmusnúsa :)

föstudagur, september 07, 2007

Dingalingaling

Hvurslags kvart er þetta? Ofurbloggarinn tók sér bara gott sumarfrí :)
---
Skólinn er byrjaður, vinnan á fullu, LÍN með stæla og bloggarinn á bleiku skýi. Ég get ekki beðið eftir því að þessi vetur klárist - hann er samt varla byrjaður. Ég er í 6 einingum og ritgerðaskrifum þessa önn og vinn talsvert með því. Ég veit að þetta verður allt of mikið en ég get ekki minnkað við mig neins staðar. Ég bið ykkur bara öll að leggjast á bæn og vona með mér að ég nái að klára í júní. Mig langar svo að útskrifast frá félagsvísindadeild og taka á móti skírteininu frá Óla Harðar. Mig langar ekkert að útskrifast frá "félagsvísindaskóla" eða hvað það mun heita.
---
Svo hitti bloggarinn svo sætan strák í sumar að hún hefur ekki haft tíma til að pósta hér inn - það er svo tímafrekt að eiga kærasta :) En ofurbloggarinn þarf að halda áfram að vinna svo hún -komist í smalamennskuna um helgina.
---
Ofurbloggarinn kveður að sinni