sunnudagur, nóvember 30, 2008

Að láta sig dreyma

Það er aldeilis farið að styttast í flutninga hér á bænum. Eftir nákvæmlega mánuð verðum við að undirbúa síðustu metrana í flutningum. Flutningar hafa lengi verið í hausnum á mér, stundum hefur mig virkilega langað til að flytja.. flytja eitthvað langt eins og til Akureyrar og hafa Völluna mína alltaf nálægt eða flytja í litla íbúð þar sem það verður bara pláss fyrir okkur Maríu og kannski einn kött.. engan annan eða bara eitthvað.. og bara allt þar á milli.
--
Stundum hefur mig líka bara langað til að flytja til að geta loksins eftir margra ára bið búið til mitt heimili, málað veggina og skipt um gólfefni eða bara dúllast eitthvað til að gera íbúðina að "minni". Ég er margoft búin að innrétta draumaíbúðina mína í huganum. Hún verður hlaðin af listmunum, með ljósum húsgögnum og hvítum veggjum.. og kannski einhverju veggfóðri.
---
Draumarnir breytast eftir stund og stað. Stundum dreymir mig spinster líf með Maríu, í þykkri peysu að vinna hjá stjórnsýslunni í Háskólanum og grufla í bókum á kvöldin í lítilli og þröngri íbúð í vesturbænum. Hina dagana dreymir mig um að eiga fullt hús af börnum, flottan kall, vinna stuttan vinnudag og kúra yfir imbanum á kvöldin í rúmgóðri íbúð í vesturbænum.
---
Draumarnir fara núna á hold í smá tíma á meðan við mæðgur komum okkur fyrir í nokkra mánuði í Grafarholtinu. Búslóðin verður þó í vesturbænum í geymslu - borgar sig ekki að fara með hana of langt :)

föstudagur, nóvember 28, 2008

Sjóleiðis

Hvað er að verða um heiminn okkar? Litla sæta krúttlega heiminn okkar? Hryðjuverk á Indlandi og rómantísku hulunni af Taj Mahal ýtt út af borðinu... Airbus hrapar í Miðjarðarhafið og öll áhöfnin ferst, sem betur fer var hún án farþega... Stríðsástand í Bangkok.. og endalaust svartnætti í peningamálum á Íslandi. --- Kannski maður ætti bara að sækja um ríkisborgararétt í USA, Obama lofar nýjum og betri heimi og ætlar ærlega að hreinsa til og svo eru þeir oft svo narrow-minded að þeir vita sjálfsagt ekki að það hafa verið framin hryðjuverk á Taj Mahal, Airbusinn hafi hrapað eða að flugvöllum í Taí sé lokað. Ég held að það sé ákveðinn lúxus að vera Bandaríkjamaður í dag.. ef við gefum okkur það að þeir séu allir eins og fólkið í Leno (sem við ætlum að gera). --- Samt er bara gaman að vera jéggg... ég hef vinnu og meira að segja nýja vinnu og mun hafa vinnu. Ég á frábæran vinnuveitanda sem líkast til fer seint eða aldrei á hausinn - tæknilega séð er það víst ekki hægt. Ég hitti mikið af skemmtilegu fólki þessa dagana, fullt skemmtó á plönunum.. jólahlaðborð í kvöld, bústaður eftir viku, jólaglögg vikuna þar á eftir... fríhelgi og svo jólajólajóla! Einhvers staðar á þessu tímabili ætlar hún Elín mín svo að eignast litlu knúsuna mína. --- Nóvember er að verða búin með öllum sínum afmælum. Þið öll, til hamingju með daginn og börnin ykkar. Amma fær þó stærstu kveðjuna en hún hefði orðið 77 í gær :* --- Enveís.. ég er komin í glöggstuð?

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Leitin að bílnum

Ég þykist nokkuð viss um það að allir hafa einhvern tímann lent í því að týna bílnum. Mér hefur tekist það nokkrum sinnum, sem betur fer hafa afleiðingarnar sjaldanst verið alvarlegri en rauðar kinnar og sært egó. Mér finnst frekar fyndið að hugsa til þess að flest "leitin að bílnum" atvikin hafa átt sér stað á Háskólasvæðinu.
---
Elsta tilvikið sem ég man eftir var þegar ég mætti í Odda á gamla góða Passatinum og skellti honum í stæði, hljóp inn í Odda og sat þar allan daginn. Rétt fyrir fimm ákveð ég að fara af stað og vitið menn, bílinn er ekki þar sem ég taldi mig hafa lagt honum. Var honum stolið? var það fyrsta sem flaug í gegnum hugann. Ég skimaði í kringum mig og efaðistu um eigið minni.. þar til ég sá bílinn. Hann stóð hálfur upp á gangstétt, á milli umferðaskiltis og annarar bifreiðar. Einhver glöggur háskólamaður hafði sett steypuklumb við annað afturdekkið. Ég hafði þá lagt bílnum í stæði, skellt hurðinni og læst bílnum samviskusamlega. Ég gleymdi þó einu mikilvægu, eða tvennu, bíllinn var hvorki í gír né með handbremsuna á.
---
Svo liðu nokkuð mörg ár og undanfarið hef ég mjög oft leikið leikinn "Leitin að bílnum". Fyrir nokkru var ég að vinna frameftir. Einn Subaru Legacy ljósblár að lit var fyrir utan Gimli þegar ég gekk út úr vinnunni. Ég smellti á forláta takkann sem á að sjá um að aflæsa bílnum en allt kom fyrir ekki, engin ljós blikkuðu og lásinn sat sem fastast. Ég reyndi þá að opna með lykilinum, en það var sama sagan. Lykillinn haggaðist ekki, sama hvoru megin ég reyndi. Á meðan mér rigndi niður var mér litið inn í bílinn, að svo búnu fór ég og athugaði númerplötuna. Þetta var ekki minn bíll.
---
"Leitin að bílnum" var tekin aftur í dag. Ég hreinlega mundi ekki hvar ég lagði bílnum. Ég hafði farið út í hádeginu og algjörlega ruglað skipulaginu/óskipulaginu í höfðinu á mér og gekk fram og tilbaka á stóra malarstæðinu. Allt í einu rak ég augun í bílinn, hann var fremst á stæðinu svo ég gekk samviskusamlega framhjá honum þegar ég gekk inn á bílastæðið. Eftir langan vinnudag er eitt það síðasta sem mig langar að gera er að fara í "Leitin að bílnum".. samt gerist það alltof oft

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

í þá gömlu góður.. áður ég fæddist :)

Fyrir nokkrum árum vandi ég mig á þann ósið að lesa fyrir svefninn - þegar mikið er að gera finnst mér nauðsynlegt að lesa eitthvað algjörlega óskylt því sem ég geri á daglegum basis, bara svona rétt til að hugsa um eitthvað allt annað. Við rúmið mitt þessa dagana eru tvær bækur, önnur eftir Sigurð Líndal um lög og lögfræði og hin er Öldin okkar 1971-1975. Sú síðarnefnda hefur verið í uppáhaldi síðustu kvöld.
---
Stundum skil ég ekki af hverju ég fór ekki í sagnfræði, jú ég skil það svo sem alveg.. ég hef lítinn áhuga á því sem gerðist fyrir aldamótin 1900 :) Öldin okkar er því tilvalin leið til að dýpka sagnfræðiþekkinguna... þar er margt spennandi að finna. Til dæmis:
---
  • 24.október 1975 var í fyrsta sinn sent út sjónvarpsefni í lit, þátturinn var um ballett. Allt íslenskt efni var þó enn sent út svart-hvítt.
  • 1971 varð hugtakið grunnskóli til þegar frumvarp að lögum um grunnskóla var lagt fyrir, lögin voru svo samþykkt 1974 - mín uppáhaldslög :)
  • 18.mars 1971 voru popphljómleikamenn látnir berhátta við komuna til landsins frá Færeyjum vegna gruns um fíkniefnasmygl
  • 1. maí 1971 hentu iðnnemar líkkistu iðnfræðslukerfisins út í Tjörnina í mótmælaskyni við lág nemalaun - hefur engum dottið í hug að endurtaka leikinn?
  • 2.apríl 1971 gáfu SÍNE (Samband námsmanna erlendis) út "Lítið rautt kver fyrir skólanemendur" þar sem nemendum var kennt að standa upp í hárinu á kennurum og lögreglustjórinn í Rvk vakti athygli saksóknara á kverinu þar sem fjallað var um kynlíf á heldur opinskáan hátt. Kverið minnti á rauða kverið hans Mao formanns :)
  • 7.maí 1971 var Hemma Gunn og Þorbergi Atlasyni neitað að spila með landsliðinu í fótbolta nema þeir myndu láta klippa síða hárið
  • 2.júní 1971 var Saltvíkurhátíðin haldin. Talið var að 10.000 manns hefðu sótt hátíðina og engin alvarleg slys urðu á fólki.
  • 3.janúar 1974 hefur fræðimaður áhyggjur af málfari unga fólksins en það var farið að nota orð eins og pía, tjása, pæja, skvísa, bomba, kroppur, gaur, peyi, gaukur og töffari. Jafnframt hafði hann orð á því að unglingar fíli hitt og þetta og pæli í öðru.
  • 7.október hefur áfangakerfi framhaldsskólanna verið tekið í notkun og þá þurfti 132 einingar til að ljúka stúdentsprófi.

--- Að sjálfsögðu gerðist margt annað áhugavert, til dæmis fær Z margar síður þar sem hún virtist ætla að verða eilíft þrætuepli á Alþingi, við áttum auk þess í hatrömmu stríði við Breta um þorskveiðar, Geirfinnur hvarf og Bobby Fischer passaði fyrir Sæma.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Obama Obama Obama

Ég gat ómögulega sofnað í gærkvöldi og fór því að horfa á kosningasjónvarpið.. ég var alveg viss um að Obama myndi taka þetta með annarri þangað til ég hætti að hugsa og fór að hlusta á pælingarnar í sjónvarpinu. Munurinn var stundum svo lítill og ég fékk flashback frá síðustu Alþingiskosningum, þegar ég fór að sofa þegar meirihlutinn var fallinn en vaknaði svo og bláu mennirnir voru enn sterkir...
---
Ég varð virkilega stressuð um að kannski myndi Obama ekki ná þessu, ég kom mér fyrir í sófanum með sæng og kodda og ætlaði aldeilis að fylgjst með þessu. Skottan mín var búin að vera að vakna svo ég átti alveg eins von á andvökunótt, fínt að eyða henni yfir kosningasjónvarpinu... nema hvað. Ég steinsofnaði og vaknaði þegar litla skinnið mitt skreið undir sængina hjá mér í sófanum og klukkan orðin átta að morgni.
---
Ég stökk á fætur (ekki bókstaflega) og hækkaði í fréttunum... jú jú Obama þau í þurrt og ósmurt. Ég er svo mikill sökker að mig langaði bara mest að hafa upp á kauða og óska honum til hamingju, jeminn ég var svo ánægð. En það bíða hans mörg verkefni.. hreinsa upp skítinn eftir elsku Bush.
---
En án gríns þá er þetta gríðarlega gott tækifæri fyrir BNA... hann fékk xtra prik hjá mér í ræðunni sinni þegar hann sagði disabled and non-disabled people.. þið sem pælið í því skiljið hvað ég er að fara - spurning um ofhugsun :)

mánudagur, nóvember 03, 2008

Líf mitt er verkefni..

... var mér sagt áðan :) Flest kvöld fara í það að fara yfir verkefni (með Facebook pásum), þeim fækkar ekki heldur fjölgar ef eitthvað er. Önnin er að verða búin og þá verkefnin líka.. þeas þessi eiginlegu verkefni.
---
Lífið heldur áfram, það er eilífðarverkefni - nokkuð einfalt verkefni. Ég var heima með Maríu í dag og milli þess sem ég fór yfir verkefni fór ég á fésbókina og skrifaði blogg.. ég kom mér samt aldrei í það að birta þau - sum voru bara fyrir mig.. það er svo gaman að vera ég í dag - hin voru bara leiðinleg.
---
Á milli þess sem ég fór yfir verkefni, stúterði fésbókina og skrifaði blogg las ég gömul blogg frá mér. Það er gaman að lesa þau, fyndið að sjá hvað maður hefur þroskaðst frá því í apríl 2005.. staðan mín var líka allt önnur þá - ég stóð líka öðruvísi.. ég var meira svona á tánni :) Ég þakka samt Guði fyrir að bloggið var ekki til þegar ég var yngri...
---
Eníveis, pointless blogg en blogg samt sem áður...
---
Ps. átti ég kannski frekar að blogga um að Norðmenn ætla enn eina ferðina að sjatla málin við Breta? Nauuuuu