sunnudagur, ágúst 31, 2008

Af typpum verður margur api

Akureyri var frábær eins og alltaf - þúsund þakkir fyrir mig....

föstudagur, ágúst 22, 2008

Lífið er ljúft

Hjá mér eins og hjá öllum öðrum skiptast á skin og skúrir í önnum hversdagsins. Undanfarið hafa verið frekar óþægilegir tímar, óvissa með ýmislegt og pirringur yfir öðru. En svo var eins og amma gamla hefði kippt í spotta. Framundan eru skemmtilegir tímar.
---
Ég er búin að fá stöðuhækkun í vinnunni sem þýðir afmarkaðra starf, mun skemmtilegra en það sem ég hef verið að sinna og er sambland af mínu námi og opinberri stjórnsýslu - sem mig hefur lengi langað að læra. Þegar ritgerðin er frá hef ég leyfi til að mennta mig á því sviði með vinnunni til að styrkja mína stöðu. Auk þess mun ég fá mjög góða vinnuaðstöðu, bara fyrir mig.
---
Fyrir stuttu var mér svo boðin kennsla í mínu gamla námi. Ég kenni eitt námskeið ein, helminginn af öðru og hluta af þriðja. Ég hef aðeins kennt með Hönnu minni en núna fæ ég svona "fullorðinskennslu" þar sem reynir á mig og mína þekkingu. Fyrir 6 árum síðan ætlaði ég að verða kennari - reyndar grunnskólakennari :)
---
Húsnæðismálin eru ennþá óleyst en ég hef einhvern veginn engar áhyggjur af þeim núna, ég veit að þetta reddast allt saman á endanum og ég flyt í litla kósý íbúð um áramótin - hvernig sem ég fer að því. Bílamálin eru leyst og við María verðum áfram á yndislega Súbbanum.
---
Það er rúm vika eftir af ritgerðarfríinu mínu og stefnan er á að ná að taka síðustu viðtölin fyrir ritgerðina á þessum tíma. Fjögur viðtöl hér í Reykjavík og 6-8 á Akureyri. Ég hlakka óstjórnlega til þegar ég fer með ritgerðina til að láta binda hana inn - mér finnst alveg yndislegt að það sé þarna einhvers staðar handan við hornið. Hanna mín er nú á ferðalagi með fræðilega hlutann og aðferðafræðina sem ég búin að púsla saman, næst fær hún drög að niðurstöðum. Svo er bara að púsla þessu öllu saman og skila!
---
Ég er bara ótrúlega sátt við lífið og tilveruna eins og hún er í dag.

mánudagur, ágúst 18, 2008

Stundum er nauðsynlegt að flytja

Já, veistu ég held það bara - það er nauðsynlegt að flytja annað slagið og grisja aðeins draslið sem maður safnar. Þegar maður býr lengi á sama stað hættir maður að taka eftir því sem maður þarf ekkert að nota. María var lasin heima í dag svo ég var aðeins að dunda mér í geymslunni á meðan hún fékk vinnutækið mitt lánað aka. tölvuna.
---
Þegar ég flutti hingað fyrir rúmum tveimur árum fannst mér það gríðarlegur kostur hvað geymslan var stór. Þegar ég bjó á Hjónagörðum var geymslan lítið frímerki þar sem ég geymdi allt sem ekki var notað daglega, til dæmis straujárn og þess háttar (íbúðin var sko líka frímerki). Svo flutti ég úr tvistinum yfir í sexuna og fékk aðeins stærri geymslu. Ókosturinn við þá geymslu var að maður þurfti að fara út á bílaplan til að komast í geymsluganginn. Þegar ég flutti þaðan man ég ekki til þess að geymslan hafi verið neitt troðfull af einhverju drasli heldur bara svona týpísku geymsludóti - útilegudótið og svoleiðis.
---
Geymslan hérna í tíunni er svipað stór og íbúðin á Hjónagörðum - eða alla vega stofan :) Þegar ég flutti ákvað ég að gerast sveitó og hafa hluta af geymslunni fyrir búr þar sem gengið er í geymsluna úr eldhúsinu. Nema hvað að búrdraumurin dó fljótlega því ég fór að skella öllum fjandanum þarna inn. Undanfarna mánuði hefur verið nokkuð mál að komast með góðu móti inni blessað geymsluskotið þótt ég hafi ekki fyrir svo löngu rutt öllu þar út, raðað upp á nýtt og hent bílförmum af drasli.
---
Eitt af því sem fær að fjúka þarna inn eru pokar af plastflöskum og áldósum. Sökum þess hve geymslan er "rúmgóð" er farið mun sjaldnar í Endurvinnsluna en í den. Í dag ákvað ég að það væri kominn tími til að fara með þetta í Endurvinnsluna og græja eitthvað á þessu svona á síðustu og verstu tímum. Ég eyddi því drúgum hluta dagsins í að telja flöskur og dósir í nýja poka - ég hafði náttúrulega ekki hugvit í að telja í pokana þegar ég henti þessu inn svo ég fékk það verkefni í dag. Mikið lifandis skelfingar ósköp er það leiðinlegt verk. Nema hvað, í geymslunni minni voru hvorki meira né minna en 350 plastflöskur og 57 áldósir sjáanlegar - sem gera 8 ruslapokar af flöskum og dósum. Það er spurning hvað fleira leynist þarna?

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Svona var sumarið 2008

Nú er sumarið senn á enda, skólinn að byrja hjá drottningunni á föstudaginn og ritgerðarfríið mitt búið eftir 2 vikur. Því er ekki seinna vænna en að rifja upp sumarið....
  • Sumarið byrjaði um hvítasunnuhelgina á Akureyri. Frábært djamm á laugardeginum og fermingarveisla á sunnudeginum.
  • Aftur á Akureyri, brilliant brúðkaup hjá Völlu og Adda. Lopapeysa, hvítvín og berar iljar.
  • Fór í vikuferð til Krítar með Guðrúnu, Sunnefu og Victoríu. Sól, sjór og bjúgur.
  • Fyrsta helgin í júlí var tekin í sumarbústað á Blönduósi með mömmu, Óla frænda, Maríu, Önnu Maríu og Ottó Má.
  • Síðasta helgin í júlí var fyrsta útileguhelgi sumarsins (snemma í því). Fórum á Skagaströnd og tjölduðum í blíðskaparveðri.
  • Versló var svo tekin með Helgunni minni í Varmalandi. Ljósavél, rok og frábær félagsskapur.
  • Sumarbústaður í Brekkuskógi aðra vikuna í ágúst. Skrifaði nokkuð þéttan texta, pirraðist úr í Word, bakaði og bjó til sultu.

Nú eru bara tvær vikur eftir af ritgerðarfríinu mínu og ég verð að vera komin með uppkast af ritgerðinni ef mér á að takast að púsla saman öllu sem ég er búin að lofa mér í. Þann 1.september byrja ég í nýju starfi í vinnunni, fer að kenna eitt námskeið og hluta af tveimur öðrum (ef allt gengur eftir). Aðra hvora helgi mun ég svo þjóna góðu fólki nokkra tíma á dag. Planið er svo að skila ritgerðinni tilbúinni í innanhúslestur 15.desember og útskrifast í febrúar 2009.

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Tannálfurinn

Tannálfurinn var tíður gestur á mínu tímabili þegar allar 8 tennurnar hrundu úr dóttir minni eins og hendi væri veifað. Skottan var fjót að átta sig á því að tannálfurinn væri nú samt ekki til þótt hún fengi 100 kall undir koddann fyrir hverja tönn. Svo fannst henni voðalegt sport þegar Anna María missti fyrstu tönnina sína að fá að vera tannálfurinn hennar - Anna María var svo með svaka sögu um tannálfinn en María gat þagað um sitt hlutverk og ég veit ekki betur en að hún hafi haldið því fyrir sig - um það var alla vega samið.
---
En allt um það, ég man ekki hvort ég fékk eitthvað tannfé þegar ég var lítil né heldur hef ég spurt í kringum mig hvort börn vinkenna minna fá tannfé. Mér fannst hæfilegt að miða við 100 kall eða 1 evru (eftir því hvar við erum staddar) fyrir hverja tönn sem dettur, María setur þetta beint í baukinn sinn svo það verða aldrei miklar umræður um þetta. Í Selinu í morgun var skólafélagi Maríu hæst ánægður með að hafa misst tvær tennur nýlega - hann sýndi mér hvar þær höfðu verið og ræddi heilmikið um ristað brauð og ýmis vandræði sem fylgdu því að hafa lausa tönn.
---
Svo spurði ég hann hvort tannálfurinn hefði heimsótt hann, jú jú hann hafði gert það og kauði fékk 2000 krónur undir koddann! Ég átti ekki til orð og spurði hann hvaða tannálfur kæmi eiginlega heim til hans, það stóð ekki á svari - það er víst sá sem sér um vesturbæinn. Sá er ansi gjafmildur - 1000 krónur á tönn. Mér finnst þetta algjört brjálæði - og ég vorkenni mínu barni ef umræður skapast í skólanum um tannálfa og tannfé - reyndar veit hún að tannálfurinn er ekki til svo það kannski dregur aðeins úr henni. Glætan að ég fari að setja 1000 krónur undir koddann hjá henni fyrir hverja tönn sem hún missir - miðað við vesturbæjartannálfinn þá skulda ég reyndar Maríu 7200 krónur.

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Að koma sér af stað...

... er fáránlega erfitt eftir langt helgarfrí. Ég tók mér frí á föstudaginn því brottför í ferðalagið góða var á ætlun milli kl. 12 og 14 á föstudag. Ég var auðvitað á síðasta snúning eins og stundum áður og með allt of mikið af farangri - nágrannakona mín spurði mig í fullri einlægni hvort ég væri að flytja þegar ég bar dótið niður. Hún skellti upp úr þegar ég sagðist bara vera á leiðinni í útilegu.
---
Örlítil seinkun var á áður auglýstri brottför en Súbbinn og Pattinn brunuðu frá Akranesi kl. 14.30. Tæpum klukkutíma síðar vorum við komin á áfangastað, ég fór sem sagt með Helgu minni og Gulla hennar að Varmalandi. Þar komu líka fjölskyldan hans Gulla og ljósavélin góða. Ég hef sjaldan hlegið eins mikið með ókunnugu fólki en samt fundist ég ekkert ókunnug - enda kom á daginn að Gulli og co eru frá Þyrli í Hvalfirði en þar bjó Siggi hennar mömmu fyrstu árin sín og systir hans Gulla var í Tulsa með Jennýju, Jóa, Óla litla, Óla og Steingerði. Við Helga höfum verið alltof latar að gera eitthvað saman síðastliðin ár, miðað við að við vorum óaðskiljanlegar allan framhaldsskólann. Samt var bara eins og við höfðum ekkert misst neitt samband.
---
Við vorum mest á tjaldsvæðinu en fórum þó og skoðuðum Paradísarlaut og Glanna og skelltum okkur eina ferð í sund - potturinn var með þeim heitari sem ég hef kynnst, ég höndlaði hann ekki þrátt fyrir að vera þokkalega hott gella í dýrari týpunni af bikiní. Áður en við fórum heim í gær brunuðum við í Hreðavatnsskála og fengum okkur feitan borgara - við vorum náttla lítið búin að borða yfir helgina.
---
Helga, Gulli og þið öll hin þúsund þakkir fyrir frábæra helgi.