föstudagur, desember 31, 2010

Árið 2010

Þegar skipslúðrarnir blésu inn 2010 á Ísafirði á gamlárskvöld sá ég fyrir mér skemmtilegt ár, ár sem ég hafði lengi beðið eftir. Fátt á árinu hafði ég hins vegar getað spáð fyrir um.
---
Í upphafi árs sá ég fram á nýtt líf á Hagamelnum þar sem grunnurinn að framtíðinni væri lagður. Ég var í stjórnunarstöðu í vinnunni og ætlaði að ljúka MA ritgerðinni áður en árið væri úti, eins og svo oft áður. Framtíðin var björt og kerlingin bara þokkalega bjartsýn.
---
Árið sem er að líða var allt í senn skemmtilegt, erfitt, flókið og einfalt. Ég hélt upp á 29 árin með því að segja upp vinnunni minni og sækja um nám, þrátt fyrir að um erfiða ákvörðun væri að ræða fylgdu því mörg tækifæri - ég fékk að kenna meira en nokkru sinni áður og kynntist skemmtilegu fólki í náminu svo ég tali nú ekki um tækifærin til að heimsækja Akureyrarskvísurnar mínar einu sinni í mánuði. Ég hélt áfram í hlutastarfi á skrifstofunni við það sem mér finnst skemmtilegast, kennslumálin.
---
María ákvað að hætta í ballettinum og kórnum sem höfðu alltaf verið fastir póstar í okkar lífi, þess í stað vildi hún læra á hljóðfæri og stendur sig með sóma með klarinettuna að vopni. Hún er svo klár og dugleg þessi elska að lítið virðist stoppa hana - ég sé hana fyrir mér sem vísindamann í framtíðinni sem spilar á hljóðfæri sér til dægrastyttingar.
---
Nú stöndum við mæðgur í svipuðum sporum og fyrir 2 árum síðan, óvissan með framhaldið er óþægileg og ekki það sem lagt var með í upphafi. Sú stutta hefur þurft að ganga í gegnum miklar breytingar á stuttum tíma, eitthvað sem ég ætlaði aldrei að leggja á hana.
---
En á áramótum á maður víst alltaf að setja sér áramótaheit, ég er mikið búin að hugsa þau. Það er margt sem mig langar og sumt ég framkvæmt ein og óstudd, stundum er best að einblína á það. Áður en árið 2011 verður úti ætla ég að klára MA ritgerðina mína, klára kennsluréttindin, hætta að reykja og jafnvel skella mér í ræktina og ná af mér nokkuð mörgum kílóum.
---
Eníveis, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

fimmtudagur, ágúst 12, 2010

Drög að fyrsta niðurstöðukaflanum send!

Jíbbý! Mér tókst að merja saman fyrsta niðurstöðukaflanum og senda hann til leiðbeinandans. Næstu skref eru að klára annan kafla en hann er um skilning og skilgreiningar á hugtakinu "skóli án aðgreiningar" sem er í raun sérstakt áhugaefni mitt :)
Meennn þetta er allt að skríða í land.. eftir 5 ár!

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

....

Jæja, þá fer vonandi að líða að lokum þessarar ritgerðarvinnu. Einn kafli fer í skil á morgun (aka annað kvöld) og svo hrannast þeir vonandi inn.. og hviss, bamm og búmm - kvikyndið í prentun 10.september! Sem er nákvæmlega eftir einn mánuð - sem væri lítið mál ef ég væri ekki byrjuð að vinna og að undirbúa annað nám... en ég ætla að taka þetta með báðum og skila.
---
Verkefni vetrarins eru spennandi, talsverð kennsla, skrifstofuvinna, skóli og jafnvel rannsóknaastúderingar. Ég hlakka óstjórnlega til þegar ritgerðarskrímslið verður komið innbundið og búið. Mín tilfinning er að því fylgi óstjórnlega mikið frelsi og fullt fullt af tækifærum.
---
Annars panta ég eina lesandann minn í yfirlestur fyrstu vikuna í september :)

miðvikudagur, ágúst 04, 2010

Það er komin nótt...

... og ég á að vera sofandi. Einhvern veginn tekst mér samt alltaf að ná mér í betra flug þegar nóttin skellur á. Ég fór annars á fund með leiðbeinandanum mínum í kvöld, ég er nokkuð viss um að hún er einn sá besti - fundurinn fór fram á kaffihúsi í miðbænum yfir latte. Notalegt var það.
---
Annars er allverulega farið að styttast í að vinnurútínan hefjist að fullu aftur sem þýðir að spýta verður ansi fast í alla lófa til að ná þessari blessun í prentun á réttum tíma. En miðað við planið sem ég lagði upp með í dag þá getur þetta alveg gengið bara þokkalega. Hanna fær kafladrög á miðvikudag eftir viku og þá eru bara 2 - 3 kafladrög eftir (aðeins eftir því hvernig efnið liggur). Smotteríslagfæringar og þá er þetta búið - smotterís verður reyndar alltaf mikið á endanum en ég ætla að hugsa það sem smotterís.
---
Ég þoli samt ekki þegar verslunarmannahelgin er búin og veturinn nálgast, ég kvíði vetrinum pínkupons. Ég veit ekki hvort að ákvarðanirnar sem ég tók í vor voru þær réttu - ég reyni að finna Pollyönnu og komast í gegnum þetta - amk í vetur. Ef til vill átti ég bara að standa við það sem ég ákvað en ég gerði það ekki svo að ég þarf að bíta í það súra ... Ég hef þó alla vega skemmtilegu lotunar í HA til að rífa upp stemmarann!
---
Pælið samt í því hvað það verður sweet þegar október bankar upp á, 5 ár frá því ég kláraði BA og engin MA ritgerð lengur hangandi aftan á manni!

sunnudagur, júlí 25, 2010

Tíminn líður...

... og ég eldist ekki neitt. Einhvern veginn hefur sumarið farið frá mér eins og undanfarin 4 ár - eða síðan ég byrjaði á þessar elsku. Ég á svo erfitt með að halda mig við efnið og klára þetta þó svo að ég viti að verðlaunin eru mörg þegar þetta verður orðið innbundið. Ég mun hoppa hæð mína af gleði, svo mikið er víst. Það er líka alveg á tæru að ef að ég verð ekki svotil búin með þetta þegar ég byrja aftur að vinna að það fer allt á annan endann, ég hef þrjár vikur til að loka deildarstjórastöðunni svo sú skemmtilega geti getið við henni og ég byrjað í öllu þessu nýja sem ég er búin að lofa mér í. Ég hlakka samt ótrúlega mikið til vetrarins, ég hlakka til að fara norður og læra að verða kennari, ég hlakka líka til að kenna meðfram því í vetur og skipuleggja næstu skref námslega séð.
---
Meðfram ritgerðarbrasinu hef ég fengið stórgóða hugmynd af doktorsverkefni, en hugmyndin er ennþá leyndó á milli mín og kollega míns á Akureyri :) Mig langar að byrja strax og ekki seinna en í gær en til að ég eigi möguleika á því verð ég að klára þessa blessuðu ritgerð. Nýja verkefnið er samt meira í anda grunnámsins en MA námsins - en ótrúlega spennandi samt sem áður ...
---
Þessa dagana er ég að greina gögnin mín, eitthvað sem ég hélt að ég gæti gert á nótæm - en það er ótrúlega tímafrekt og krefst sjálfsaga sem mig skortir en meðfram greiningunni hef ég oft og iðulega "lent" á netinu og fundið ný gögn sem eiga það til að afvegaleiða mig ... en spennandi samt sem áður :)
---
Markmiðið núna er að klára greininguna í þessari viku og helst komast af stað með niðurstöðukaflana, skrifa þá í heilu lagi. Einhvern veginn tókst manni oft að skrifa fínustu ritgerðir á fáum dögum svo ég hef ákveðið að hugsa um niðurstöðurnar sem þrjár 20 síðna ritgerðir. Það á ekki að vera mikið mál? Eða hvað?

sunnudagur, maí 16, 2010

Það fer að smella í mánudag..

.. og afurð helgarinnar er tæplega eitt afritað viðtal og grunnur að niðurstöðukafla. Föstudagurinn var skrítinn, eiginlega svona skólaskrítinn. Ég byrjaði daginn á því að skoða gömul viðtöl við einn aðila sem ég fór að hitta aftur á föstudaginn. Um tíuleytið skundaði ég niður í skóla og prentaði út smotterí sem ég þurfti að hafa með mér. Þeir vinnufélagar sem ég hitti ráku mig í burtu svo ég stoppaði stutt. Því næst brunaði ég niður í bæ, fann mér gott bílastæði og byrjaði að lesa - svona koma mér betur í gírinn.
---
Viðtalið gekk vel og ég brunaði aftur upp í skóla að hitta leiðbeinandann minn. Við skunduðum svo út í Þjóðminjasafn og funduðum þar. Ótrúlega ljúft og gott. Eftir fundinn skundaði ég heim og byrjaði að afrita, dauði og djöfull það. En við ræddum að sjálfsögðu um heima og geima og ég fékk mjög svo góða hugmynd við afritunina, ég hugsa að eitt þemað hjá mér verði mismunandi skilningur stjórnsýslustiga - hljómar spennó, æ nó :)
---
Næsti leiðbeinandafundur er á fimmtudag og þá er eins gott að vera komin með eitthvað bitastætt handa. Eina sem böggar mig núna er að halda mig við rannsóknarspurningar, mig langar svo mikið meira að vera út um allt og alls staðar.

fimmtudagur, maí 13, 2010

Nýr dagur - nýtt viðtal

Á morgun þarf ég að súpa seyðið af því að hafa verið svona lengi með ritgerðina mína, í bókstaflegri merkingu.. fyrir nokkrum árum tók ég viðtal við sérfræðing um löggjöfina hvað varðar skóla. Í viðtalinu vísar hann sífellt í frumvarpsdrög sem unnið er að og þær breytingar sem þær eiga að færa fram - frumvarp sem varð að lögum rétt fyrir sumar árið 2008....
---
Þann mann ætla ég að hitta á morgun, kl 11 sharp! Hlakka reyndar mikið til enda mjög fróður maður og getur eflaust sagt mér margt nýtt og kennt mér margt. Þegar viðtalinu við hann er lokið á ég eftir viðtöl við tvo krakka og foreldra þeirra og þá, ÞÁ verður gagnasöfnun lokið!!!! Ég er að gæla við það að ná sambandi við þessa krakka um helgina og ljúka þessu af. Mikið hlakka ég til!
---
Þegar ég verð komin með öll gögnin tilbúin til úrvinnslu verður svo lítið eftir þannig séð, ég er búin að greina mest allt sem ég hef safnað hingað til og það lookar bara nokkuð vel. Það sem ég þarf að gera núna er:
Taka viðtölin (5 talsins)
a. Fljótgert, erfiðast að finna tíma. Hvert viðtal tekur max klukkustund.
Afrita og frumgreina
a. Afrita er leiðinlegt og svo er ég orðin svo hægfara
b. Frumgreinining er skemmtilegt, hugurinn fer á flug. Síðast endaði ég í lagaflækjum og þá var gott að hafa löglærðan mann að læra við borðstofuborðið.
Beita túlkunafræðinni á þau
a. Skemmtilegt en tímafrekt. Mikill lestur fram og tilbaka en pælingar bæta lesturinn.
Skrifa drög að niðurstöðuköflum
a. Sjálfsagt skemmtilegt, reyndar hef ég þegar gert einn úr þeim gögnum sem ég var með 2 008 en ég nota hann aðeins til hliðsjónar í dag. Sá kafli er eiginlega ramminn af því sem mig langar að gera.
b. Fyrsti niðurstöðukaflinn verður um réttinn til náms
c. Annar niðurstöðukaflinn verður um krakkana mína
d. Þriðji verður um formlega og óformlega menntun
Updatea fræðilega hlutann
a. Sennilega hefur eitthvað gerst frá 2008 og því rétt að koma því til skila...
Updatea aðferðafræði hlutann
a. Ég þarf að máta mig betur inn í þekkingarfræðina og koma af stað vænni heilasuðu.
Fullvinna niðurstöður
Skrifa umræður
a. Klárlega skemmtilegasti kaflinn - tvinna saman niðurstöður og fræðilega hlutann
Skrifa inngang
a. Drögin eru reddí - mér hefur aldrei þótt sérstaklega erfitt að skrifa inngang
Skrifa útdrátt
a. Ekki mín sterka hlið - ég þoli ekki lélega útdrætti.
Ef til vill er þetta óþolandi blogg er það heldur mér lifandi. Það er alveg fáránlega erfitt að setjast niður dag og dag, eða kvöld og kvöld að vinna við þetta. Áður en ég veit af verður komið sumarfrí og þá á ég að vera svo til búin með þetta!
---
Það er til svo mikils að vinna að klára þetta, það felst eitthvað svo mikið frelsi í því. Ég fæ þá loks að verða "löggiltur" stundakennari en ekki á sífelldum undanþágum, ég fæ að grúska áfram með mitt og sækja svo um áframhaldandi nám.
---
Annars, þá held ég að þetta sé bara fyrir þig Valla :)

föstudagur, apríl 23, 2010

Afritun.. og aftur afritun

Eitt það leiðinlegasta sem ég veit er að afrita viðtöl, samt finnst mér gaman að grúska í þeim þegar ég hef afritað þau en að komast í að ýta á "play" er dauði og djöfull.
---
Ég ákvað að taka mér frí í vinnu í dag fyrir ritgerðina og ætlaði að vinna daginn í dag af mér með því að vinna í gær, vinnan í gær átti að taka stuttan tíma og þegar ég fór í gær átti ég bara smotterí eftir til að klára vinnudaginn í dag. Ég ákvað því að mæta í morgun rétt aðeins til að klára verkin fyrir helgina og vera fram að hádegi í allra mesta lagi en þegar klukkan var orðin 11 og ég ekki byrjuð á því eina sem ég ætlaði að gera var nokkuð ljóst að ég myndi ekki fara heim í hádeginu - einhver veginn flæktust öll hin verkin fyrir mér og gekk út úr vinnunni rúmlega þrjú.
---
Þá var planið að bruna heim og byrja að afrita eins og enginn væri morgundagurinn. Afritunin hefur ekki gengið "sem skildi" ...

mánudagur, apríl 05, 2010

Re-connecting...

Ég reyni og það gengur hægt.. mjög hægt að tengjast aftur blessaðri ritgerðinni. Frá því ég opnaði fileinn aftur hef ég lesið nýjar greinar og nýjar bækur - safnað í sarpinn til að update fræðilega hlutann var sem svo gott sem tilbúinn 2008. Síðasta vika hefur farið í að greina gögnin mín, gekk hægt í fyrstu.. ég var smá tíma að setja mig inn í greiningaraðferðirnar aftur. Einföld þemagreinining hefði svo sem verið fín en mig langar að fara dýpka, túlka dýpra og spá meira.
-----
Einn kosturinn við það að hafa verið 5 ár að skrifa MA ritgerð er þroskinn sem fylgir með - ég hef þroskast mikið á þessum árum og pælingarnar hafa náð lengra. Ég hugsa að ég hefði klárað á sínum tíma hefði þetta orðið hrátt og eingöngu spilað á reynslu strákanna minna, mig langar að fara dýpra núna og meira í heimspekina - hver á réttinn til náms? Hver hefur valdið? og síðast en ekki síst, hvað er réttur til náms?
----
Einn ókosturinn hins vegar að vera svona lengi er að á sama tíma og ég er að skrifa er grunnskólalögum breytt og vegamikil breyting leyfi til að reka úr skóla ótímabundið - sem var ekki í eldri lögum. Ég þarf því að endurskoða gögnin mín og við greininguna hef ég áttað mig á að ég þarf að fara amk aftur á tvo staði og taka ný viðtöl. Ég giska á að ég eigi eftir að taka 8 viðtöl til að geta lokað þessu, ca 4-5 við unglinga og rest við barnavernd, mrn og borgina.
-----
Annars sakna ég þess að hafa ekki haft áhuga á meiri heimspeki menntunar á sínum tíma, ég vil kenna leiðinlega heimspekikennaranum í Borgó um það - ég skildi ekki tilganginn í því að læra heimspeki og fannst fátt leiðinlegra. Heimspekin er samt sem áður ótrúlega merkilegt og skemmtileg ef maður leggur sig fram við að skilja hana og tengja hana við raunveruleikann.
----
Eníveis, næstu mánuðina ætla ég að pústa um ritgerðina mína - keep posted!

miðvikudagur, mars 24, 2010

Soddan er nú það..

"Ég hlakka mikið til að halda fullt af saumaklúbbum, halda pizzupartý fyrir Maríu og vinkonur hennar, opna hvítvínsflöskur og hafa það kósý. Over and out"
Þetta skrifaði ég 1.september 2009 - kvöldið áður en við fluttum inn á Hagamel... hvítvínsflöskurnar hafa verið þrjár eða fjórar, pizzupartýin hafa verið nokkur en bara tvö fyrir vinkonur Maríu og saumaklúbburinn hefur verið einn. Það eru nú engin sérstök afköst á hvað... tæpum 7 mánuðum!
Ekki það, mér finnst ég hafa alveg nóg að gera en samt langar mig svo margt. Ég bíð spennt eftir sumrinu og sumarfríinu - kerlingin sótti um bústaði hjá BHM en ég er nú nokkuð viss um að ég fæ engan í ár, frekar en í fyrra. En bara að hafa það kósý og þurfa lítið að skipuleggja dagana nema þá út frá bakstri og sólskini.. ég fíla það!
Eníveis, kannski maður eigi bara að hætta að henda einhverju hérna inn en æi.. ég veit ekki hvort ég tími þv