laugardagur, nóvember 21, 2009

Hver er ég?

Það er föstudagskvöld og ég sit lurkum lamin í sófanum með tölvuna í fanginu. Ég er búin að dotta svo mikið frá því ég kom heim úr vinnunni að ég get ekki sofnað. Samt langar mig að fara að sofa en einhver óþekktarangi í mér stoppar mig.
---
Lífið hefur ekki verið nein lognmolla undanfarið frekar en áður. Ég er mikið búin að spá í því hvernig lífið var og er hjá öllum hinum sem aldrei lenda í neinu, þessir "hinir" eru spennandi fólk - eða hvað? Ég er mikið búin að vera að spá í gömlu dagana undanfarið, stundum er eitthvað sem triggerar það og stundum ekki. Það eru skrítnar tilfinningar sem fylgja því að líta til baka, ýmist gleði, sorg eða jafnvel reiði. Fortíðin gerir okkur að því sem við erum í dag, það er nokkuð ljóst.
---
Annars er ég á mjög skemmtilegu námskeiði í vinnunni um samskipti stjórnenda og vinnusálfræði. Í fyrsta tímanum fylltum við út spurningalista og í dag fengum við afhent samskiptamat út frá þessum svörum okkar. Ég var nokkuð sammála því sem stóð um mig, samstarfskona mín var ekki eins sannfærð og ég. Matið var eitthvað á þessa leið: Privatlífið: Ég er opin persóna sem á auðvelt með að tjá mig, hvort sem það er á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Ef mér finnst að mér vegið er ég fljót upp á lagið og verð reið eða sár. Fólk veit ávallt hvar það hefur mig. Starfið: Ég hef metnað fyrir því sem ég geri og vil gera hlutina vel en að sama skapi vil ég sjá árangur. Ég á almennt góð samskipti við aðra starfsmenn en ef ég fæ gagnrýni sem mér finnst ósanngjörn verð ég sár og reið innra með mér. Ég á erfitt með að setja samstarfsfólki mörk. Útávið: Í samskiptum við ókunnunga get ég falið feimni mína og hef góða þjónustulund. Ég á auðvelt með að leiðbeina fólki en mér hættir til að taka ábyrgðina af þeim.
---
Ég er sammála mjög mörgu í þessu mati en ekki öllu. Ég held til dæmis að oft gefi ég fólki ekki rétt skilaboð um það hvar það stendur en ég veit að ég er fljót upp ef mér sárnar eða ef ég verð reið. Ég er að sama skapi yfirleitt fljót tilbaka.... held ég.
---
Er þetta ég?