þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Maríuhænan

Litla barnið mitt á í svo krúttlegri baráttu við sjálfa sig og mig móður sína. Hún er ekki 7 ára heldur 7 ára að verða 8 ára og ef maður er nákvæmur eins og meyjan er gjarnan þá segir maður að hún sé 7 og hálfs. Hún er óttleg mömmustelpa og ofdekruð eftir því en að sama skapi vill hún ekkert hafa mömmu sína með í öllum aðstæðum.
---
Nýjasta dæmið er föstudagskvöld með Sunnefu... það hefur lengi verið á draumalistanum að eyða föstudagskvöldi með Sunnefu - ekki fá áfall, hún er ekki að fara á B5 :) Þær ætla saman í sjónvarpssal og fylgjast með beinni útsendingu, minnar nærveru er ekki óskað. María heldur nefnilega að það verði skemmtilegra án mín.
---
Annað dæmi er sokkabuxurnar við grímubúninginn. Við keyptum (saumum eftir einhver ár) Djöfulinn fyrir elsku litluna mína. Sokkabuxurnar þurftu að sjálfsögðu að vera rauðar í sama litatón og búningurinn. Ég fann þessar fínu sokkabuxur í Hagkaup... sem hittu ekki í mark heldur vildi meyjan fá rauðar nælon sokkabuxur.
---
Enn annað dæmi er Hello Kitty húfan hennar. Fyrir nokkrum dögum vorum við á hraðferð út um morguninn og fundum ekki húfuna hennar. Nema hvað, ráðagóða móðirn stökk niður í herbergi og fann Hello Kittý húfu með ásaumuðu nafni meyjunnar og skellti henni á höfuðið á barnið. Meyjan sagði ekkert heldur tók af sér húfuna og snéri henni öfugt og setti hettuna yfir. Amman kom svo og sótti barnið í skólann og fór með hana í ballett, þar átti hún í samræðum við vinkonu sína um blessaða húfuna.. amman fékk þá að heyra að húfan væri "ógeðslega barnaleg" og "hallærisleg". 
---
Smá uppreisnarangi er fastur í afturendanum á henni þessa dagana - ég skrifa það á mömmuleysi undanfarinna vikna enda var hún alltaf með þennan anga fastan í sér eftir prófatíð í den. Krúttsprengjan mín er samt svo lítil þegar á reynir og vill alls ekki fara of langt frá múttunni sinni.. hlýtur að vera erfitt að finna sitt rétta hlutverk þegar maður vill verða sjálfstæður mömmuangi ;)

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Heima að heiman

Svoleiðis líður mér pínu þessa dagana, mér finnst ég vera í heimsókn  - heima en samt að heiman. Ég á lítið krúttlegt herbergi með Maríuhænunni minni, mamma þvær fötin mín og ég elda matinn fyrir heimilið.  Saman göngum við svo frá og höldum öllu þokkalegu. Ég þarf að klæða mig þegar ég búin í sturtu eða vefja utan mig handklæði til að ganga niður í herbergið - stundum langar mann bara að hlaupa um allsber - now the feeling?
----
Mig langar bara að flytja.. ég er samt í algjörri klemmu, það er gott að mörgu leyti að búa hér en samt langar mig að flytja.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Mamman Ásdís

Fyrir 8 árum síðan og nokkrum dögum betur komst ég að því að ég væri ólétt. Fyrsta sem ég gerði var að hugsa, ofhugsa og senda Helgu sms með tíðindunum.. hún hafði sem sagt rétt fyrir sér. Á þessum 8 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar.
--
María fæddist 7 mánuðum seinna, lítil bolla sem átti að fá allt það besta sem lífið gæti boðið upp á. Aðstæður voru oft erfiðar, og ég jú algjör krakki oft og tíðum en samt sem áður hefur þessi elska blómstrað og orðið að einu besta og klárasta barni sem um getur.
---
Frá því hún var lítil hefur hún alltaf verið mikill hugsuður og rólyndistýpa, hún er ekkert fyrir að flýta eða ana út í neina vitleysu. Það tekur allt langan tíma hjá Maríu, sama hvað það er - klæða sig, borða, læra eða bara greiða hárið. Þetta þarf allt að gerast í réttri röð og á réttum hraða.
---
Mamman stökk í foreldraviðtal í hádeginu á föstudag, vinnan hefur átt hug hennar allan undanfarnar vikur svo skottan var orðin ansi "mömmuveik". Það var mikill spenningur á heimilinu fyrir foreldraviðtalinu, María hafði orð á því á fimmtudagskvöldinu að kannski gæti hún fengið A í öllu en henni fannst það nú hæpið.
---
Í foreldraviðtalinu fengum við í fyrsta skipti vitnisburð, þar fengum við það skjalfest að við eigum lítinn snilling. Hún fékk að sjálfsögðu A í öllu. Hún les 170 atkvæði á mínútu en markmiðið er að þau nái 60-110 atkvæðum við lok 2.bekkjar, rúllar upp stærðfræðinni með annarri, skrifar mjög vel og sýnir mikinn þroska í skólastarfinu. Meðal annars lætur hún kennarann vita þegar hún hefur ekki vinnufrið og kemur með skemmtileg komment í umræður.
---
Eftir foreldraviðtalið fórum við mæðgurnar á bæjarrölt. Við byrjuðum í Þjóðmenningarhúsinu þar sem forvitnagenið í barninu fór á fullt og hver einasti krókur og kimi í húsinu var skoðaður - meira að segja salernin. Úr Þjóðmenningarhúsinu fórum við á Sólon þar sem sú stutta fékk sé köku og kakó - meðan hún slafraði kökunni í sig minnti hún helst á karlmann þar sem hún sagði ekki orð nema allt í einu poppaði út úr henni: "Hrikalega góð kaka mamma, smakkaðu" og rétti mér bita með skeiðinni.
---
Við enduðum svo bæjarröltið í Eymundsson þar sem keyptar voru bækur fyrir bókaorminn. Kvöldinu eyddum við svo fyrir framan imbann að háma í okkur nammi og spila Rommý og Asna. Nú er sunnudagur, á morgun er vinnudagur - það er langt síðan við höfum eytt heilli helgi saman, þrátt fyrir að búa saman. Mamman er alltaf of upptekin til að vera mamma, hún er komin með nóg af því.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Ofurbloggarinn..

... er tekinn til starfa og bloggar alltof sjaldan eins og honum var von og vísa - Ásdís ofurbloggari. Þrátt fyrir að búa í sveit hefur lífið bara verið sérdeilis skemmtilegt undanfarið, ég vinn eins og mófó, kenni helming af kennsluskyldu fastráðins kennara, el upp yndislega dóttir og stunda heimsóknir í vesturbæinn grimmt við nokkra gleði heimamanna að ég tel.
---
Ég sakna vesturbæjarins ógurlega mikið og þægindana við að búa þar - það er ákveðinn lúxus að búa hér en samt sem áður er ákveðinn lúxus að búa einn. Það kemur að því að ég verð fullorðin aftur - gifting í sumar svo það eins gott að vera orðinn nokk fullorðinn þá - DJÓK! Ég er ekki ennþá búin að koma okkur nógu vel fyrir - einhvern veginn fer frítíminn minn í allt annað en að taka upp úr kössum, sortera og henda. Þegar María er hjá Nonna geri ég aðra hluti ;)
---
Ný ríkisstjórn tók við í dag eins og einhverjir hafa tekið eftir - pólitíska Ásdís sem reifst og rökræddi um pólitík svo dögum skipti hér í den nennir bara varla að pæla í þessu. Ef ég þarf fréttir þá fer ég í mat og hlusta á samræður fólks í kaffistofunni - jú og tek þátt stundum.
---
En hér hafið þið blogg, og kommentið svo!