mánudagur, desember 14, 2009

Jóla jóla

Jólin skella á eftir nokkra daga - alltaf lofa ég sjálfri mér að næstu jól ætli ég ekki að hafa eins mikið að gera eins og þau síðustu. Einhvern veginn tekst mér samt aldrei að standa við það, ég er með ferlegt samviskubit gangvart Maríu að hafa ekki jólast nóg. Sú var tíðin að Ásdísin skreytti allt í nóvember - og líka jólatréð! Nú eru nokkrir dagar í jól og eitt lítið og aumingjalegt aðventuljós er í glugganum. Þessu verður bætt úr næstu daga - ferð í Sorpu plönuð á morgun, ný gluggatjöld og jólahreingerning til að hægt sé að skreyta kotið.
----
Ég er samt ekki komin í neitt jólaskap, ekki fyrir fimmaura - jólaskapið minnkar einhvern veginn með árunum held ég. Ég hlakka ekki til jólanna neitt sérstaklega nema þá bara samverunnar með fjölskyldu og vinum. Ég á eftir að sakna systu og mömmu mikið. Jólin 1999 var ég úti á Flórída og grét af heimþrá á aðfangskvöld, þar var allt svo öðruvísi - maturinn var ekki fyrr en kl 21 um kvöldið og lítil jólastemming. Jólin 2006 fór Maja til Tenerife á undan okkur mömmu, það voru með lélegri jólum - góður tími fór í símtal á milli Spánar og Íslands á aðfangadagskvöld. Jólin í ár verða samt góð, ég er alveg viss um það - en þau verða öðruvísi.
----
María er hefur litlar skoðanir á því hvað hana langar að fá í jólagjöf, þegar ég spurði hana yfir kvöldmatnum sagðist hún vilja fá Íslandsbanka ef ég myndi gefa Leif einkaþotu og þyrlu - sem er engin hætta á svo ég er nokkuð lost hvað ég á að gefa henni.
----
Enveis, stutt í að ástarpungurinn minn láti sjá sig í jólafrí ... 5 vikur eru allt í einu orðnar að örfáum dögum.

laugardagur, nóvember 21, 2009

Hver er ég?

Það er föstudagskvöld og ég sit lurkum lamin í sófanum með tölvuna í fanginu. Ég er búin að dotta svo mikið frá því ég kom heim úr vinnunni að ég get ekki sofnað. Samt langar mig að fara að sofa en einhver óþekktarangi í mér stoppar mig.
---
Lífið hefur ekki verið nein lognmolla undanfarið frekar en áður. Ég er mikið búin að spá í því hvernig lífið var og er hjá öllum hinum sem aldrei lenda í neinu, þessir "hinir" eru spennandi fólk - eða hvað? Ég er mikið búin að vera að spá í gömlu dagana undanfarið, stundum er eitthvað sem triggerar það og stundum ekki. Það eru skrítnar tilfinningar sem fylgja því að líta til baka, ýmist gleði, sorg eða jafnvel reiði. Fortíðin gerir okkur að því sem við erum í dag, það er nokkuð ljóst.
---
Annars er ég á mjög skemmtilegu námskeiði í vinnunni um samskipti stjórnenda og vinnusálfræði. Í fyrsta tímanum fylltum við út spurningalista og í dag fengum við afhent samskiptamat út frá þessum svörum okkar. Ég var nokkuð sammála því sem stóð um mig, samstarfskona mín var ekki eins sannfærð og ég. Matið var eitthvað á þessa leið: Privatlífið: Ég er opin persóna sem á auðvelt með að tjá mig, hvort sem það er á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Ef mér finnst að mér vegið er ég fljót upp á lagið og verð reið eða sár. Fólk veit ávallt hvar það hefur mig. Starfið: Ég hef metnað fyrir því sem ég geri og vil gera hlutina vel en að sama skapi vil ég sjá árangur. Ég á almennt góð samskipti við aðra starfsmenn en ef ég fæ gagnrýni sem mér finnst ósanngjörn verð ég sár og reið innra með mér. Ég á erfitt með að setja samstarfsfólki mörk. Útávið: Í samskiptum við ókunnunga get ég falið feimni mína og hef góða þjónustulund. Ég á auðvelt með að leiðbeina fólki en mér hættir til að taka ábyrgðina af þeim.
---
Ég er sammála mjög mörgu í þessu mati en ekki öllu. Ég held til dæmis að oft gefi ég fólki ekki rétt skilaboð um það hvar það stendur en ég veit að ég er fljót upp ef mér sárnar eða ef ég verð reið. Ég er að sama skapi yfirleitt fljót tilbaka.... held ég.
---
Er þetta ég?

mánudagur, september 28, 2009

Now 23

Helgin sem leið var ótrúlega skrítin - ég hef ekki átt svona helgi síðan 2008.. alls ekki að kvarta samt. Ég var lítið heima og gerði það sem mig langaði þegar mig langaði - meira að segja þá lagði ég meðan flestir hentu í sig kvöldmat á laugardaginn. Skemmtileg helgi með góðu fólki - alla dagana. Það vantaði samt einn stóran gorm - það hefði verið ótrúlega notalegt að hafa hann hjá sér, því er ekki að neita. Sunnefa reynir sitt besta að koma í hans stað :) Ég fæ knús í nóvember.. ekkert svo langt þangað til.
---
Annars er alltaf nóg að gera hjá mér, ég ákvað að taka að mér smá kennslu í vetur eftir að hafa tekið ákvörðun um það að kenna ekki neitt í vetur heldur ljúka við MA ritgerðina mína og nota allan tímann í hana. Það er bara svo gaman að kenna... ég elska það. Ég elska nemendur sem vilja læra og hafa áhuga á efninu.. ég elska "kennarasleikjurnar".
---
Eníveis, fullt sem mig langar að skrifa en ekkert sem mig langar að birta :)

laugardagur, september 19, 2009

Time flies

Milli þess sem ég hrærði í tertur og dúllaði mér á facebook hef ég verið að lesa í gegnum gamlar færslur á blogginu mínu. Stundum skellti ég upp, stundum skildi ég ekki hvað ég var eiginlega að skrifa um og stundum fékk ég tár í augun. Ég er búin að blogga hérna á blogspot í fjögur og hálft ár. Fyrst þegar ég bloggaði sagði ég frá öllu sem ég gerði en smám saman hefur það þróast út í hugsanir og pælingar með daglegu ívafi.
---
Það er samt alveg ótrúlegt hvað það er fljótt að fenna yfir hinar ýmsu minningar. Til dæmis...
  • hef ég ekki getað drukkið neitt magn af rauðvíni síðan Valla og Addi útskrifuðust úr HÍ 2006.
  • Ég hitti pabba síðast í júní 2005.
  • Í júlí 2005 auglýsti ég eftir laganema til að lesa yfir lagakaflann í BA ritgerðinni - enginn hafði samband við mig þá :)
  • Í október 2005 skilaði ég inn BA ritgerðinni minni, bauð upp á 100 lítra af áfengi og skemmti mér þrælvel.
  • Í nóvember 2005 var ég virkilega að spá í því að skrá mig í Vinstri græna.
  • Í janúar 2006 byrjaði ég að vinna í tímavinnu á skrifstofu félagsvísindadeildar sálugu.
  • Í mars 2006 breyttist margt og við María urðum tvær í kotinu.
  • Í maí 2006 kvaddi elskulega amma mín þennan heim.
  • Í júlí 2006 fór ég í ógleymanlega ferð til Chile og heimsótti Sunnefu, saknaði Maríuhænunnar minnar mikið en naut þess samt að vera hjá Sunny.
  • Í september 2006 fórum við Hildur Halla á Sálarball í Mosó.
  • Í nóvember 2006 giftu Maja og Beggi sig.
  • Í janúar 2007 fór ég í 25 ára afmæli Völlunnar minnar og á þorrablót í Eyjafirði.
  • Í mars 2007 hitti ég Blönduósstelpurnar á Vegamótum - erum nokkrum sinnum búnar að spá í að hittast aftur :)
  • Í nóvember 2007 missti ég símann minn ofan í kaffibollann minn á kaffistofunni í Odda.
  • Í desember 2007 fór ég í ógeðslega hálskirtlatöku og flutti inn til Maju og Begga.
  • í mars 2008 fór ég á Mosódjamm með öllum gömlu félögunum.
  • Í mars 2008 fór ég með HÍ til Ísafjarðar og slasaði mig á spjaldhryggnum eftir tvær byltur í snjónum þar (sá einn sætan og féll bókstaflega fyrir honum).
  • Í apríl 2008 missti Stjarna gamli hamsturinn okkur einn fót.
  • í júní 2008 fór ég í skrallaði ég á Akureyri og svaf í lopapeysu.
  • Í október 2008 hófst rekstur kaupfélagsins við Eggertsgötu.
  • Í nóvember 2008 var ég í algjörri kleinu, týndi bílnum mínum hvað eftir annað og tók rangar ákvarðanir á sumum sviðum.
  • Í desember 2008 fékk ég stöðuhækkun í vinnunni.
  • Í desember 2008 eyddi ég út 1010 smsum úr símanum mínum.
  • Í desember 2008 fór ég að íhuga aftur viðskipti við kaupfélagið á Eggertsgötu
  • Í janúar 2009 flutti ég í 113. Í febrúar átti ég skemmtilegan mömmudag með Maríu.
  • Í mars 2009 fór ég með Hildi, Ingunni og Maríu í ógleymanlega sumarbústaðarferð til Akureyrar.
  • Í mars 2009 varð ég veðurteppt á leiðinni til Ísafjarðar og síðar í mánuðinum varð ég veðurteppt á Skagaströnd en ég byrjaði mánuðinn á því að fluginu mínu til Akureyrar var aflýst.
  • í maí 2009 flutti Annan mín til Akureyrar og í hjartans eigingirni grét ég heil ósköp.
  • Í júní 2009 fór ég með Maríu til Ísafjarðar að hitta fjölskylduna í Króki í fyrsta skiptið.
  • Í september 2009 stakk karlinn minn af til útlanda.
---
Eníveis, tveir unglingar sofa inn í Maríu herbergi. Planið mitt er að sofa ekki aðra nótt í sófanum. Afmælisveisla á morgun.

fimmtudagur, september 10, 2009

Wanna talk about sex?

Dagarnir líða, karlinn í útlöndum og netið loksins komið á Hagamelinn. Einkabarnið og dekurdúllan mín á afmæli á mánudaginn, 8 ára unglingur sem óskar eftir gemsa og fötum í afmælisgjöf...
---
Barnið mitt er formlega orðið lyklabarn og er ótrúlega sátt við fyrirkomulagið. Það er mikið að gera á litla heimilinu okkar, barnið stundar fótboltann á fullu, ballettinn er að kikka inn aftur og sömuleiðis kórinn. Það var yndislegt að keyra hana á ballettæfingu fyrr í dag, beint af fótboltaæfingu. Innan um puntskó og dúllerí plantaði hún takkaskónum og legghlífunum. Gervigrasbuxurnar og sokkarnir fengu svo að hanga í klefanum með prinsessudótinu. Eftir nokkrar mínutur var gallharði KR-ingurinn orðinn ballerína með snúð í tjullpilsi.
---
Á meðan barnið æfði stíft með balletthópnum ákvað mamman að versla inn fyrir fyrsta hlutann af afmælisveislum - sá síðari verður eftir rúma viku. Það getur verið hollt að fara í búð og vita ekkert hvað maður ætlar að kaupa, þá fær hugurinn að njóta sín og stundum verður útkoman góð og stundum ferlega fyndin. Nema hvað, ég fór að velta því fyrir mér af hverju eru brauðvörur alltaf það fyrsta sem maður sér í Bónusverslun - það vita það allir sem versla og hafa smá rökhugsun að ef þú setur brauð neðst í körfuna þá verður það ansi kramið ef þú heldur áfram að hlaða ofan á það!
---
Ég gekk um búðina, fór sömu gangana aftur og aftur og reyndi að muna hvað ég ætlaði að kaupa. Ég gafst upp eftir dágóða stund og ég held ég hafi keypt allt sem mig vantaði nema tómatsósu og mjólk. Ég meina hver þarf tómatsósu og svo er mjólk ekkert svo holl. Barnið pantaði pizzur og Hello Kitty köku á la mamma. Mamman ætlar að verða við þeirri beiðni aðfararnótt sunnudags - á sama tíma og hún ætlar að tæma síðustu kassana og finna leið til að koma 16 stelpum í sæti.
---
Eníveis, plan helgarinnar er að draga nokkra lambskrokka í sveitnni og halda svo stelpupartý í borginni - Er ekki helgin bara 2 dagar?

þriðjudagur, september 01, 2009

The blogger is in da house

"Samband stendur í blóma! Þú ert kominn yfir það að vilja einhvern annan til að breyta til og tekur þessari manneskju einsog hún er " segir í stjörnuspánni hans Leifs fyrir daginn í dag og já hann er farinn til Hollands - án mín, sambandið er algjörlega í blóma :)
---
Frá því ég keyrði rófuna mína á völlinn hef ég verið að spá í síðasta ári - stundum truflar rykið í augunum :) Það er spaugilegt að hugsa til þess hvernig hlutirnar hafa æxlast og yndislegt í ofanálag. Fæðingin var löng með smá hríðarstoppi um tíma en svo fór allt að blómstra. Fyrir ári síðan var ég út um allt og alls staðar, nýlega komin með facebook og njósnaði reglulega um gaurinn sem var að skrifa fyrri hluta fræðikenninga sinna með Scooter við eyrað - ég hélt alltaf að statusinn væri djók, ég gat ekki ímyndað mér að nokkur maður hlustaði á Scooter. Ekki fyrir svo löngu komst ég að því að maðurinn hlustar á Scooter! Ég sakna hans ;(
---
Annars erum við mæðgur að fara að flytja - stefnan er tekin á að sofna á nýjum stað annað kvöld. Ég hlakka mikið til að halda fullt af saumaklúbbum, halda pizzupartý fyrir Maríu og vinkonur hennar, opna hvítvínsflöskur og hafa það kósý. Over and out

sunnudagur, júní 21, 2009

Sunnudagsblogg

Einu sinni var alltaf hægt að treysta á það að ég bloggaði á sunnudagskvöldum og stundum á fimmtudögum - undanfarið hef ég bara bloggið minna en ekki neitt. Reyndar hafa bloggfærslunar alveg orðið til í huganum undanfarið en einhvern veginn hefur enginn þeirra komist í birtingu - sumar hafa bara verið saveaðar sem draft :)
----
Ég er búin að gera ótrúlega margt síðan síðast. Við María skelltum undir okkur Subaru og brunuðum vestur á Ísafjörð um hvítasunnuhelgina, María vildi ekki fara heim og óskaði eftir því að næst yrðum við í mánuð! Við nutum þess í botn að vera hjá góðu fólki og slógumst um athygli frá Leifi :) Helsta afrek þeirrar ferðar var þó aksturinn yfir Hestakleifina. Á vesturleið ákvað ég að keyra fyrir Reykjanesið, það var svo sem fínt - sól og malbik að stórum hluta eftir rigningu og drullu í langan tíma. Á leiðinni heim horfði ég upp á blessað fjallið og svitnaði, mig langaði að stytta mér leið og fara yfir. Ekki nema sex ökutæki tóku framúr mér og fóru af stað upp fjallið, ég stoppaði út í kanti - fór út úr bílnum og úr jakkanum, svalaði nikótínþörfinni og hélt af stað upp fjallið. Ég talaði ekki mikið við Maríuhænuna mína sem hlustaði á Drekasögur á repeat heldur var munnurinn lokaður, augun á veginum (passaði að horfa ekki niður) og hendur á stýri (tíu mínútur í tvö staðan). Ég komst upp án þess að svitna mikið. Þegar upp var komið stoppaði ég og hleypti umferðinni framúr mér. Að komast upp fjallið var bara smotterí miðað við að komast niður - ekki einu sinni hálfur sigur! Þegar vegurinn fór að halla aftur niður í næsta fjörð var bíll settur í beinskiptingu og ég juðaði honum niður á 20 km hraða. Ég svitnaði og svitnaði en hafði það niður á endanum. Ég rétti hendina aftur og bað Maríu um að gefa mér High five, hún spurði bara afhverju og fannst lítið til koma um þetta afrek móður sinnar. Mamman var aftur á móti að rifna úr stolti :)
---
Þegar við komum í bæinn tók við þetta venjulega, vinna og skóli. Ég fór í vinnuferð til Stokkhólms þar sem ég fékk langtímalækningu á utanlandasýkinni sem ég hef haft. Við funduðum alla daga en seinni part dags gátum við gengið aðeins um og skoðað - ég hlýddi Sigurbjörgu að sjálfsögðu og fór að skoða Vasasafnið.. geðððveikt. Á meðan ég var úti kláraði skottan mín skólann sinn með glæsibrag að sjálfsögðu, hún fékk A í öllu og les 228 atkvæði á mínútu - um jólin las hún 170 atkvæði. Stolta mamman varð pínu meyr að vera ekki á staðnum á þessum tímamótum hjá skvísunni en never again :)
---
Það styttist óðum í sumarfríið mitt - tvær vinnuvikur eftir og frúin komin í frí í 4 vikur. Bara kát með það - ég hlakka svo til að vera með skvísunni minni og gera allt og ekkert. Fara í bíltúr af því bara. Það myndi svo ekki skemma fyrir ef Leibbinn minn verður eitthvað á þurru landi á þessum tíma svo við mæðgur getum barist um athygli frá honum. Ég vildi óska að hann væri að vinna skrifstofuvinnu í REYKJAVIK í sumar :) Ég sakna hans ótrúlega mikið ...
---
Eníveis, ég bíð spennt eftir milljónunum sem ætla að skríða inn um gluggann hjá mér eina nóttina - þangað til kúri ég í kjallaranum í foreldrahúsum :)

sunnudagur, maí 17, 2009

Sumar, sumar, sumar og sól

Temmilega langt síðan síðast.. bloggandinn hefur bara ekki komið yfir mig í langan langan tíma - kannski bara af því að sunnudagskvöldin eru yfirleitt bókuð í eitthvað annað :)
---
Einhvern veginn hefur tíminn staðið í stað undanfarna mánuði, mér finnst eins og janúar hafi verið í síðustu viku og svo langt í að að ég sé að fara að flytja aftur. Það hefur mikið gerst á þessum mánuðum, ég hef þurft að endurskoða ýmislegt og breyta ýmsu - það var bankað á öxlina á mér og samstarfsfélagi minn benti mér réttilega á að sumt væri verðmætt - annað dýrmætt og það ætti maður að passa. En það er að koma sumar eða er komið sumar. Tjaldvagninn er kominn heim og útilegutærnar mínar eru að komast í stuð. Mig langar að vera í útilegum í allt sumar - mig vantar bara útilegufélaga, endilega bjóðið ykkur fram :) 
---
Svo er Annan mín að flytja norður, ég get í hjartans eigingirni sagt án þess að blikka að mig langar ekkert að hún flytji - en það er bara eigingirni sem ég verð að eiga við mig :) Ég á eftir að sakna hennar alltof mikið - Valla og Anna báðar á Akureyri.. spurning um að skella sér bara líka? Það verða pottþétt nokkrar Akureyrarferðirnar í sumar, ein fótboltaferð, ein ferð í brúðkaup og svo vonandi bústaður og bara heimsóknir... 
---
Það er komið samt svona eirðarleysi í mig, mig langar að setjast upp í bílinn og keyra af stað, bara eitthvert - kaupa ís og halda svo áfram. Stoppa einhvers staðar og fara sund. Fara svo heim, grilla og sötra hvítvín. Mig langar að stökkva á ferð til útlanda - ég býð spennt eftir því að vinna í lottói, þrátt fyrir að taka ekki þátt þá finnst mér alveg komin tími á að vinna. 

mánudagur, mars 30, 2009

Fögur er hlíðin.. og svo asskoti hál

... já eða svona allt að því. Tvær giftar húsmæður úr Reykjavík og dramadrottning í foreldrahúsum lögðu af stað sl föstudag norður yfir heiðar til að hitta Maríuna okkar, húsmóðirna á Laugum. Sem betur fer ákváðum við nú að fá far í Fokker50 og skildum drossíurnar eftir heima. 
---
Undirbúningur ferðarinnar gekk svo glimrandi vel að ég gleymdi að bóka íbúð fyrir okkur svo við vorum í bústað í staðinn. Þrátt fyrir smávægileg mistök var mér treyst til þess að koma með hrásykurinn, sem ég gleymdi og mamma brunaði vestur í bæ með handklæði og rúmföt rétt fyrir flug þar sem ég gleymdi því líka. Og bara svona til að toppa skipulagshæfileikana mína þá tók ég að mér að panta borð á Strikinu um kvöldið.. ég bókaði okkur kl 19.30 - vélin fór frá Reykjavík kl 19.15 svo ljóst var að við myndum ekki ná því.
---
Á föstudag var unnið eins og reglur segja til um til rúmlega fimm, skottan kíkti í stutta heimsókn fyrir flug í litla kotið á Eggertsgötunni en mætti svo tímanlega, aðeins á eftir Hildi og Ingunni upp á flugvöll - ég hef aldrei skilið þetta hálftíma- mál með innanlandsflug.. bara illa farið með tíma. 
---
En að Akureyrinni, við þrjár lentum á Eyrinni á góðum tíma og biðum eftir töskunum þegar við áttuðum okkur á því að engin okkar hafði beðið Maríu um að sækja okkur á völlinn - með krosslagða fingur og hreina sál biðum við eftir því að sú fagra kona mætti á flugvöllinn, sem hún gerði þessi elska.
---
María fékk lánaða drossíu frá systu sinni, drossí sem María keypti þegar hún var 16 ára. Eftir matinn á Strikinu var ferðinni heitið í Kjarnaskóg.. stuttu eftir að farartækið fór af stað brotnaði rúðuþurrkan - redduðum því með því að skella henni á gólfið við farþegasætið. Ferðinni var haldið áfram eftir smá hlátur.
---
Ingunn tók við fararstjórn, ferðinni var heitið inn í Kjarnaskóg. Samkvæmt skipun úr aftursætinu átti að taka fyrstu brekkuna inn í Kjarnaskóg "á ferðinni, ekki þenja bílinn of mikið en ekki slá af heldur" - það gekk eftir upp fyrsta hallann. Spennan var yfirþyrmandi.. drossían dreif og taktfastar hreyfingar farþeganna hjálpuðu eflaust til. Næsti halli var ekki eins "auðveldur" yfirferðar, þegar drossían komst ekki lengra þar ákváðum við María að fara út að ýta og Hildur tók við akstrinum. Þrátt fyrir háa hæla, mikinn hlátur, enga vettlinga og vætu í brókinni haggaðist bíllinn lítið sem ekkert - nema þá í öfuga átt. Stelpukvikindi á nýjum bíl brunuðu fram úr okkur og Hildur bakkaði niður brekkuna, með smá pælingum var þessi líka tekin á ferðinni og kagginn brunaði upp eins og á góðum sunnudegi.
---
Við fundum bústaðinn mjög fljótlega, gula slangan var aftur á móti ekki eins auðfundin. Vatn fékk að leka í pottinn, mortélið spratt upp úr töskunum og Hildur tók sig til við að blanda mojito og ég opnaði GTR beljuna sem baulaði svo fallega í ísskápnum. Allt í einu var föstudagurinn úti og þreyttar kerlingar lögðust í bælið - sumir hvíldu sig þó í sófanum :)
---
Á laugardagmorgun kom Hnikarr færandi hendi með krúttsprengjuna og bakkelsi í morgumat/hádegismat. Krúttsprengja fékk handsnyrtingu hjá mér og sturtaði nokkrum sinnum niður í klósettinu áður en skvísurnar þrjár lögðu í bæinn til að kaupa vistir ... og komust á útsölur. Tvær peysur, kaffi og kaka á Bláu könnunni og kaffi og spjall í Vanabyggðinni var afrakstur dagsins ásamt ýmsu öðru nauðsynlegu.
---
Laugardagurinn var ekki kraftminni en föstudagurinn þrátt fyrir að komast upp í bústað í fyrstu atrennu - potturinn skítkaldur fyrstu 2 tímana eins og fyrra kvöldið, en heitu kjéllingarnar héldu honum alveg nógu góðum :) Á sunnudeginum var klukkan rétt um hálftvö þegar létt ryðgðar vinkonur héldu til byggða - sumir á kaffihús, aðrir í mömmukaffi. Bústaðurinn var tæmdur og þrifinn og beðið eftir flugi. 

mánudagur, mars 23, 2009

Sá handlagni

Á hverju heimili er nauðsynlegt að hafa einn handlaginn - bara svona til að dytta að því sem þarf þegar þarf. Einhvern veginn virðist þetta hlutverk oftar en ekki detta inn hjá karlkyninu sama hvaða hæfileika hann hefur.
---
Ég þekki einn svona "handlaginn". Fyrir mörgum árum þegar María var nettur bumbubúi bilaði klósettkassinn í Leirubakkanum, sá handlagni tók sig til og "lagaði" kassann. Viðgerðin fólst í því að fyrir hverja ferð þurfti að skrúa frá krananum í kassann, bíða smá stund og skrúfa svo fyrir þegar búið var að sturta. Annað dæmi er þegar kraninn frá þvottavélinni lak, viðgerðin fólst í því að skella handklæðum utan yfir kranann...
---
Undanfarið hafa flest raftæki í eldhúsinu hér í sveitinni gefið upp öndina, tilviljun veit ég ei en frá því ég flutti inn um áramót hefur kaffivélin hætt að mala, uppþvottavélin höktir og á það til að skilja eftir vatn í tíma og ótíma, hraðsuðuketillinn er dauður og spaneldavélin gaf upp öndina rétt í þessu. 
---
Sá handlagni ætlaði að losa helluborðið og koma því í viðgerð. Barnabarnið fylgdist spennt með konurnar á heimilin biðu eftir slysi. Helluborðið fór af eftir smá svona dúllerí. Kona hins handlagna sá sig knúa til að minna hann á að slá út rafmagninu fyrir helluborðið sem hann taldi sig nú hafa gert. Konan taldi þá málið í nokkuð öruggri höfn og lagði sig með blöðin inn í rúmið.  Stuttu síðar varð allt svart og frúið gólaði úr rúminu: "Er í lagi með viðgerðarmanninn?". Jú, hann var hress, helluborðið laust og ekkert rafmagn á efri hæð hússins. 
---
Þegar sá handlagni hafði gengið frá vírum og slegið rafmagninu aftur inn fór ég inn á bað, ég hafði lagt húfu af barnabarninu í bleyti og ætlaði að losa um tappann í vaskinum. Ekkert gekk svo ég kallaði á konu hins handlagna.. jú það er ekki að spyrja að því, vaskurinn stíflaðist fyrir einhverjum misserum síðan svo hinn handlagni þurfti að losa vatnslásinn... í miðri viðgerð lenti tappinn í hnjaski og hefur ekki virkað síðan.

sunnudagur, mars 22, 2009

Lífið og tilveran..

Tvær vikur án bloggs er langur tími.. mig hefur oft langað að blogga undanfarið en um hvað? Vitur maður sagði mér bara að blogga um lífið og tilveruna... Lífið er skemmtilegt og tilveran sömuleiðis.
---
Síðan ég bloggaði síðast hef ég heimsótt Akureyri, Egilsstaði og Ísafjörð. Á Akureyri hitti ég Völluna mína, sötraði hvítt, borðaði gott pasta og sötraði smá kaffi yfir löngu tímabæru spjalli. Daginn eftir kynnti ég Félagsvísindasvið með aðstoð tveggja laganema - gekk bara nokk vel. Þaðan fórum við á Egilsstaði, tókum eina hæð á hótelinu og fengum nettan valkvíða yfir matseðlinum á hótelinu - skyldi það verða lamb eða fiskur... daginn eftir var skólinn aftur kynntur fyrir Austfirðingum.
---
Svo kom helgin, á sunnudeginum ætlaði ég til Ísafjarðar - en eins og oft þegar ég er á ferðinni undanfarið.. þá var ófært. Titrandi af reiði fékk ég far með fyrstu vél á mánudag, kynnti skólann og sjálfa mig með fínasta laganema mér við hlið. 
---
Svo kom aftur helgi, á föstudag var árshátíðin - laganeminn var kynntur fyrir samstarfsfólki, stóð sig með prýði. Laugardagur var letidagur. Sunnudagur var fjölskyldudagur með laganemanum og mínu uppáhaldsfólki - gekk líka nokk vel :) 

þriðjudagur, mars 10, 2009

Svaðilför ti Skagastrandar

Eitt kvöld á facebook ákvað ég að síðasta helgi væri snilldarhelgi til að kíkja norður til Rögnu á Skagaströnd. Anna Maja var alveg sammála mér svo að á síðasta föstudag ókum við norður í land með Maríuhænuna mína í aftursætinu. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig þar til við komum í Borgarnes (alla leið í Borgarnes), þá áttaði ég mig á því að drossían var ljóslaus. Vitandi það að ekkert bílaverkstæði í Borgarnesi væri opið ákvað ég að láta slag standa og keyra með háa settið norður, því jú gáfumennin á bensínstöðinni minni höfðu eitt sinn sagt mér að þeir skiptu ekki um þessar perur þar sem of mikið þyrfti að losa frá. 
---
Í Norðurárdalnum var orðið ansi dimmt og ljóst var að háa settið mitt var að blinda ansi marga ökumennina, því ákvað ég að reyna að "semja" við afgreiðslufólkið í Staðarskála um peruskipti. Þjónusta N1 á landsbyggðina er algjörlega til fyrirmyndar.. NOT - þar er ekki þjónusta á kvöldin úti á plani. Hvað á það eiginlega að þýða? En jæja, inn í skálann arkaði saklaus borgarmær í ullarkápu og á háum hælum og spurði hvort það væri nokkur sem gæti aðstoðað hana. Það var ekki að spyrja að því, grillmeistarinn skellti af sér svuntunni, fór í úlpu og kom út. Hann náði annarri perunni en þorði ekki að reyna við hina.
---
Stuttu síðar héldu stoltir ljósaeigendur áfram út í myrkrið. Rétt við Hvammstanga minntist mín kæra frænka á síðasta ferðalag okkur um Húnvatnssýslurnar - fyrir nokkrum árum þegar ég varð Blönduóslöggunni að bráð. Það var ekki að spyrja að því, þegar við renndum í gegnum Blönduós stoppaði þessi elska okkur. Drossían eineygð, ég eldrauð í framan eftir gullin komment frá frænkunni og frænkan í hláturskasti...  
---
Við lentum loksins á Skagaströnd seint á föstudag, Birta tók á móti okkur og spurði um Ottó. Gormarnir léku sér fram á kvöld og frænkan fór heim í sveit. Við Ragna sötruðum kók og kjöftuðum - styttra en venjulega. Laugardagurinn gekk í garð, ég svaf á mínu græna á meðan Ragna hugsaði um öll dýrin á heimilinu, madamman úr Reykjavík vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir tólf og gekk upp stigann með samviskubit dauðans. 
---
Eftir hádegi ákváðum við að fara út á rúntinn - skoða plássið ;) Við tókum smá rúnt í blíðskaparverði með börnin í aftursætunum - allir hressir og glaðir að borða nammi, nema Birta hún var komin með í magann. Allt í einu varð kolvitlaust veður. Skynsamar mæður héldu þá heim og bílnum var lagt snyrtilega í skúrnum. Veðrið vesnaði þegar leið á kvöldið og um tíma sást ekki einu sinni til kannabisverksmiðjunnar sálaugu - ekki skrítið að vinnslan gat farið svona leynt ef veðrið verður oft svona. 
---
Anna Maja lét sig hafa það að kíkja á okkur í stutta heimsókn þrátt fyrir blindbyl, á heimleiðinni gekk ekki betur en svo að bíllinn fór út af með dömuna innan borðs. Allir gengu þó heilir af velli nema þó ekki væri nema sært stolt frænku. 
---
Sunnudagurinn gekk í garð heiður og fagur.  Allt á kafi í snjó og logn úti. Við frænkur bjuggum okkur til brottfarar og sennilega um leið og við skelltum bílnum í "Drive" fór að hvessa. Við létum okkur nú hafa það, keyptum vistir í N1 og fylltum bílinn. Í Vatnsdalnum hringdi frænka í Vegagerðina og tók stöðuna á heiðinni, þar var hálka og stórhríð - og fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Miðað við umferðina suður ákváðum við að láta sem hún hefði aldrei hringt. Bylgjan ómaði í bílnum og við skemmtum hvor annarri með því að búa til veðurfréttir..  VNA 18 metrar á sekúndu, skyggni 2 stikur... 
---
Einhvers staðar á leiðinni heyrðum við fréttir .. þar sem heiðinni var lokað, björgunarsveitir komnar upp aðstoða fólk og fólk beðið um að halda sig heima við. Frænkurnar ákváðu því að snúa við rétt vestan við Hvammstanga. Heimleiðin á Skagaströnd tók svo tæpa 2 tíma, geri aðrir betur! 
---
Það var svo í morgun að frúin skellti sér í dreifbýlisskóna, snjóbuxur, úlpu og húfu og óð skafla að bílnum sem fékk að eyða nóttinni við Apótek bæjarsins. Rétt fyrir níu vorum við komnar á fullt skrið til borgarinnar, sóttum meiri vistir í N1, fylltum bílinn og tókum myndir af ísbirninum. 
---
Í stuttu máli, við lentum í Reykjavík um 2 leytið. Heiðin var viðbjóður, skyggni ýmist ein stika eða engin. Snjór og vesen, flutningabíll á hliðinni og sæmilegasta samloka í Hreðavatnsskála. 

mánudagur, mars 02, 2009

Sól...

... hvítvín og heitur sjór - eða snjór, hvítvín og heitur pottur, já eða kannski bara toddý undir teppi að horfa á imbann. Kók, teppi og tölva er bara ekki að hitta í mark núna. 
Ég er að kafna úr geðvonsku - já eiginlega bara fýlu...
  • Íbúðin sem mig langaði í er ekki lengur á sölu. 
  • Fluginu mínu var aflýst í dag
  • Mér er skítkalt

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Maríuhænan

Litla barnið mitt á í svo krúttlegri baráttu við sjálfa sig og mig móður sína. Hún er ekki 7 ára heldur 7 ára að verða 8 ára og ef maður er nákvæmur eins og meyjan er gjarnan þá segir maður að hún sé 7 og hálfs. Hún er óttleg mömmustelpa og ofdekruð eftir því en að sama skapi vill hún ekkert hafa mömmu sína með í öllum aðstæðum.
---
Nýjasta dæmið er föstudagskvöld með Sunnefu... það hefur lengi verið á draumalistanum að eyða föstudagskvöldi með Sunnefu - ekki fá áfall, hún er ekki að fara á B5 :) Þær ætla saman í sjónvarpssal og fylgjast með beinni útsendingu, minnar nærveru er ekki óskað. María heldur nefnilega að það verði skemmtilegra án mín.
---
Annað dæmi er sokkabuxurnar við grímubúninginn. Við keyptum (saumum eftir einhver ár) Djöfulinn fyrir elsku litluna mína. Sokkabuxurnar þurftu að sjálfsögðu að vera rauðar í sama litatón og búningurinn. Ég fann þessar fínu sokkabuxur í Hagkaup... sem hittu ekki í mark heldur vildi meyjan fá rauðar nælon sokkabuxur.
---
Enn annað dæmi er Hello Kitty húfan hennar. Fyrir nokkrum dögum vorum við á hraðferð út um morguninn og fundum ekki húfuna hennar. Nema hvað, ráðagóða móðirn stökk niður í herbergi og fann Hello Kittý húfu með ásaumuðu nafni meyjunnar og skellti henni á höfuðið á barnið. Meyjan sagði ekkert heldur tók af sér húfuna og snéri henni öfugt og setti hettuna yfir. Amman kom svo og sótti barnið í skólann og fór með hana í ballett, þar átti hún í samræðum við vinkonu sína um blessaða húfuna.. amman fékk þá að heyra að húfan væri "ógeðslega barnaleg" og "hallærisleg". 
---
Smá uppreisnarangi er fastur í afturendanum á henni þessa dagana - ég skrifa það á mömmuleysi undanfarinna vikna enda var hún alltaf með þennan anga fastan í sér eftir prófatíð í den. Krúttsprengjan mín er samt svo lítil þegar á reynir og vill alls ekki fara of langt frá múttunni sinni.. hlýtur að vera erfitt að finna sitt rétta hlutverk þegar maður vill verða sjálfstæður mömmuangi ;)

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Heima að heiman

Svoleiðis líður mér pínu þessa dagana, mér finnst ég vera í heimsókn  - heima en samt að heiman. Ég á lítið krúttlegt herbergi með Maríuhænunni minni, mamma þvær fötin mín og ég elda matinn fyrir heimilið.  Saman göngum við svo frá og höldum öllu þokkalegu. Ég þarf að klæða mig þegar ég búin í sturtu eða vefja utan mig handklæði til að ganga niður í herbergið - stundum langar mann bara að hlaupa um allsber - now the feeling?
----
Mig langar bara að flytja.. ég er samt í algjörri klemmu, það er gott að mörgu leyti að búa hér en samt langar mig að flytja.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Mamman Ásdís

Fyrir 8 árum síðan og nokkrum dögum betur komst ég að því að ég væri ólétt. Fyrsta sem ég gerði var að hugsa, ofhugsa og senda Helgu sms með tíðindunum.. hún hafði sem sagt rétt fyrir sér. Á þessum 8 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar.
--
María fæddist 7 mánuðum seinna, lítil bolla sem átti að fá allt það besta sem lífið gæti boðið upp á. Aðstæður voru oft erfiðar, og ég jú algjör krakki oft og tíðum en samt sem áður hefur þessi elska blómstrað og orðið að einu besta og klárasta barni sem um getur.
---
Frá því hún var lítil hefur hún alltaf verið mikill hugsuður og rólyndistýpa, hún er ekkert fyrir að flýta eða ana út í neina vitleysu. Það tekur allt langan tíma hjá Maríu, sama hvað það er - klæða sig, borða, læra eða bara greiða hárið. Þetta þarf allt að gerast í réttri röð og á réttum hraða.
---
Mamman stökk í foreldraviðtal í hádeginu á föstudag, vinnan hefur átt hug hennar allan undanfarnar vikur svo skottan var orðin ansi "mömmuveik". Það var mikill spenningur á heimilinu fyrir foreldraviðtalinu, María hafði orð á því á fimmtudagskvöldinu að kannski gæti hún fengið A í öllu en henni fannst það nú hæpið.
---
Í foreldraviðtalinu fengum við í fyrsta skipti vitnisburð, þar fengum við það skjalfest að við eigum lítinn snilling. Hún fékk að sjálfsögðu A í öllu. Hún les 170 atkvæði á mínútu en markmiðið er að þau nái 60-110 atkvæðum við lok 2.bekkjar, rúllar upp stærðfræðinni með annarri, skrifar mjög vel og sýnir mikinn þroska í skólastarfinu. Meðal annars lætur hún kennarann vita þegar hún hefur ekki vinnufrið og kemur með skemmtileg komment í umræður.
---
Eftir foreldraviðtalið fórum við mæðgurnar á bæjarrölt. Við byrjuðum í Þjóðmenningarhúsinu þar sem forvitnagenið í barninu fór á fullt og hver einasti krókur og kimi í húsinu var skoðaður - meira að segja salernin. Úr Þjóðmenningarhúsinu fórum við á Sólon þar sem sú stutta fékk sé köku og kakó - meðan hún slafraði kökunni í sig minnti hún helst á karlmann þar sem hún sagði ekki orð nema allt í einu poppaði út úr henni: "Hrikalega góð kaka mamma, smakkaðu" og rétti mér bita með skeiðinni.
---
Við enduðum svo bæjarröltið í Eymundsson þar sem keyptar voru bækur fyrir bókaorminn. Kvöldinu eyddum við svo fyrir framan imbann að háma í okkur nammi og spila Rommý og Asna. Nú er sunnudagur, á morgun er vinnudagur - það er langt síðan við höfum eytt heilli helgi saman, þrátt fyrir að búa saman. Mamman er alltaf of upptekin til að vera mamma, hún er komin með nóg af því.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Ofurbloggarinn..

... er tekinn til starfa og bloggar alltof sjaldan eins og honum var von og vísa - Ásdís ofurbloggari. Þrátt fyrir að búa í sveit hefur lífið bara verið sérdeilis skemmtilegt undanfarið, ég vinn eins og mófó, kenni helming af kennsluskyldu fastráðins kennara, el upp yndislega dóttir og stunda heimsóknir í vesturbæinn grimmt við nokkra gleði heimamanna að ég tel.
---
Ég sakna vesturbæjarins ógurlega mikið og þægindana við að búa þar - það er ákveðinn lúxus að búa hér en samt sem áður er ákveðinn lúxus að búa einn. Það kemur að því að ég verð fullorðin aftur - gifting í sumar svo það eins gott að vera orðinn nokk fullorðinn þá - DJÓK! Ég er ekki ennþá búin að koma okkur nógu vel fyrir - einhvern veginn fer frítíminn minn í allt annað en að taka upp úr kössum, sortera og henda. Þegar María er hjá Nonna geri ég aðra hluti ;)
---
Ný ríkisstjórn tók við í dag eins og einhverjir hafa tekið eftir - pólitíska Ásdís sem reifst og rökræddi um pólitík svo dögum skipti hér í den nennir bara varla að pæla í þessu. Ef ég þarf fréttir þá fer ég í mat og hlusta á samræður fólks í kaffistofunni - jú og tek þátt stundum.
---
En hér hafið þið blogg, og kommentið svo!

mánudagur, janúar 19, 2009

Blessuð sértu sveitin mín...

... ég bý í sveit, langt út sveit.. kílómetramælirinn á bílnum sýnir meiri keyrslu síðustu tvær vikur en í nóvember og desember til samans. Það fylgja því ákveðnir kostir að búa svona langt frá hjartanu - maður fær quality tíma í bílnum á hverjum morgni og alltaf á leiðinni heim. Ég gat til dæmis sagt Guðrúnu frá því hvernig lopapeysusöfnunin byrjaði - því jú ég var að hlusta á Bylgjuna á leiðinni í vinna einn morguninn - svo veit ég yfirleitt alltaf hver spurning dagsins er í Reykjavík Síðdegis.... og og og..
---
Ég ákvað að nýta mér það út í ystu æsar að búa í sveitinni á síðasta fimmtudag - og fékk þrefalt sjokk.. ég vildi bara fá Hressó, Smart og Melabúðina í lok kvöldsins! Ég þurfti aðeins að skjótast í búð og 10-11 í Arnarbakka var fyrir valinu þar sem hún var næst. Búðin minnti mig á sóðalegan súpermarkað á Spáni. Það var vond lykt þar inni, lítið af vörum í hillum og skuggalegt yfirbragð yfir öllu. Þrátt fyrir að öryggisvörður væri að afgreiða fann ég litla öryggistilfinningu í litla hjartanum mínu og dreif mig út.
---
Því næst ákvað ég að fara í ljós á minn gamla vinnustað - ég hef ekki farið þar í mörg ár. Ég held að ég ljúgi ekki að neinum þegar ég segist hafa kíkt í einn ljósatíma þar frá því ég hætti 2002 - á árunum 1997-2002 fór ég aftur á móti í marga tíma, þreif öll skúmaskot og bardúsaði við bekkina ef þess þurfti. Því mættu röntgenaugu á Sólbaðstofuna. Fyrst ætlaði ég að kaupa mér sjampó, það var ekki til. Þá ætlaði ég að kaupa mér krem á kroppinn, það var til ein tegund - sú sama og var seld 2002. Því næst fékk ég leyfi til að fara í bekkinn. Ég kveikti á honum og veitti því athygli að lítið hefur verið gert á þessum blessaða stað síðustu árin, veggirnir eru ennþá grænir og bekkirnir þeir sömu. Nema hvað, bekkurinn fór í gang með þvílíkum látum en samt ekki nógu kraftmiklum því það var dautt á 3 perum í efra - mig langaði að fara fram og biðja kerlu um skiptilykillinn og snúa perunum, athuga hvort ég gæti ekki fengið þær í gang eeeeennn mér fannst bekkur eitthvað svo ógirnilegur að ég var farin út eftir 4 mín - henti mér í sturtu og út í bíl þar sem ég setti upp andlit, greiddi hárið og kláraði að fínpússa apaköttinn. Heimsóknin á Sólbaðstofuna tók sennilega um 15 mínútur í allt.
---
Eftir ljósin fór ég og hitti Elínu mína á Draumakaffi - það var svo sem ekkert að því nema bara svona sveitó - krúttlega sveitó. Æi, bara svona ekki Hressó undir teppi með hitara.. tvöfaldan latte í glasi.. og nikótín
---
...eftir þessa sveitareisu brunaði ég í 101!

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Fjarlægðin gerir fjöllin blá...

... sagði eitthvað gáfumennið. Úr nýju stofunni "minni" hef ég gríðarlega gott útsýni yfir Reykjavíkina og upp á Skaga ef þannig liggur á. Á leiðinni í vinnuna í morgun virti ég fyrir mér útsýnið á meðan ég keyrði niður brekkuna og áttaði mig á því hvað Reykjavík er gríðarlega falleg borg, sérstaklega vestasti hlutinn..
---
Eggertsgatan var kvödd með trega á sunnudagkvöld. Búslóðin var flutt á tvo staði, hluti fór í geymslu og annar hluti fór með mér í "sveitina" eða úthverfið eins og mér finnst betra að kalla þennan stað ;) Þvílíkt og annað eins magn af dóti hefur sjaldan sést á heimili mægðna sem taldi aðeins 68 fm - flutningabílinn var einn, og burðarmenn/konur og hjálparkokkar voru 10 þegar mest lét. Ferðirnar á flutningabílnum voru tvær og klukkutímarnir við burðinn voru rúmlega þrír.
---
Síðustu daga hef ég verið að venjast því að vakna upp á nóttunni til að koma mér og Maríu af stað í skóla og vinnu. Eftir vinnu hefur tekið við þrotlaus vinna að koma fyrir dóti, Ólafsgeislinn er ekki enn farinn að minna á heimili enda er draslið þvílíkt sem fylgdi okkur Maríu. Sveitapjöllan ég er samt orðin ansi kræf í fatamálum - ég er búin að setja til hliðar heilan haug af fötum en samt bara búin að fara í gegnum ca helminginn af klæðum okkar mæðgna. Aðeins föt í "stöðugri" notkun fá skápapláss - hinn fara til vandalausra og vandamanna.
---
Það er merkilega erfitt að koma tveimur einstaklingum fyrir í einu herbergi ;)