mánudagur, janúar 23, 2006

Vallan mín

Í dag er stór dagur, hún Valla mín á afmæli og er 24 ára. Til hamingju með daginn elsku Valla- sakna þín alveg svakalega þessa dagana. Ég kynntist Völlu þegar við unnum saman Padeia blaðið fyrir 2 árum síðan. Ég hafði reyndar séð hana og vitað hver hún væri- sérstaklega þekkti ég orðsporið... ógeðslega klár stelpa.
---
Fyrsta minning mín af Völlu var í tíma í Lögbergi, ég sat fyrir ofan hana og fylgdist með henni glósa af öllum mætti í tíma hjá Jóni Torfi- Kenningum í uppeldis- og menntunarfræði. Hún var alltaf svakalega vel lesin og talaði og skrifaði á tölvuna bæði í einu, mér fannst það alveg svakalegt.
---
Svo ákvað ég að henda mér í djúpu laugina og prufa að fara í ritnefnd Padeia, Valla kom líka í ritnefndina sem tengiliður stjórnar en þegar upp var staðið vorum við mest tvær að vinna þetta saman. Það gekk þvílíkt vel, tvær "frekjur" sem þó gátu alltaf mæst á miðri leið gerðu þetta snilldarblað. Stuttu seinna flutti ég inn á Vetrargarða og þá var ekki aftur snúið, ég kynntist Völlu enn betur og eyddi meiri tíma með henni. Kaffihús í flíspeysu rétt fyrir miðnætti var sko okkar stíll!
---
Rauðvín er eitthvað sem okkur báðum finnst gott að drekka, reyndar hef ég farið varlega í það síðan Valla bauð mér upp á það síðast :) Við fórum líka saman í okkar fyrsta kokteilboð, stóðum okkur þvílíkt vel- misstum bara diskana einu sinni og fáir tóku eftir því.
---
Í dag er Valla uppeldisfræðikennari með meiru í Menntaskólanum á Akureyri. Sennilega einn yngsti menntaskólakennari á landinu og ég leyfi mér að fullyrða að hún sé með þeim betri. Allt sem Valla tekur sér fyrir hendur gerir hún vel enda ofurkona á ferð.
---
Síðasta sumar fór ég með henni norður á heimaslóðir og fékk grillaða löpp að hætti pabba hennar. Foreldrar hennar voru líka þvílíkt almennilegir, fyrir utan hvað það var gaman að koma á æskuslóðirnar hennar- síðasta púslið.
---
Síðasta haust ákvað Valla að fara norður að kenna, María og Nonni heimsóttu þau fljótlega enda María og Rannveig bestu vinkonur. Ég hef ekki enn gerst svo fræg að stíga fæti í Hjallalundinn en það stendur til bóta, mig dauðlangar að kíkja á hana og bara spjalla í eigin persónu- ekki svona í gegnum síma. Valla er nefnileg ein af þessum stelpum að það skiptir ekki máli hvenær þú talaðir við hana síðast, það er alltaf eins og það hafi verið í gær.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ó mæ bara heilt blogg tileinkað mér, maður er bara hálf klökkur hérna :) Takk elsku snúllan mín, ég sakna þín ógurlega líka! Hlakka til að fá ykkur mæðgurnar í heimsókn!