mánudagur, febrúar 06, 2012

Að verða fullorðinn

Þegar ég var unglingur ætlaði ég mér að verða gullsmiður, ég sá Finnland í hyllingum og mig langaði þangað í gullsmíðanám en svo þegar útskriftin úr grunnskóla var á næsta leyti kom ekkert annað til greina en að verða stúdent af bóknámsbraut - með smá hliðarbeygju sökum unglingaveiki.

Þegar ég var 18 ára ætlaði ég að fara til Atlanta eftir stúdentspróf og læra sálfræði. Ég skoðaði skóla og fann mér enskunámskeið til að fara á. Ég ætlaði mér að eyða sumri úti og klára svo stúdentinn. Ég hætti við, keypti mér bíl fyrir peninginn og varð ófrísk. Ég hægði á mér í framhaldsskólanum og tók stúdentinn á 5 árum meðfram því að vera með Maríu litla.

Þegar ég var 21 árs ætlaði ég að verða kennari, sótti um í KHÍ og fékk ekki inngöngu - plan B var þá að fara í uppeldis- og menntunarfræði í eitt ár og sækja svo aftur um í KHÍ að ári liðnu. Ég sótti aldrei aftur um í KHÍ heldur kláraði uppeldis- og menntunarfræðina 24 ára.

Þegar ég var 25 ára ætlaði ég að verða náms- og starfsráðgjafi. Ég prufaði það nám en fann fljótt að það átti ekki við mig. Á sama tíma hafði ég mikinn áhuga á því að vinna með unglingum í vanda og elskaði vinnuna mína hjá Götusmiðjunni. Ég ákvað þá að fara í MA nám tengt því án þess að pæla endilega í því hvað ætti að verða úr því. Einhvern tímann þarna í millitíðinni fann ég áhugavert nám í Svíþjóð sem hét Child Studies, ég fann íbúð og leikskóla en þorði ekki þegar á hólminn var komið.

Þegar ég var 29 ára ákvað ég að sækja um kennsluréttindanám þar sem þá var síðasti séns að klára það á einu ári. Ég ákvað að taka smá séns og skráði mig í nám á Akureyri - ekki "heima" í HÍ.

Þegar ég varð þrítug var ég orðin grunn- og framhaldsskólakennari með BA próf í uppeldis- og menntunarfræði og MA próf í fötlunarfræði. Mig langar samt alltaf að læra gullsmíði :)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

:)
Kv.
BÖB

Nafnlaus sagði...

geturðu ekki bloggað eitthvað, svona fyrst þú ert sófaliggjandi kona þessa dagana. vsb

Ásdís Ýr sagði...

Ég er leita eftir andanum - búin að blogga fullt en allt óbirt :)

Nafnlaus sagði...

Datt inn á bloggið þitt af mínu gamla. Vissi ekki að þú værir farin að skrifa aftur. Gaman að þessu.

knús HH