föstudagur, október 13, 2006

Heimilisofbeldi

Undanfarið hefur heimiliofbeldi mikið borið á góma í kringum mig. Skólasystir mín sagði okkur í fyrra frá grófu ofbeldissambandi sem hún var í, maður var bara eiginlega orðlaus. Þvílík mannvonska en ótrúlega sterk stelpa, sá hana einmitt um daginn. Lítur rosalega vel og blómstar alveg. Ástæðan fyrir því að hún sagði okkur hinum frá þessu var umræða í kringum hópverkefni þar sem ein skólasystir okkar lét þau orð falla að hún skildi ekki konur sem létu berja sig trekk í trekk. Það er lætur enginn berja sig, svona tungutak fer í taugarnar mér. Kannski vegna þess að eitt sinn var ég ekkert langt frá því að búa við þessar aðstæður án þess að átta mig á því, en með aðstoð góðra vina og fjölskyldu slapp ég. Allir eru ekki svo heppnir. Helgan mín lét mig aldrei í friði :) og sætti sig ekki við framkomuna sem var á mínu heimili, takk fyrir það Helga mín. Hún var sennilega sú eina sem vissi hvernig málin voru. Fjölskylduna grunaði að ekki væri allt með felldu og þegar ég sagði loks frá tók hún mér með opnum örmum. Ef mamma hefði ekki verið svona ákveðin hefði ég sennilega stokkið til baka á einhverjum tímapunkti... .En ég vil taka það fram að ég er ekki að ræða um Nonna --- Um daginn var ég svo í öðru hópverkefni, þá kom aftur upp umræða um heimilisofbeldi og tók ein sér í munn þetta fræga tungutak.. að láta berja sig! Ég var reið en hélt mér óvenju rólegri. Við ræddum málin, hún var reyndar ein í hópnum á þessari skoðun. Við hinar höfðum kynnt okkur málið betur og vissum sem var að málið var ekki svona einfalt. Hún vildi meina að hér á landi væri allt til alls og kona þyrfti ekki að láta berja sig, hér hefðum við velferðarkerfi sem aðstoðaði konur út úr svona lífi. Því ég ekki sammála þótt staða kvenna í ofbeldissamböndum sé á margan hátt betri hér en í öðrum löndum þá er hún ekki góð, hugtakið fjölskyldutekjur kemur þar inn sem sterkur áhrifavaldur. Hugtak sem Kvennalistinn sálugi vildi afnema úr lögum landsins en það náði ekki fram að ganga. Þetta eina hugtak hefur miklar afleiðingar, sérstaklega í hjónabandi þar sem annar aðilinn er með mun hærri tekjur en hinn. Greiðsla barnabóta miðast meðal annars við fjölskyldutekjur, en ekki einstaklingstekjur. Þar af leiðandi fá konur fá litlar barnabætur í kjölfar skilnaða og langan tíma tekur að komast inn í kerfið á þeirra forsendum, forsendur hennar og fyrrv maka ráða för. --- Svo nú vikunni frétti ég af grófu ofbeldissambandi í nágrenni við mig, ég trúði því fyrst ekki. Var nokkuð viss um að þar væri svæsin kjaftasaga á ferð enda stelpan bráðmyndaleg og vön að vera á milli tannanna á fólki. En í gær fékk ég að vita að kjaftasagan væri rétt og hún tekin aftur saman við ofbeldismanninn. Í því sambandi hafði lögreglan og nágrannar haft ítrekuð afskipti af fjölskyldunni, konan lifði í stöðugum ótta meðan þau voru skilin. Annað mál hefur einnig verið í gangi nálægt mér, ég veit ekki hvernig staðan er á því í dag. --- Í held að ofbeldismenn séu í raun snillingar í mannlegum samskiptum á ákveðinn hátt, þeir tala konurnar til og smám saman telja þeim trú um að ábyrgð ofbeldisins sé á þeirra hendi. Fjölskyldan og vinirnir bara eitthvað leiðinlegt fólk sem borgar sig ekkert að ræða of mikið við, smám saman minnka samskiptin við aðra en ofbeldismanninn. Konan verður einangruð. Ég ræddi þetta nokkuð við systur mína í gær og við vorum sammála um það að ef önnur okkar byggi við slíkar aðstæður og við vissum af því, myndum við ekki láta kyrrt liggja. Ég er nokkuð viss um að mamma okkar myndi taka okkur og börn okkar í burtu með valdi ef þörf krefði. En þetta eru flókin mál... og sorgleg.

9 ummæli:

Helga Björg sagði...

Það er ekkert að þakka elsku Ásdís! :) Átt náttúrulega bara það besta í heiminum skilið!

Svo hefur þú nú peppað mig upp með ýmislegt í gegnum tíðina og ég get þakkað þér mikið fyrir það! :)
Takk fyrir að vera til!

LOVE U
--*--

Ásdís Ýr sagði...

Takk sömuleiðis Helga mín :)

Nafnlaus sagði...

já ég er svooo innilega sammála með þessa orðnotkun, þetta er eins og þegar sumir tala um að fólk bjóði upp á að vera lagt í einelti (þá svona virkir þolendur).

Þessir ofbeldismenn eru afar "áhugavert" rannsóknarefni...

Nafnlaus sagði...

Virkilega góður pistill skvísan mín. Allt satt en sorglegt eins og þú segir.

knús,
Elín

Heba Agneta sagði...

Heyr Heyr!!
Sendi myndirnar af haustskemmtuninni bráðum, er ekki í mynda-ísetninga-í-tölvuna-stuði...
kv.Heba

Nafnlaus sagði...

Já, það eru ekki allir sem gera greinarmun á því að vera lamin og láta lemja sig.....en svona er þetta

Ásdís Ýr sagði...

En lætur kona nauðga sér eða er henni nauðgað? Mér finnst þetta sami hluturinn, snýst um það hvar ábyrgðin er sett í málfarinu

Nafnlaus sagði...

Held að ég hafi nú aðallega bara verið að meina það þannig að t.d maður með vesen og stæla við aðra og býður upp á barsmíðar "lætur" lemja sig en aðrir eru lamdir.....

Ásdís Ýr sagði...

Ég er reyndar alveg sammála þér með að fólk leitar uppi slagsmál eða barsmíðar af einhverjum ástæðum en mér ég held að það eigi sjaldanst við þegar um er að ræða heimilisofbeldi.

Ég vill alla vega ekki trúa því að nokkur kona láti mann lemja sig, frekar að maðurinn lemji hana af því hann ákveður það.