laugardagur, október 01, 2005

Tíminn flýgur, 5 ár

Við skötuhjúin eigum 5 ára afmæli í dag, vá hvað tíminn líður hratt. Gamli ákvað að koma með á óvart og bjóða mér út að borða í kvöld. Það verður kærkomið í öllu þessu stressi að slaka aðeins á yfir góðum mat. María verður í pössun hjá Ingu og Ragga og fær að gista þar. En er nú ekki við hæfi að rifja upp hvernig við kynntumst...
Ég var í drykkjupásu, búin með kvótann :) en var samt mikið úti á lífinu með Sunnefu og Helgu. Sunnefa var að vinna á Glaumbar og átti þar vin sem yfirleitt var kallaður Nunnan. Ekki misskilja, það var ekkert í tengslum við skírlífi heldur grímubúning. Svo var það í kveðjupartýi sameiginlegs vinar Sunnefu og Nunnunnar, og reyndar fyrrv. hans Nonna líka, að hann gaf sig á tal við mig og bauð mér í Bláa Lónið daginn eftir. Það var nú bara í gríni svo ég þáði boðið en hann bað um símanúmerið mitt. Þegar hann vissi að ég væri á lausu spurði hann mig hvort ég væri svona erfið í umgegni! Mig langaði til að slá hann.
Daginn eftir fékk ég SMS að ferðinni í Bláa Lónið hefði verið frestað vegna veðurs, eins og ég hefði eitthvað ætlað að fara. Næstu skipti sem ég fór á Glauminn hitti ég hann, hann endaði svo með því að bjóða mér út. Ég var voðalega tvístígandi og sagði við hann að ég væri til í að fara með honum en það fylgdi því ekkert, hann gerði nú bara grín af mér og sagðist reyndar vera búin að skipuleggja brúðkaup helgina eftir.
Alla vega, hann kom og sótti mig heim, 1.október 2000. Við fórum á Caruso þar sem ég fékk algjöra prinsessuþjónustu. Eftir matinn fórum við á íshokkíleik og svo þaðan í bíó á leiðinlegustu mynd allra tíma, Scary Movie. Eftir bíóið keyrði hann mig heim. Næstu dagar og vikur liðu með blómasendingum, sms, símtölum, dekri og dúlleríi. Ég sagði stelpunum að ég ætlaði mér sko ekki að ná í kærasta heldur bara kannski sofa aðeins hjá honum. Ég hélt því statt og stöðugt fram að hann væri bara bólfélagi minn og ekkert annað....
Svo fórum við nú að eyða nánast öllum stundum saman, þannig að ég smám saman viðurkenndi að ég ætti nú kærasta. Mamma fékk að vita af honum rétt fyrir jólin, hitti hann á annan í jólum og svo eftir áramótin var ekki aftur snúið. Ég var orðin bomm... Það var nú ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir en það blessaðist nú allt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

A fine blog. Keep it up. No better time than now to start learning - California State Universities online degrees Take a look, if you have a minute. California State Universities online degrees.

Nafnlaus sagði...

æi, en gaman að lesa þetta.. 5 ÁR!!! Hugsaðu þér hvað tíminn líður! Ég er alveg að fara að senda þér mail.. það er bara búið að vera svo mikið að gera í skólanum (EKKI það að ég sé að kvarta við ÞIG!!! hehehe) Maður er bara svona að venjast því að vera á "skólabekk" aftur :) Heyrumst fljótlega.. kossar og knús og bið að heilsa "nunnunni" og prinsessunni.