þriðjudagur, júlí 22, 2008

Sérfræðingur eða kollegi

Mér finnst alltaf pínulítið kjánalegt og jafnvel óþægilegt þegar fólk spyr mig að einhverju um mitt sérsvið og jafnvel kallar mig sérfræðing á því sviði, eða hvað þá þegar fólk spyr um kollega mína - þær Valgerði og Hildi Höllu... mér finnst maður ekki eignast kollega fyrr en á fimmtugsaldri. Kannski er þetta spurning um sjálfstraust, því jú eitthvað hlýtur maður að hafa lært á fimm árum í háskóla.
---
Dagurinn í dag fór í lestur á lagatextum, umsögnum, greinargerðum, ræðum og fleiri skemmtilegheitum frá Alþingi. Mér finnst lúmst gaman að lögum og reglugerðum, kannski af því ég get verið svo ferköntuð stundum :) Nýju grunnskólalögin eru mjög sérstök fyrir margar sakir og tímamótalög að vissu leyti en að mörgu leyti fara þau aftur til eldri lagasetninga hvað varðar minn hóp. Mikil gagnrýni kom frá ýmsum hagsmunahópnum þegar frumvarpið var lagt fram en ég get ekki séð að sú gagnrýni sem kom á klausur er varða nemendur með sérþarfir hafi fengið jafn mikið vægi og sú gagnrýni sem kom á "kristilegt siðgæði" á sínum tíma.
---
Fyrrum kennari minn úr BA náminu kom að spjalla við mig og við áttum gott og skemmtilegt spjall um nýju lögin, krakka með ADHD, SMT-og PMT agastjórnunarkerfin og þess háttar. Í samtalinu vísaði hún til mín sem sérfræðings í þessum málum, sérfræðingur er fyrir mér alvitur einstaklingur sem er orðinn nokkuð gamall. Það er ég ekki, hvorki alvitur né gömul. Kannski aftur, spurning um sjálfstraust. Ég veit margt um þetta efni, en ekki allt.
---
Ég átti líka samtal við annan einstakling sem var á öndverðum meiði við mig í þessum málum, ég kvíði fyrir því að kynna efni ritgerðarinnar og mæta fleira fólki með þær skoðanir - því jú, þeir sem eru á öndverðum meiði við mig eru fleiri en þeir sem mér eru sammála. Allt spurning um vald ráðandi hópa.
--- En kollegar mínir, ég hvet ykkur til að kíkja á nýju lögin :)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hehe já kæri kollegi! Ég hlakka allavega til að lesa ritgerðina þína :)

Nafnlaus sagði...

Ég líka!
Fögnum henni með pulsu og meððí!

Ásdís Ýr sagði...

Ég er sko búin að panta ykkur í partý þegar gripurinn er tilbúinn... Fanney Dóra, það er alveg kominn tími á pulsu - engan hráan samt

Nafnlaus sagði...

þú ert kannski ekki orðin alvitur en þú ert samt eldri en í gær :) kollegi hefði ég haldið að væri manneskja sem ynni við svipuð málefni og þú en hvað veit ég?
Og vá!!! ADHD, SMT-og PMT úff hvað er stundum gott að vera kominn á minn aldur, ekkert xxxbúfff, iff, púff eða hvað þetta heitir í dag þegar börn eru illa uppalin að miklu leyti, en það er bara mín skoðun enda er ég ekki háskólagenginn.

Talandi um sjálstraustið :) þú ert betur sett þar á bæ en margar sýndarmennskudrottningar

Og að lokum er það þroskamerki að geta átt í samræðum við annað fólk án þess að vera sammála því.