þriðjudagur, apríl 10, 2007

Vinna og skóli again...

"Páskafríið" er búið... Reyndar var ég í litlu fríi núna um páskana líkt og undafarin 5 ár. Eftir 2 ár þá ætla ég í massa páskafrí. Til að ná smá páskastemmara át ég að sjálfsögðu yfir mig af góðum mat og súkkulaði með famelíunni. Anna María var æst í að fá að gista hjá mér tvær nætur, að sjálfsögðu leyfði ég henni það... smá egóbúst fyrir frænku. Það er nefnilega yfirleitt þannig að María verður eftir hjá þeim þegar við förum í heimsókn í Hafnarfjörðinn, en ekki núna því litla skottan vildi koma með mér heim. Eruð þið örugglega búin að ná þessu, hún vildi koma með MÉR heim hehehe --- En við María eru búnar að finna okkur nýtt hobbý, að skauta- ekkert smá gaman. Við fórum aftur í gær á svellið og Maja og Annsa pannsa komu með okkur. Þrjóskan í litlu skottunni minni, hún datt trekk í trekk en stóð alltaf upp aftur og reyndi að renna sér án þess að hafa stoðgrind. Anna María var líka að prufa og var orðin nokkuð sleip í þessu! --- Núna erum við bara komnar á rétt ról, vöknuðum að sjálfsögðu of seint í morgun en María kom í skólann á mínútunni eftir maraþon morgunmat. Við Hildur vorum hérna heima að læra að narta í leifar páskanna. Ég var að afrita eitt viðtal sem ég tók um daginn, ég náði loksins að tengja fótstig við tölvuna og þvílíka snilldin. Ég hægi svo mikið á hljóðinu að ég þarf nánast aldrei að stoppa en í staðinn hljómum við eins og morfínfíklar. --- Skóli á morgun hjá heimasætunni, vinna hjá mér og lærdómur eftir hádegi... Ps. Ég náði mér í nýtt blogg þar sem ég ætla að blogga um gáfulegri efni en hér :) www.asdisyr.blog.is endilega kíkið á það

laugardagur, apríl 07, 2007

One the ice..

Ég fór í hádeginu með skotturnar mínar tvær, Maríu Rún og Önnu Maríu á Skautasvellið í Laugardalnum. Anna Maja "stóra" kom með til að vera mér til aðstoðar með skessurnar á svellinu. Merkilegt nokk að skoða samsetningu hópsins á svellinu, í miklum meirihluta voru karlmenn með börn, svo komu hokkístrákar, listdansarar og minnsti hópurinn var konur með börn. Spurning um hvort svellið sé rétti pick-up staðurinn í dag?
En annars, gleðilega páska...

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Páskamaturinn

Mikið hlakka ég til að borða um páskana. Er þetta heilbrigt? Ég er í mesta basli með að ákveða hvað ég á að borða og hvenær, ég hef minnstar áhyggjur með hverjum. Ég held ég sé að missa vitið. Vinnudagurinn í dag fór í að ræða um mismunandi páskahefðir, uppskriftir og útlendar uppskriftasíður. Ég var orðin svöng þegar ég gekk út úr vinnunni. Ég væri alveg til í að skella reyktu svíni í pott og narta í það yfir lærdómnum, en það er einhver rödd í hausnum á mér sem segir að svoleiðis eigi maður ekki að gera. Er ég orðin klikkuð?

sunnudagur, apríl 01, 2007

Enn einn sunnudagurinn

Valla mín kom á föstudaginn, raddlaus og klifjuð af áfengi fyrir vinkonurnar á mölinni :) Við hittumst lítið á föstudagskvöldið þar sem við fórum báðar á smá útstáelsi. Hún á árshátið og ég í hitting á vegum deildarinnar. Fékk eitt undarlegasta símtal sem ég hef kynnst á leiðinni þangað. Hvítvínið var vont en Swissið á Sólon var fínt með Sunnefu um miðnætti. Valla kom svo í hús í miðjum Beverly Hills þætti. Hvað er málið með þessa þætti, ég er orðin húkt á þessu.
---
Við Valla vöknuðum svo á nokkuð skynsamlegum tíma í gærmorgun, Vallan fékk þrumuna lánaða og hitti vinkonu sína og ég reyndi eftir bestu getu að læra, en stundum er það besta bara ekki nóg! Við kíktum svo aðeins á búðarrúnt en enduðum kvöldið á Ítalíu þar sem María og Hildur komu líka. Ég keypti mér hvítvín með matnum, hænuhaus það kvöldið... Kofinn og Sólon fengu svo að njóta okkar áður en við fórum heim.
---
Dagurinn í dag var tekinn snemma, prakkarglottið mætti mér þegar ég gekk í flasið á Völlu í sófanum. Ég hélt að hún væri enn sofandi. Aftur reyndi ég svo að læra þegar Valla fór á vinkonuhitting, gekk lítið sem ekkert. Ég sofnaði með aðra hendina á tölvunni. Svo kom að því að Vallan þurfti að fara út á flugvöll til að komast heim. Ég og flugvellir virðumst ekki ætla að eiga gott samstarf, þegar við komum út úr bílnum á bílastæðinu ómaði fögur rödd í kallkerfinu sem tilkynnti brottför á flugi til Akureyrar. Valla missti nú samt ekki af fluginu.
---
Svo var skvísan sótt í Hafnarfjörðinn, hún var alsæl með helgina. Skottin mín hin tvö líka. Núna sefur skvísan hjá mér í sófanum og ég er að rembast við að fara ekki snemma að sofa, langar að vaka eftir Beverly Hills.

fimmtudagur, mars 29, 2007

Páfagaukaráðgjafi, Götusmiðjan og dautt hold

Upp, Upp, Upp, DUGLEG! Ég horfi á Kastljósið áðan og gat ekki annað en fengið verulegan kjánahroll þegar páfagaukaráðgjafi kenndi páfagaukaeiganda að leysa hegðunarvandamál páfagauksins. Jú, það mun vera svo að það eru ekki til óþekkir eða bara leiðinlegir páfagaukar, vandinn stafar af umhverfinu. Allt er nú til!
---
En svo er það blessuð Götusmiðjan, hún fer á götuna 1.júlí nk og búið er að segja öllu fólki upp störfum. Húsakynni Götusmiðjunnar á Akurhóli hafa alla tíð verið í lamasessi, heilbrigðisyfirvöld gáfu undanþágu fyrir starfseminni. Pælið í þessu, ríkið á Akurhól og Götusmiðjan færir starfsemi sína þangað frá Árvöllum þar sem húsin voru hin ágætustu. Nálægðin við Reykjavík skapaði helstu vandamálin þar. Þegar Götusmiðjan fór á Akurhól var lofað gulli og grænum skógum af hálfu hins opinbera en nú hefur komið á daginn að það hefur ekki gengið eftir.
---
Mér þykir alltaf svolítið vænt um Götusmiðjuna síðan ég var að vinna þar í den. Launin sem ég fékk voru hálfgert grín en vinnan var svo skemmtileg og ég lærði svo mikið þar. Sérstaklega lærði ég mikið af Mumma og eftir því sem ég lærði meira í náminu ígrundaði ég betur það sem ég lærði af honum. En vera í Götusmiðjunni mótaði mig mikið meira en ég held að mig gruni, BA ritgerðin mín varð til vegna einstaklings sem ég kynntist þar. MA ritgerðin mín er í raun sjálfstætt framhald af BA ritgerðinni.
---
En svo er það tönnslan mín. Ég er lúði, algjör lúði. Hún systa mín hló. Á mánudaginn fór ég með kjarkinn í 5.gír inn á tannlæknastofuna til að láta taka síðasta endajaxlinn. Ég hélt að þetta væri nú lítið mál því hún Anna mín væri svo klár. En ég gleymdi að taka hræðsluna í mér inni í reikninginn. Alla vega eftir að Anna og mamma hennar voru búnar að reyna að deyfa mig í klukkutíma gafst hún upp. Hún sagðist aldrei hafa tekið þetta í mál hefði hún vitað að ég þyrfti að koma "edrú". Hún sendi mig heim eftir einni Dísu og lét mig koma aftur. Þegar ég kom aftur var þetta lítið mál, tók rétt um 20 mín með öllu... og ég nokkurn veginn út úr kortinu. Hún sagðist kunna mikið betur við mig í þessu ástandi. Tek hana á orðinu, ég ætla aldrei aftur að mæta edrú til hennar!
---
En mér er ennþá illt í munninum, ég fékk panikkast í dag og var alveg viss um að jarðaför mín væri á næsta leyti. Ég hringdi í tannsa, Sunnefa tékkaði á múttu sinni og ég endaði á Læknavaktinni. Niðurstaðan var sú að nokkur bið verður á jarðaförinni, óbragðið sem ég finn í munninum er víst fullkomlega eðlilegt... dautt hold er víst ekki gott á bragðið. Mig langaði að æla á lækninn þegar hann sagði þetta við mig, dautt hold! Ég er alla vega orðin fíkill í munnskol, ég nota eitt kvölds og morgna og svo annað nokkrum sinnum yfir daginn, því hitt má bara nota tvisvar á dag.
---
Nóg af tuði, Vallan mín kemur með loftfari frá Akueyrinni á morgun. Hlakka til að knúsa kellu!

sunnudagur, mars 25, 2007

Ballerína og Blönduós

Á síðasta mánudag þurftum við mægður að hafa hraðar hendur eftir skóla. María var að fara á generalprufu fyrir ballettsýninguna sem plönuð var á þriðjudag. Við vorum nokkuð tímanlega þegar við komum heim, María fékk sér smá að borða og ég skellti snúðnum margfræga í hárið á henni og allt í einu vorum við nánast of seinar! Við gáfum okkur samt tíma til að skella einni mynd af sætustu ballerínunni með töskuna sína á leiðinni út
Generalprufan gekk vel, og þegar skvísan kom heim fór hún að sýna mömmu sporin sem stóru stelpurnar voru með í sínum dansi. Hún kunni þau bara nokkuð vel. En á þriðjudaginn var stóri dagurinn. Lovísa fékk að koma með okkur og horfa á Maríu dansa, hún þurfti að mæta svo snemma í leikhúsið að mamma, pabbi og Lovísa fengu sér smá göngutúr um Kringluna- keyptu smá nammi og svona notalegheit. En svo kom að því sýningin byrjaði, við vorum mörg í mínum hópi en lítill hluti dansaði í einu. Hér er prinsessan að bíða eftir því að röðin komi að mér.

Svo mikil dúlla

En svo kom að því að minn hópur fór að dansa. Ég var mjög einbeitt allan tímann með tunguna út í kinn :)

Með hendur á mjöðmum
Eins og svanir :)

Síðasta staðan

Eftir sýninguna fórum við öll saman á McÓðal og fengum okkur að borða og svo var bara kominn tími til að fara heim að sofa eftir góðan dag. Síðan hefur vikan bara verið ansi annasöm, Nonni fór af landinu á miðvikudag og ég fattaði ekki fyrr en þá að ég ætti eftir að redda "sækingu" fyrir Maríu hans daga. Mamma sótti hana fyrir mig svo það reddaðist, en við vorum ekki komnar heim fyrr en rúmlega átta báða dagana. Helgarfríið var því velþegið þegar það loks kom. Á föstudaginn var að sjálfsögðu pizza hjá Maju eins og venjulega, við sátum lengi frameftir hjá þeim eins og venjulega :)

Í gær var svo á planinu að fara í síðasta ballettímann en María nennti ekki. Svo fórum við í Hafnarfjörðinn. María var eftir hjá Begga og við Maja sóttum Martin og fórum með hann í fermingu til Ragnars Freys hennar Hildar frænku. Eftir ferminguna brunaði ég í bæinn og hitti nokkrar Blönduósskvísur, það rosa gaman. Mikið hlegið og haft gaman af. Við fengum okkur að borða á Vegamótum og sátum og spjölluðum. Takk fyrir frábært kvöld, verðum að gera þetta oftar! Við tókum nokkrar myndir því til sönnunar að við höfðum hisst

Kidda sem vinnur hjá Kaupþing í Reykjavík og er að læra viðskiptafræði á Bifröst með vinnunni og Helga er iðjuþjálfi á Blönduósi og sveitarstjórnarkona með meiru.

Svo er það Hugrún sem grunnskólakennari, tónlistarkennari og oraganisti og býr Skagaströnd. Svo er það hún Erla, við vorum saman í grunnskóla að 6.bekk og svo í háskóla en hún er uppeldis- og menntunarfræðingur eins og minns. Erla býr hvergi eins og er :) og ég er bara ég.

Mig er farið að þyrsta í páskafrí, það er samt svo mikið eftir að gera... ég á eftir að henda heilum kassa á bókum og greinum inn í EndNote. 5 verkefni bíða þess að verða unnin, 12 verkefni bíða yfirferðar og skila. Inn á milli þessa þarf ég að safna gögnum, taka viðtöl og fara í þátttökuathuganir... og þar allra leiðinlegasta - að afrita viðtölin og þátttökuathuganirnar. Auk þess þarf ég að lesa slatta og vinna en ég var að bæta við mig vinnu á skrifstofunni. Jafnréttisáætlun deildarinnar er þar í smíðum, bara skemmtilegt verkefni.

En ný vinnuvika byrjar ekki skemmtilega, kl. 8.30 í fyrrmálið á að taka síðasta endajaxlinn úr frúnni og þar sem tíminn er svona snemma þá verð ég að vera "edrú".. kvíður vel fyrir því. Svo allir leggist á bæn og hugsið til mín frá 8.30-9.30! Danke

Og svo bara í lokin...


Which Trainspotting Character Are You?

þriðjudagur, mars 20, 2007

Táknrænt eða hvað?

Nóg af árshátíðarpælingum, alvarlegri málefni taka við! Síðustu dagar Alþingis voru viðburðarríkir líkt og venjulega fyrir þinglok. Sameining HÍ og KHÍ varð að lögum á föstudaginn þrátt fyrir að samstaða ríki ekki um endanlega framkvæmd, minnilhlutinn í menntanefnd setti fyrirvara þess efnis í greingargerð sína og tók það fram að sameiningarferlið gæti gengið til baka. Það verður spennandi að sjá hvernig staðan verður 1.júlí 2008. En Ágúst Ólafur náði loks frumvarpi sínu í gegn um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum, miklar umræður voru um það á kaffistofunni í vinnunni í gær.
---
Afbrotafræðiprófessor vildi meina að aðgerðin væri fyrst og fremst táknræn, hún markaði tímamót fyrir þolendur kynferðisofbeldis en hefði ekkert vægi réttarfarslega. Hann taldi að sakfellingum myndi ekki fjölgja því sönnunarbyrðin verður enn erfiðari eftir því sem lengra líður frá broti. Hann kom með nokkra áhugaverða punkta um þetta, er hætta á því að málsmeðferð dragist nú enn meira en þekkt er? Hverra hagsmuna er verið að gæta, er það endilega það besta í stöðunni fyrir fullorðinn einstakling sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi í æsku að taka málið upp og mæta ofbeldismanninum? Er ekki hætta á því að fólk "geri ekkert" í málunum fyrr en seint og síðarmeir þegar það hefur nógan tíma? Mér finnst þetta allt vinklar sem vert er að skoða.
---
Annar félagsfræðiprófessor taldi rétt að afnema alla fyrningafresti á brotum ef "alvarleikinn" á að segja til um það. Hver á dæma um alvarleika hvers brots? Minniháttar líkamsárás getur haft djúpstæð áhrif á einstakling til lengri tíma á sama hátt og kynferðisbrot, þó það sé ólíklegt þá er það mögulegt. Eru kynferðisbrot jafn alvarleg og morð og landráð, sem eru samkvæmt kaffistofunni einu brotin án fyrningar? Til hvers erum við með fyrningarfresti á brotum yfir höfuð?
---
Flestir voru sammála afbrotafræðiprófessornum að þessi aðgerð væri fyrst og fremst táknræn, hún hefði ekkert gildi annars. Hvað finnst ykkur?

sunnudagur, mars 18, 2007

Sunday

Árshátíðin var í gær... það er ekki laust við að smá "þreyta" sé að síga í kroppinn eftir kvöldið. Mér finnst alltaf jafn fyndið að hugsa til þess þegar ég fór í árshátíðina í fyrra og hélt að ég væri að fara að mæta á steingelda samkomu fræðimanna sem hefðu engan húmor. Í stuttu máli þá má segja að ég hafði mjög svo rangt fyrir mér. --- Herlegheitin hófust í snemma dags í gær. Ég keypti mér nýjan kjól fyrir kvöldið og taldi mig nokkuð ready með hann upp á arminn en allt kom fyrir ekki hárblásarinn minn dó í miðjum klíðum, veskið sem ég ætlaði með fannst ekki, þjófavörnin var ennþá í kjólnum og það var blindbylur úti. En Guðrún reddaði mér, en ekki hvað? Hún kom með blásara og sléttujárn, skvísaði til á mér hárið, lánaði mér veski og keyrði mig í fyrirpartýið. Þjófavörnin er ennþá í kjólnum. --- Oddverjar hittust til að væta kverkarnar heima hjá deildarforseta vel tímanlega fyrir fordrykk í Gullhömrum. Samræðurnar þar voru fjölbreyttar og það var pælt í ýmsu. Einn þekktur maður sagði mér að hann hefði nú næstum því verið of seinn til Óla því hann hefði verið að grúska í dag, jújú það var nefnilega þannig að kollegar hans héldu því fram fyrir helgi að með auknum ójöfnuði hefðu glæpatíðni aukist. Hann ákvað að kynna sér þetta til að geta hrakið þetta, og vitið menn, rétt fyrir kl. 17 komst hann að þeirri niðurstöðu að kollegarnir hefðu rangt fyrir sér. Þegar hann vissi um bakgrunn minn í uppeldis- og menntunarfræðinni og núverandi nám fór hann að segja mér frá reynslu sinni í tengslum við börn og nám. Samkvæmt honum er það víst þannig að sum börn geta einfaldlega ekki lært, þau eru bara illa gefin (Munnleg heimild. Oddverji, 17.mars 2007). --- Rútan sótti okkur svo rétt fyrir 19 (ekki frá Kynnisferðum Guðrún- Teitur!). "Ófærðin" í Hlíðunum olli smá vandræðum með stórkostlegri fimi bílstjórans í snjóakstri tókst að koma rútunni út á Miklubraut. Þjófavörnin slóst heldur of mikið í kálfann í rútunni. Loks komum við í Gullhamra, mér leið eins og litlu barni í röðinni í anddyrinu þegar nokkrir menn fóru að rifja upp ákveðið atvik í Glaumbæ og annað í Hollywood þegar þeir voru 16 ára. Ég meina ég hef aðeins lesið um þessa staði! Fordrykkurinn var dísætt freyðivín sem búið var að stilla upp á borðum- ég gat ekki annað en hugsað um það hvað þetta var mikið snyrtilegra og þægilegra fyrir þjónana heldur en bakkasörvis. --- Árshátíðin sjálf var æði, dádýrið rann ljúflega niður með dýrindis rauðvíni og Breezerinn var hressandi þegar líða tók á kvöldið. Baggalútur kom sá og sigraði, Raggi Bjarna rifjaði upp eld-gamla takta og hljómsveit hússins hélt uppi stuðinu fram á nótt. Þegar vel var farið að þynnast í hópnum á dansgólfinu ákvað ég að skella mér í bæinn með "unga fólkinu". Sumir voru búnir að drekka allt of mikið og lögðu sig heldur mikið á Ölstofunni og fengu því handleiðslu út af staðnum, aðrir áttu í stökustu vandræðum með franskan hönk, enn aðrir pirruðu sig á karlmönnum og hinir (ég) sátu með Southern og höfðu það næs fram undir morgun. Eina parið í "unga" hópnum fór heim fljótlega eftir að við komum á Ölstofuna. --- Þegar klukkan var að ganga fimm vorum við þrjár eftir; ég, Silja Bára og Svandís Nína. Okkur datt ekki í hug að ganga niður að leigubílaröð heldur stoppuðum við næsta bíl og fengum ökumanninn til að keyra okkur heim. Hann var 17 ára og nýfluttur til Reykjavíkur úr Dölunum, hann rataði ekkert í Reykjavík en ég og Silja Bára komumst heim til okkar- ég býst við því að hann hafði komist heim til Svandísar Nínu en ég veit ekkert hvort hann hafi svo ratað til baka greyið. En við komumst nú heilar heim og þjófavörnin ennþá í kjólnum! --- Frábært kvöld!

sunnudagur, mars 11, 2007

Dugleg spelpa!

Nú er sunnudagur.. styttist í að hann verði búinn og aldrei þessu vant hef ég náð að afreka eitt og annað um helgina. Verið alveg róleg, ég var ekki að djamma svo ég afrekaði enga skandala á því sviði- enda löngu hætt svoleiðis :)
---
Á föstudaginn sótti ég Maríu snemma í skólann, við þöndum sportarann og drifum okkur í Hafnarfjörðinn og sóttum hina prinsessuna mína hana Önnu Maríu á leikskólann. Að sjálfsögðu byrjaði hún að tala áður við mæðgur náðum að komast alveg inn á deild til hennar og hún spjallaði non-stop alla leiðina heim til sín. Hún er svo mikil rófa, hún sagði mér að hana langaði að mamma sín ætti alveg eins bíl og ég! Reyndar á Maja tæknilega bílinn en ég var ekkert að útskýra það fyrir henni. En henni fannst bíllinn ógisslega flottur!
---
Heill her kvenna með Ottó í hægri síðunni bakaði svo pizzu heima hjá Maju. Maja rifjaði upp flotta pizzugerðartakta frá Western fried og henti deginu fagmannlega í loftið til að fletja það út. Beggi og Siggi komu svo tímanlega í pizzuátið og líkaði bara nokkuð vel, Maja átti reyndar stærsta heiðurinn af þessu öllu saman. Ég henti áleggi á eina pizzu, og Maja gerði eiginlega rest :) Enda hefur hún reynsluna og er því best í þessu! Við María hengum svo hjá Hafnfirðingunum okkar fram eftir kvöldi en drifum okkur svo heim áður en möguleiki var á barnaverndarstarfsmönnum í eftirlitsferð um bæinn... segi svona.
---
Á laugardaginn vaknaði ég á undan Maríu sem gerist mjög sjaldan um helgar, María kom fram að horfa á barnaefnið um hálf níu leytið og ég sat og las Skugga-Baldur í sófanum á meðan. Stutt og fín bók, ég hefði sennilega ekki lesið hana nema af því ég þarf að gera það vegna vinnunnar. Ég náði að klára verkið áður en prinsessan fór í balletskólann. Á meðan hún var í ballett brunaði ég í Hagkaup og keypti mér nýjar svartar buxur- sem betur fer voru til eins buxur og ég keypti um daginn. Ég stökk því bara á rekkann, tók rétt númer og beið í röðinni til að borga. Hinar buxurnar sem ég keypti um daginn urðu fyrir því óláni að hlaupa vel í þvottavélinni, tóku góðan sprett! og ég fattaði það á laugardagsmorgun og þurfti að nota þær í vinnu seinni partinn.
---
En jæja, áfram með dugnaðinn. Við mægður skelltum okkur svo heim eftir ballettinn og tókum til í tösku fyrir prinsessuna því hún var að fara í gistingu til Ingu. Hún var voðalega spennt og velti því mikið fyrir sér hvort hún og Brynhildur fengju að sofa á dýnu í sjónvarpsherberginu eða hvort Brynhildur myndi lesa fyrir hana í rúminu hennar. Svo gott að eiga stóra frænku! Á meðan stubbann var hjá Ingu fór ég að vinna. Ég, Guðrún og Sunnefa höfðum lofað okkur í vinnu á árshátið Símans í Laugardalshöll. Þvílík keyrsla og mikið af fólki.. rétt um 1300 manns. Undir lok kvöldsins var ég orðin nokkuð sleip í að ganga hratt, mjög hratt, með þrjá diska út í sal. Nokkuð stolt af því sko- ég missti engan! var nálægt því í tveimur ferðum.. en slapp
---
Vinnan var búin og ég á heimleið um hálf tvö í nótt, fæturnir voru alveg að gefa sig - mér hefur sjaldan langað eins mikið í sjálfskiptan bíl og í nótt. Helv.. kúplingin, það var svo vont að stíga á hana. Ég stoppaði í klukkubúðinni í Lágmúla á leiðinni heim, náði mér í snakk, kók og dvd. Ég keypti kók og tók með mér heim- eitthvað sem ég hef ekki gert í tæpan mánuð. Ég hlammaði mér svo í sófann með sæng og skellti myndinni í spilarann góða.
---
Þegar ég vaknaði í morgun lá beinast við að smella á "resume film" þar sem ég steinsofnaði áður en myndin byrjaði að nokkru viti í nótt og ég var ennþá í sófanum með snakkið og alle græjer þegar ég vaknaði. Þar sem klukkan var bara rétt um níu ákvað ég að horfa á myndina. Bara nokkuð góð ræma á ferð. Í hádeginu hringdi ég svo í Kollu og óskaði henni til hamingju með prinsinn sem átti afmæli um daginn, búin að ætla að gera það í rúma viku en lét verða af því í dag. Þegar símtalinu var lokið skellti ég mér í jakka og skó og vopnuð skólatösku og taupoka með fullt af bókum fór ég út.
---
Núna, nokkrum klukkutímum seinna er ég nánast búin með aðferðafræðikaflann í MA ritgerðina mína, bara oggupons eftir. En harðsperrurnar í höndunum, fótunum, bakinu og náranum eru á undanhaldi. Ég hélt ég væri að endulifa harðsperrurnar á Þorrablótinu á Akureyri, svona er þegar maður er í svona góðu formi! Jamms, manni hefnist letin og aðgerðaleysið þegar maður hreyfir sig loksins eitthvað- og ég tala nú ekki um hreyfingarnar sem maður er ekki vanur!
---
Nóg af öllu monti, ég hefði nú átt fríhelgi þannig séð ef ég hefði verið duglegri undanfarið... Það kemur að því að ég eigi fríhelgi- einn daginn!

föstudagur, mars 02, 2007

Fremtiden!

Oohhh, ég þoli ekki að vera orðin fullorðin og þurfa að taka ákvarðanir um framtíðina... Hvar á ég að búa? Í hvaða skóla á María að fara næsta haust? Hvað á ég að gera þegar ég er búin með skólann? Á ég að halda áfram að læra eða fara að vinna? Mér finnst ég þurfa að taka svo mikið af ákvörðunum núna að ég er ekki að höndla það... Framtíðarheimilið okkar Maríu, hvar á það að vera? Mig langar að búa í vesturbænum áfram, við fluttum hingað haustið 2002 og ég er orðin samgróin Suðurgötunni og stóra hringtorginu. En eins og fasteignamarkaðurinn er hérna í dag þá er það mjög svo fjarlægur möguleiki að ég geti keypt hérna. En svo langar mig stundum að flytja út á land, ódýra húsnæði og rólegra umhverfi.. og lítið af fólki sem þekkir mann. Stundum langar mig að flytja til Akureyrar og stundum til Skagastrandar.. ólíkir staðir :) En þá kemur stóra spurningin, hvað á ég að vinna við þar?? Það er sennilega meiri möguleiki á góðri stöðu á Akureyri en... ef við búum á Akureyri eigum við þá ekki eftir að sakna allra í Rvk??? Skólinn hennar Maríu.. hún er að klára fimm ára bekkinn núna. Ef ég læt hana hætta í Landakoti og fara í Melaskóla þá finnst mér ég tilneydd til að koma mér í húsnæði hérna í vesturbænum næsta sumar... með góðu eða illu svo hún geti verið í Melaskóla eitthvað áfram. Helst vil ég að hún verði í sama skólanum þar til hún verður 16 ára. Tvær af stelpunum í hennar bekk hætta í Landakoti og fara í Vesturbæjarskóla. Það er margt sem ég er óánægð með í Landakoti en margt sem ég er ánægð með. Auk þess finnst mér það skipta miklu máli hvar við mæðgur endum haustið 2008. En hvað á ég að gera þegar ég er búin með MA prófið... á ég að halda áfram og klára náms- og starfsráðgjöfina, eða fara í dipl. í opinberri stjórnsýslu eða jafnvel hætta þessu skólaveseni og fara að vinna??? og hvar á ég þá að fara að vinna... Hvað á ég að gera?? Reykjavík vs landsbyggðin? Landakot vs Melaskóli? Skóli vs vinna?

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Stjörnuspáin í dag...

Naut
Þú ert á góðri leið með að finna aftur allt sem þú týndir. Það tekur nokkra daga. Ekki gefast upp. Það verður í fullkomnu lagi með þig. Einn andardráttur í einu. Bogmaður stendur með þér.
Fyndið hvernig maður getur alltaf látið spánna passa vel við lífið :)

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Photos..

Ég er búin að dúlla mér við það síðustu daga að setja inn myndir af hinu og þessu... ég er loksins búin að því - Humarveisla hjá Guðrúnu og Gunna - Menningarferð Hildar, Maríu og Ásdísar - Fab4 út að borða og á Sálinni í Hlégarði - svo aðalinn.. afmælið hennar Völlu á Akureyri og svo setti ég aftur inn útskriftarmyndirnar Enjoy..

Grunnskólakennari????

  • Ef þú ert grunnskólakennari á unglingastigi þá þarf ég að tala pínu við þig...
  • Ef þú þekkir einhvern sem er grunnskólakennari á unglingastigi þá þarf ég að tala pínu við þig líka
  • Ef þú þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem er grunnskólakennari á unglingastigí þá þarf ég að tala pínu við þig
Very very important! Sendið mér mail á aya@hi.is

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Good old days...

Ég var að spjalla við Sigga Valla um daginn og við vorum að spá í hitting allra gömlu félagana í Mosó.. og jafnvel hafa landa til að ná upp gamla andanum :) Við Sunnefa kíktum aðeins út í gær og hittum nokkra Mosfellinga, ég hló þar til mig verkjaði í andlitið- sumir hafa ekkert breyst. Svo rakst ég á gömlu árbókina úr Gaggó í gær- í þvinnkunni í dag fór ég að skoða þetta og vá hvað sumt er fyndið... Elín Elsku Ásdís! Takk fyrir liðin ár! Þá sérstaklega sl. vetur þar sem þú varst meistarakokkur í matreiðslu. Vertu hress og passaðu þig á öllum gæsunum í menntó. Sjáumst Elín. Ekki hefði mér dottið í hug á þessum tímapunkti að við Elín ættum eftir að verða eins góðar vinkonur og við erum í dag, þykir endalaust vænt um Línu mína :) En matreiðslutímarnir voru ekkert smá skemmtilegir... Guðrún Elsku Ásdís. Takk fyrir að "muna" að láta mig skrifa. Loksins BÚNAR. Vonandi tekur nú við svipað sumar og í fyrra. Það verður vonandi gaman hjá þér, nördinu í MS á næsta ári og vonandi mun vinskapur okkar haldast lengi. Love you, þín Guðrún Svipað sumar.. ómæ komandi sumar, the one and only summer of ´97... það var langt frá því að vera svipað fyrra sumri. En nördið í MS hætti þar við, sótti um í FS og hætti við á skólasetningunni og gekk inn í Borgó um miðjan september. Og jújú, við erum enn vinkonur Kolla Elsku Ásdís mín. Loksins erum við búnar með gaggó. Til hamingju með einkunnirnar úr samræmdu. Maður á nú eftir að sakna þess að keyra allar kjaftasögurnar á mánudögum, þín Kolla. Ps. Passaðu hvar þú sest niður Kolla mín, við Guðrún vorum góðar með slúðrið í smíði og saumum á mánudögum! En ég fatta ekki þetta með að setjast niður, hvað var það? Man það einhver? Sunnefa Elsku ástin mín. Takk fyrir að vera til því án þín væri ég ábyggilega bara "HH". Þín að eilífu!!! Love you, Sunnefa XXXX Viðburðaríkur vetur hjá okkur Sunny.. en hvað var "HH"? Helgi Laxdal Vonandi skemmtirðu þér þessi ár í skólanum og vonandi verðurðu gömul kona. Kveðja Helgi. Ég vona að ég verði gömul kona... Þorri Elsku Ásdís mín. Ég mun ALDREI gleyma þér því ég þarf endilega að búa rétt hjá þér. Ég man ekki eftir því að hafa séð Þorra neitt að ráði frá því þennan dag :) Við bjuggum jú rétt hjá hvort öðru en allt kom fyrir ekki... Árni Dö Ég hef elskað þig úr fjarska í mörg ár, vonandi sérðu möguleika á ástarsambandi á næstunni. hahahhaha Helgi Þór Takk fyrir allt það liðna. Vertu Hx-tx% en ekki Ba-tx% Algebru húmor bíst ég við... Anna Hlíf Elsku Ásdís. Takk fyrir þessa erfiðu 3 vetur og þessar helgar sem við skemmtum okkur sman. Sjáumst kannski hressar í MS Við vorum lengi að kynnast :) en urðum svo prýðis djammfélagar, eitt partý heima hjá Erlu Víðis er mér ofarlega í huga... Atli Elsku Ásdís ofurbeib. Takk fyrir frábæran vetur og til hamingju með prófin og gangi þér ýkt vel í framtíðnni. Þinn elskulegi vinur Atli Það ekkert verið að spara stóru orðin, en ég man ekki til þess að við höfum verið eitthvað sérstaklega góðir vinir-bara svona bekkjarfélagar :) Erla Víðis Elsku Ásdís. Takk fyrir öll árin, þetta er búin að vera frábær vetur í öllum tímunum, það er eins gott að við djömmum mikið saman framundan og verðum svolítið ... (ekki prenthæft)... Bara eins gott að fá ekki of miklar harðsperrur. Þín heittelskaða Erla Bókin góða í ensku... djömmuðum smá á þessum tíma, ekki prenthæft! Fanney Elsku Dísa mín. Takk fyrir frábæran vetur og bara allt árið. "Viltu lána mér jakkann þinn?"... Ég held ekki. Sjáumst á djamminu. Þín vinkona Fanney Hvað er þetta með jakkann?? Fanney? Við áttum sko eftir að hittast á djamminu... Þórsmörk ´97- brekka var okkar eini vinur :) Gunnar Helgi Takk fyrir veturinn, sorry að ég keypti ekki úlpu. Kær kveðja Gunnar H. Mér var alltaf kalt í skólanum. Gunnar Helgi vildi alltaf hafa opinn gluggann en ég vildi hafa hann lokaðann... Júkki Takk fyrir samveruna. Love forever, see you later! Sömuleiðis bara.. hvað ætli sé að frétta af honum? Valdís Eva Elsku Ásdís mín! Þakka þér fyrir þennan vetur, allar sjoppuferðirnar. Ég vona að ég hafi reynst þér góður hlustandi en hvað með það. Vonandi hittumst við bara á djamminu og hafðu það gott. Þín vinkona Valdís Eva. Valdís lenti oft í því að þurfa að hlusta á öll vandamálin mín síðasta veturinn í gaggó... DJ og allt heila klabbið :) Ég man ekki til þess að við höfum hisst oft á djamminu eftir þetta Og svo voru það blessaðir kennarnir... Árni Freyr Sigurlaugsson 8.9.-ÁF. - Persónulegur kallinn! Miss Wonderbra, have a nice life. Jónína.- Wonderbra hvað Kæra Ásdís. Þakka þér fyrir samveruna undanfarin þrjú ár. Það er mikið í þig spunnið! Nýttu það með þér og ræktaðu það jákvæða. Þinn enskukennari Hlín- Líst vel á Hlín, hún hefur séð gegnum gelgjustælana :)

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Humm...

Ég held að ég sé búin að vera pínu manísk undanfarið.. Ég er hætt að reykja og mér finnst ég eiga svo mikið af verðlaunum skilið- þó það séu liðnir örfáir dagar síðan í drap í :) Í gær fór ég í neglur og svo sótti ég Maríu í skólann. Á leiðinni á sundnámskeiðið varð ég fyrir því óláni að nudda kagganum utan í annan kagga... ekkert alvarlegt og meira að segja pínu fyndið í ljósi aðstæðna síðustu daga og vikna- ég hef keyrt tjónlaus frá 1999!
---
Við vorum of seinar í sundið svo við skelltum okkur bara í Kringluna að kaupa afmælisgjöf fyrir Lovísu Marý. Í röðinni í Hagkaup sá ég buxur sem gjörsamlega æptu á mig, ég hugsaði með mér að ég væri nú þegar búin að spara hellings pening með því að hætta að reykja og ákvað að kippa þeim með og vísa þeim til næstu mánaðarmóta. En þetta er ekki búið- ég lét mér ekki nægja neglur og buxur...
---
Ég hitti Hildi í smá "kaffi" í Kringlunni, á leiðinni upp á Stjörnutorg sá ég stígvél sem gjörsamlega misstu það þegar ég gekk framhjá. Ég ákvað að kíkja betur á þau og vitið menn- þau smellpössuðu. Ég sá mig alveg í þeim við fullt af fötum sem ég á og svo vantar mig lág svört stígvel. Ég ákvað að vísa þeim líka til næstu mánaðarmóta- en ég lét mér ekki nægja eitt par heldur var mun hagstæðara að kaupa tvö pör.
---
En þrátt fyrir að fá mér nelgur, kaupa buxur og tvenn stígvél þá er ekki feit vísafærsla þar á bak við... þetta er búið að kosta mig 10 þús kall- sem mér finnst ekki mikið fyrir allt þetta, ég elska útsölur..

föstudagur, febrúar 09, 2007

Lífsreynslusaga konunnar í sveitinni

Svo segir konan frá: Dag einn hitti ég yndislegan herramann og við urðum ástfangin. Þegar það varð ljóst að við myndum giftast ákvað ég að fórna því sem ég hafði mikið dálæti á. Ég hætti að borða bakaðar baunir. --- Einhverjum mánuðum seinna, á afmælisdaginn minn, og ég var að fara heim frá vinnu, bilaði bíllinn minn. Þar sem ég bjó út í sveit hringdi ég í manninn minn og sagði honum að ég kæmi seint þar sem ég þyrfti að ganga heim. --- Á leið minni heim gekk ég fram hjá litlu veitingahúsi og lyktin af bökuðum baunum var meiri en ég gat staðist. Þar sem ég átti eftir að ganga nokkra kílómetra áður en ég næði heim reiknaði ég það út að ég myndi ganga af mér þá kvilla sem fylgdu því að borða bakaðar baunir áður en ég kæmi heim. Svo ég stoppaði á veitingahúsinu og áður en ég vissi af hafði ég klárað þrjá stóra skammta af bökuðum baunum. --- Alla leiðina heim fullvissaði ég mig um að ég hefði losað mig við allt gas sem fylgir slíkri græðgi. Þegar heim var komið tók eiginmaður minn spenntur á móti mér og sagði: "Ástin mín! Ég ætla að koma þér á óvart við kvöldverðarborðið." Hann batt síðan slæðu fyrir augun á mér og leiddi mig að stól við borðið. Ég fékk mér sæti og rétt í því sem hann ætlar að leysa frá augunum á mér, hringdi síminn. --- Hann lét mig lofa því að ég myndi ekki kíkja fyrr en hann hefði afgreitt símtalið og svo fór hann til þess að svara í símann. Bökuðu baunirnar sem ég hafði innbyrt voru ennþá að hafa áhrif á mig og þrýstingurinn var að verða óbærilegur. Svo að á meðan eiginmaðurinn var í öðru herbergi notaði ég tækifærið, lét allan þunga minn hvíla á annarri rasskinninni og hleypti einu skoti út. Það var ekki eingöngu hátt heldur lyktaði það eins og gúanóverksmiðja. --- Ég tók servíettuna úr kjöltu mér og notaði hana sem viftu. Svo lyfti ég mér upp á hina kinnina og skaut þremur í viðbót. Lyktin var verri en af soðnu káli. Þessu hélt ég áfram í fimm mínútur í viðbót á meðan ég hlustaði gaumgæfilega á samræðurnar sem fram fóru í hinu herberginu. --- Ánægjan var ólýsanleg eða þar til kveðjuorðin í hinu herberginu bundu enda á þetta frelsi mitt. Ég loftaði í flýti í kringum mig með servíettunni, lagði hana síðan í kjöltu mér og kom höndunum fyrir ofan á henni og hugsaði um hversu vel mér liði og hversu ánægð ég var með mig. Andlit mitt hlýtur að hafa sýnt mynd sakleysis þegar eiginmaður minn kom aftur og baðst afsökunnar á því að hafa verið svona lengi í símanum. Hann spurði mig hvort ég hefði nokkuð svindlað og kíkt en ég fullvissaði hann um að það hefði ég ekki gert. --- Þegar hér var komið sögu tók hann slæðuna frá augum mér og tólf kvöldverðargestir sem sátu í kringum borðið hrópuðu: "Til hamingju með afmælið!" Það leið yfir mig!!!!!!!!!!!!!!!!!! Sem betur fer er lífið ekki svona á Eggertsgötunni- nema kannski í ímynduðum heimi :)

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Breiðavík...

Þvílíki viðbjóðurinn. Ég á fá orð um þetta nema viðbjóður og mannvonska. Fréttatímar síðustu daga hafa lítið annað gert en að fjalla um hörmungarnar sem þessir drengir þurftu að þola svo árum skipti. Þegar Lalli Johns brotnaði niður þá gerði ég það líka, ég vorkenndi honum svo mikið. Hann er nagli, hann þarf að vera nagli til að geta lifað á götunni og á Hrauninu en það að hann skildi brotna niður 40 árum eftir þetta segir manni ansi margt.
---
En í dag finnst mér það ekki skipta máli hvað var gert og hvernig. Við erum búin að fá að vita það að líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi var daglegt brauð þarna um margra ára skeið. Ég vil fá að heyra frá opinberum starfsmönnum þessa tíma. Ég vil að Bjarni Þórhallsson komi fram í fjölmiðlum og skýri sitt, í það minnsta, þar sem brot hans eru líklega fyrnd. Ég vil að skýrslur sálfræðingsins sem skoðaði heimilið árlega í 13-14 ár komi fram í dagsljósið. Ég vil að þeir starfsmenn sem þarna unnu á þessum tíma komi fram og segi sína sögu. Auk þess vil ég að eftirlifandi starfsmenn ríkis, barnaverndar og sveitarfélaga sem áttu sinn þátt í því að senda drengi þangað komi fram og viðurkenni ábyrgð sína. En sjaldnast fæ ég það sem ég vil...
---
Á barnaland.is eru fjörugar umræður um þetta, margar hverjar hafa gengið svo langt að leita að minningargreinum um fyrrv. forstöðumanninn. En þar eru líka margar sem vilja halda því fram að svona heimili gæti aldrei blómstrað í dag. En hvað með Byrgið? Þangað fóru einstaklingar á öllum aldri, ekki eins ungir á á Breiðavík en margir ungir. Sagan segir að tíu börn hafi verið getin á staðnum síðastliðin ár, þegar starfsmenn nýttu sér völd sín og valdleysi niðurbrotinna kvenna, skjóstæðinga sinna. Fyrir nokkrum árum síðan lokuðu félagsmálayfirvöld heimili fyrir unglinga, ástæðan mun hafa verið samskiptavandi milli ráðuneytis og heimilisins. Í þeirri umræðu kom ekki fram að sonur hjónanna á heimilinu hafði verið ákærður og sýknaður af kynferðislegu ofbeldi gagnvart stelpum sem voru í vist á heimilinu.
---
Þegar ég var að vinna BA ritgerðina mína rakst ég á fullt af heimildum um heimili sem rekin voru af barnaverndarnefndum um land allt, auk þess benti Jón Torfi mér á hin ýmsu heimili sem hann þekkti til. Mörgum þeirra var lokað nánast fyrirvaralaust og ekkert gefið upp afhverju. Það kæmi mér ekki á óvart ef fleiri mál af sama toga færu að spretta upp núna. Nú er lag að koma þessu í gott stand- eins gott stand og hægt er.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Fjarlægðin..

...gerir fjöllin blá og langt til Akureyrar :) Annars er ég búin að vera svaka dugleg í dag. Byrjaði á því að labba í vinnuna, tilneydd því bíllinn var frosinn læstur en það var bara nokkuð hressandi. Í vinnunni svaraði ég í símann eins og venjulega, það var svo lítið að gera að við nánast slóumst um að svara. Ég fann svo líka út hvar ég átti að staðsetja rannsókina mína- etnógrafísk case stúdía. Svo hitti ég hana Helgu mína í kaffi, eftir margra mánaða planerí hittumst við loksins. Svo skottaðist ég heim, náði í pappakassa og fór að róta til í geymslunni og skápunum í stofunni. Núna er bara að halda áfram að setja í kassa... þegar ég er búin með útdráttinn úr BA ritgerðinni sem Borghildur þarf að fá hjá mér.

Svarið er...

.. etnógrafísk case stúdía :) Hitti leiðbeinandann minn í dag og við komumst á þeirri niðurstöðu þar sem ég er í raun að skoða menningu í menningu- innan ákveðins kerfis?? Hljómar hallærislega en er víst það sem ég er að gera...
---
Hef annars lítið að segja, bara 5 dagar eftir af lífi reykingamanns og fullt af dögum eftir sem no-smoker :) Zypanið fer pínu í skapið á mér að ég held.. alla vega er ég búin að við viðbjóðslega skapvond síðustu daga og hvæsi á alla við minnsta tilefni.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Úffff

Hausinn á mér er að brenna yfir! Ég var í tíma í eigindlegum á síðasta þriðjudag þar sem verið var að fjalla um aðferðafræðina á bak við hverja rannsókn fyrir sig og það rannsóknarsnið sem maður ætlar að fylgja í sinni rannsókn. Ég hélt að ég hefði skilið þetta ágætlega eftir tímann- ég var samt pínu rugluð en ekkert meira en venjulega. Svo fór ég að vinna í gær vinnuáætlun fyrir námskeiðið og ætlaði þar að koma að þeirri aðferðafræði og því sniði sem ég er að vinna undir- þá fór allt í klessu. Ég steinhætti að skilja nokkurn skapaðan hlut. Í dag var svo umræðutími í eigindlegum. Ég skildi fyrst fullt, svo ekki neitt og svo fullt og svo ekki neitt. Í fyrradag var ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti sett mína rannsókn fram sem grounded theory. En sú gagnaöflun sem ég er búin að vinna passar ekki þar inn í. Ég hef nýtt mér markvisst úrtak en grounded theory krefst fræðilegs úrtaks. Samt sem áður er hluti af grounded theory að finna út orsakatengsl ákveðinna hluta og ég ætla að gera megindlega rannsókn næsta haust en orsakatengsl á megindlegan mælikvarða eru víst mjög ólík orsakatengslum eigindlegra rannsókna. Ég held að ég geti ekki notað grounded theory.. en mig langaði svo að setja fram líkan um mínar niðurstöður svo að ... Í gær var ég komin á þá skoðun að mín rannsókn væri fyrirbærafræðileg eðlis, þar sem ég er að skoða ákveðna reynslu eða ákveðið fyrirbæri. Ég var rosalega ánægð með mig í gærkvöldi þegar ég taldi mig hafa fattað þetta loksins. Ég var búin að hugsa aðferðafræðikaflann í MA ritgerðinni út í eitt. Hún átti sem sagt að vera þekkingarfræðin sem social constructivism, kenningin sem symbolic interaction og aðferðafræðin sem fyrirbærafræði. En svo þegar ég mætt í tímann í dag komst ég að því að þetta virkar ekki þar sem ég hef safnað vettvangsnótum með viðtölum og þátttökuathugunum og ætla mér að beita fleiri aðferðum. Fyrirbærafræðin býður bara upp á viðtöl og er að skoða ákveðna reynslu með því að finna merkingu í gögnunum. Ég er ekkert endilega bara að skoða reynslu heldur líka viðhorf.. Þannig að ég dag hallast ég helst að því að ég sé með case stúdíu. Ég er að skoða út frá margs konar gögnum, það passar inn í case stúdíuna. Þannig að höfuðverkur dagsins er að finna hvernig social constuctivism og symbolic interaction vinna með case stúdíunni. Hausinn er að springa, ósköp einfaldlega! Ég held að ég hafi aldrei á mínum tæplega 5 ára ferli í HÍ þurft að hugsa eins mikið. Það líka skiptir svo miklu máli að þetta sé rétt- annars er hægt að rústa MA ritgerðinni ef ég hef ekki nógu góðan aðferðafræðilegan kafla. Ég fæ alveg hroll að hugsa um það að kynna ritgerðina mína og segja: þetta er case stúdía á menningu og viðhorfum til sérskóla... og svo kemur einhver eins og kannski JTJ og segir: afhverju segirðu það? er þetta ekki meira í ætt við etnógrafíska rannsókn... ég myndi bara standa eins og kúkur og ekki getað sagt orð. Ég veit að þetta var hundleiðinlegt blogg- ég bara varð að koma þessu frá mér. HJÁLP