föstudagur, maí 20, 2005

Lyfjamisnotkun

Í Kastljósinu miðvikdagskvöldið 18.maí síðastliðinn var Þórarinn Tyrfingsson á spjallinu. Ég horfði svona á það með öðru auganu þar til hann fór að tala um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Hann vildi meina að læknar gætu ekki borið kennsl á fíknir þar sem lítið væri kennt um fíknisjúkdóma í Læknadeildinni og einnig vildi hann meina að það væri einungis fullorðið fólk misnota rítalín en ekki börn. Ég er ekki alveg sammála...
Það er auðvelt að misnota lyfseðilsskyld lyf á Íslandi, það er lítið eftirlit eftir ávísunum lyfja og lyfseðlum fólks. Að auki eru mörg önnur lyf sem eru misnotuð heldur en þessi klassísku, morfín og rítalín. Ef við hugsum okkar karlmann í Reykjavík sem misnotar lyf þá eru ýmsar leiðir fyrir hann til að verða sér út um lyfeðilsskyld lyf, einn dagur er nóg fyrir fullt af lyfjum.
Hann er sennilega með sérfræðing á sínum snærum, td geðlækni, svo er hann með heimilislækni og að auki hefur hann aðgang að bráðamóttökunni og læknavaktinni ef hann skyldi skyndilega verða slæmur. Hann gæti byrjað að morgninum og kvartað við heimilislækninn yfir höfuðverk sem er mjög slæmur, heimilislæknirinn ávísar sterkum verkjalyfjum handa honum þar sem hann á sögu um að þurfa sterk lyf. Því næst, eftir klukkan 17.00 fer hann á læknavaktina með sömu sögu og fær önnur lyf, sennilega ekki eins sterk og hjá heimilislækninum þar sem læknavaktin er með ákveðnar reglur um lyfjaávísanir. Svo gæti hann sest upp í bílinn og keyrt í Fossvoginn til að fara á bráðamóttökuna, segir sömu sögu og fer í endalausar rannsóknir. Niðurstaðan þar gæti verið sterk lyf til að slá á mestu verkina á meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsóknanna. Afrakstur dagsins gæti verið þrír lyfseðlar, og svo ef hann er öryrki þá eru lyfin sennilega niðurgreidd af ríkinu- ódýrt að misnota lyfseðilsskyld lyf ef maður er öryrki. Það versta af þessu öllu er að læknarnir vita ekkert af hvor öðrum. Þetta væri hægt að koma í veg fyrir að stórum hluta með því að halda miðlægan gagnagrunn þar sem haldið væri utan um lyfjaávísanir til einstaklinga, en því miður hefur Persónuvernd ekki gefið samþykki sitt fyrir því.
Annað mál, rítalínið. Það er að sjálfsögðu fullorðið fólk sem misnotar það en líka unglingar, og unglingar eru börn að 18 ára aldri. Ég hef kynnst því að unglingar sem greindir eru með ADHD og taka rítalín að staðaldri hafa margir hverjir selt félögum sínum lyfið því jú rítalín er nánast litli bróðir amfetamíns. Ég held að aðalmunurinn á þessum tveimur hópum sé sá að þeir fullorðnu fá lyfinu ávísað frá lækni með svindli og selja það á svörtum en unglingarnir fá lyfinu ávísað frá lækni því þeir eru með greiningu en selja það á svörtum til vinnanna til að fjármagna aðra neyslu. Unglinganna vegna er mjög gott að nýtt lyf er komið á markaðinn sem ekki þarf að taka eins oft við ADHD heldur eru þetta einhvers konar forðatöflur.
Ég held samt að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að fullu að lyfseðilsskyld lyf séu misnotuð. Flest öll þessara lyfja þurfa læknavísindin, hvernig væri ef morfín væri bara tekið af markaðnum? Það myndi einfaldlega ekki ganga og að auki færi morfín þá bara í sölu í undirheimum. En læknar þurfa aftur á móti að vera meira á varðbergi gagnvart neyslu sjúklinga sinna og síðast en ekki síst eiga ættingjar að láta lækna vita ef þeir vita að sjúklingar þeirra misnota lyf sem þeir ávísa.

Engin ummæli: